Í lok síðasta árs efndi Íslandsdeild Amnesty International til samkeppni meðal framhaldsskóla landsins um besta árangurinn á bréfamaraþoni samtakanna í þágu verndar og virðingar mannréttinda, víðs vegar um heiminn.
Í lok síðasta árs efndi Íslandsdeild Amnesty International til samkeppni meðal framhaldsskóla landsins um besta árangurinn á bréfamaraþoni samtakanna í þágu verndar og virðingar mannréttinda, víðs vegar um heiminn. Sex framhaldsskólar skráðu sig til leiks og var árangur skólanna glæsilegur, en samtals skrifuðu menntskælingar 7.267 aðgerðakort til ellefu landa, þar sem mannréttindi eru fótumtroðin.
Nemendur í Menntaskólanum við Hamrahlíð báru sigur úr býtum og skrifuðu þeir 2.971 aðgerðakort þar sem þrýst var á yfirvöld að gera úrbætur í mannréttindamálum.
Fyrir hönd Íslandsdeildar Amnesty International mun Jóhanna K. Eyjólfsdóttir framkvæmdastjóri afhenda nemendum Menntaskólans við Hamrahlíð farandgrip sem Steingrímur Eyfjörð myndlistarmaður hannaði. Verðlaunaafhendingin fer fram í Miklagarði í Menntaskólanum við Hamrahlíð föstudaginn 15. febrúar klukkan 12:00.
Nemendur í framhaldsskólum landsins skrifuðu um fjórðung allra þeirra bréfa sem send voru frá Íslandi til stuðnings þolendum mannréttindabrota. Í kjölfar bréfamaraþons Íslandsdeildar Amnesty International 2012 voru send 28.649 bréf og kort til stjórnvalda víða um heim sem og persónulegar kveðjur til þolenda mannréttindabrota.
