Naum björgun frá aftöku í Nígeríu: „Ég velti því enn fyrir mér hvort þetta sé draumur“

Í 19 ár fékk ThankGod Ebhos sjaldnast fullan nætursvefn. Nótt eftir nótt, þar sem hann lá á teppi í litlum klefa í Benin-fangelsinu í Suður-Nígeríu, fékk hann óhugnanlegar endurteknar martraðir um að fangelsisvörður kæmi bankandi á dyr hans til að fara með hann hálfsofandi að gálganum, setti reipi um háls hans og hengdi hann.

Í júní 2013 varð það hættulega nálægt því að verða að veruleika.

Í 19 ár fékk ThankGod Ebhos sjaldnast fullan nætursvefn.

Nótt eftir nótt, þar sem hann lá á teppi í litlum klefa í Benin-fangelsinu í Suður-Nígeríu, fékk hann óhugnanlegar endurteknar martraðir um að fangelsisvörður kæmi bankandi á dyr hans til að fara með hann hálfsofandi að gálganum, setti reipi um háls hans og hengdi hann.

Í júní 2013 varð það hættulega nálægt því að verða að veruleika.

ThankGod Ebhos vaknaði við hræðilegt hljóð þegar hurðin á aftökuherberginu var opnuð og fann hræðilega lykt af olíu til að smyrja gálgann. Hann vissi að lífi sínu væri senn að ljúka og hann hugsaði um börn sín.

Starfsmenn fangelsins komu í klefa hans og án þess að segja orð var hann færður í aftökuherbergið ásamt fjórum öðrum mönnum þar sem gálginn hafði verið gerður tilbúinn.

Hann lýsir því sem næst gerðist:

„Við vissum að við værum að fara að deyja, þeir þurftu ekki að segja okkur það. Þegar við vorum komnir að gálganum var hurðin lokuð fyrir aftan okkur. Allt var til reiðu í herberginu. Snaran var tilbúin og sandpokar á sínum stað. Lögreglustjórinn, böðullinn og annað starfsfólk fangelsins stóðu til hliðar og prestur bað til Guðs um að fyrirgefa okkur fyrir syndir okkar. Eftir bænina var aftökutilskipunin lesin fyrir okkur.“

Því næst var ThankGod spurður hvað hann vildi að fangelsið gerði við eigur hans. Hann sagði þeim að gefa allt til sonar síns, Solomon.

Augnabliki síðar hófust aftökur. ThankGod horfði á þegar samfangar hans fengu reipi um hálsinn, voru hengdir upp og börðust við að anda áður en þeir létu lífið.

„Fyrsti maðurinn var hengdur, andlit hans var hulið svörtum poka. Ég gat ekki hugsað um neitt annað en það hvernig ég myndi deyja. Síðan kom önnur, þriðja og fjórða aftakan þar til það var komið að mér.“

Þegar ThankGod stóð í „herbergi dauðans“ með snöruna um hálsinn og öran hjartslátt,  gerðist hið ómögulega.

Óvænt atburðarás átti sér stað, lögreglustjórinn sem las yfir aftökutilskipun ThankGods sagði að hann hefði verið dæmdur til dauða af aftökusveit en ekki með hengingu. Formsatriði sem myndi gera aftöku með hengingu ólöglega.

Á meðan snaran var enn um hálsinn á ThankGod voru málin rædd.

Starfsmaður fangelsins hringdi snöggt í aðalstöðvarnar í Abuja, höfuðborg Nígeríu. Þeir vildu fá staðfestingu að hægt væri að halda áfram með aftökuna þrátt fyrir hvað tilskipunin segði til um.

Sumir af starfsmönnum fangelsins héldu því fram af ákafa að enginn sem farið væri með að gálganum ætti að komast þaðan á lífi.

Á endanum krafðist lögreglustjórinn þess að aftakan færi ekki fram með hengingu. Hann fyrirskipaði að hurðin yrði opnuð og því var farið með ThankGod aftur að klefa sínum.

„Þegar ég kom aftur í klefann minn, þá tók ég strax upp símann minn til að hringja í Kola Ogunbiyi hjá Avocats Sans Frontières France í Nígeríu. Hann var hissa að heyra rödd mína og velti því fyrir sér hvers vegna ég hafði ekki verið tekinn af lífi. Hann sagði mér að hann ætlaði að hringja í Amnesty International til að draga athygli heimsins að máli mínu,“ sagði ThankGod.

Avocats Sans Frontières France í Nígeríu tóku upp mál hans og í janúar 2014 var lagt bann á aftöku á ThankGod Ebhos. Þann 10. júní 2014 var úrskurðað að taka ætti nafn ThankGod af skrá af dauðadeildinni.

ThankGod var leystur úr haldi 28. október 2014 af ríkisstjóranum í Kaduna, Mukhtar Yaro, sem náðaði hann.

„Ég fékk þrjár mínútur til að taka saman eigur mínar og yfirgefa fangelsið. Ég hélt að þetta væri draumur og sagði Guði að láta mig ekki vakna. Enn þann dag í dag velti ég því fyrir mér hvort þetta sé draumur því aldrei hefði ég trúað því að ég héldi lífi.“

„Í stöðugum ótta“

ThankGod Ebhos var dæmdur til dauða árið 1995 fyrir vopnað rán sem átti sér stað árið 1988. Hann hefur verið í fangelsi síðan hann var handekinn. Hann játaði glæp sinn og eyddi 19 árum á dauðadeild, þar sem hann velti því fyrir sér á hverjum degi hvort þetta væri hans síðasti dagur.

Hann lýsir lífinu í fangelsinu eins og „að lifa í stöðugum ótta“

 „Ég var aldrei rólegur. Í hvert sinn sem ég heyrði bankað á hurð mína þá hélt ég að þeir væru að fara með mig í aftöku. Ég hafði alltaf á tilfinningunni að ég væri að fara að deyja.“

Hann missti þó aldrei vonina. Hann lærði að lesa og skrifa í fangelsinu og að spila á gítar og píanó.

ThankGod er einn af þeim heppnu.

Nýlega kom út ársskýrsla Amnesty International um dauðarefsinguna.

Að minnsta kosti 1.588 mann eru á dauðadeild í Nígeríu. Þar af eru 658 sem voru dæmdir til dauða á síðasta ári.

Dauðarefsingin er grimmileg og óafturkræfanleg og hún á ekki rétt á sér á 21. öldinni. Refsingin brýtur á réttinum til lífs. Nígería ætti að fara eftir þeirri þróun sem á sér stað á alþjóðavísu gegn þessari ómannlegu aðferð með því að afnema dauðarefsinguna að fullu.