Neyðarástand í Kongó

Átök halda áfram á ýmsum vígstöðvum í Norður-Kivu í Lýðveldinu Kongó þrátt fyrir að uppreisnarhópurinn National Congress for the Defense of the People (CNDP) hafi lýst yfir vopnahléi þann 29. október. Árásir CNDP í október hröktu stjórnarherinn og hundruð þúsunda borgara á flótta í átt að Goma, sem er höfuðborg héraðsins.

 Átök halda áfram á ýmsum vígstöðvum í Norður-Kivu í Lýðveldinu Kongó þrátt fyrir að uppreisnarhópurinn National Congress for the Defense of the People (CNDP) hafi lýst yfir vopnahléi þann 29. október. Árásir CNDP í október hröktu stjórnarherinn og hundruð þúsunda borgara á flótta í átt að Goma, sem er höfuðborg héraðsins.

Yfir 250.000 manns hafa nú þegar flúið átökin og fjöldi fólks á flótta í héraðinu er nú að minnsta kosti 1.2 milljón manns, mögulega hærri. Flestir þeirra búa nú í flóttamannabúðum á litlu svæði sem stjórnarherinn ræður enn yfir kringum Goma.

Neyðarástand ríkir í Norður-Kivu héraði, en öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandið og Afríkusambandið sitja með hendur í skauti. Þeim hefur láðst að styrkja friðargæslulið SÞ á svæðinu, MONUC, og veita því þann aukna liðstyrk og vopn sem friðargæsluliðið þarf á að halda til að geta verndað almenna borgara.

Aðstæður í flóttamannabúðunum eru sagðar skelfilegar. Margar nýjar búðir eru í burðarliðnum, en ýmsar þeirra eru án salerna, aðgangi að vatni og neyðarskýla. Sumar þessara búða eru nokkur hundruð metra frá víglínunni.

Farið er að bera á kóleru í búðunum. Mannúðarsamtök gera sitt besta til að hjálpa þeim sem eru á flótta, en eiga í miklum erfiðleikum að ráða við starf sitt vegna umfangs vandans.

Ekki er vitað um örlög flóttafólks í stórum hluta héraðsins, þar sem uppreisnarmenn ráða ríkjum eða hjálparstofnanir komast ekki að með aðstoð sína. Talið er að tugþúsundir manna séu á vergangi, án aðstoðar yfirvalda eða hjálparsamtaka.

 

Ástand mannréttinda er jafn skelfilegt og ástand mannúðarmála. Aðfaranótt 6. nóvember börðust hersveitir CNDP við hersveitir tengdar stjórnvöldum um yfirráð yfir bænum Kiwanja. Að bardögunum loknum fóru hermenn CNDP, að sögn, hús úr húsi og leituðu að hermönnum stjórnvalda.

Vitni segja Amnesty International að stórir hópar karlmanna hafi verið teknir frá heimilum sínum og teknir af lífi af hersveitum CNDP. Flestir karlmannanna voru á aldrinum 18 til 30 ára, íbúar Kiwanja, „ungir feður og nýgiftir menn (“jeunes papas et nouveaux mariés”). Hersveitir á vegum stjórnvalda eru einnig taldar hafa tekið borgara af lífi, sem þær töldu stuðningsmenn CNDP í Kiwanja og nágrenni.

Sjötíu og tveir einstaklingar hafa nú þegar verið grafnir í bænum, samkvæmt heimildum Amnesty International. Sumir þeirra virðast hafa lent í kúlnahríð orrustunnar, en margir voru drepnir í kjölfar hennar. Líkamar þessa fólks bera merki kúlnahríðar og hnífstungna.

 

Talið er að minnsta kosti 18 manns hafi verið drepnir í Goma aðfaranótt 30. október. Flestir voru fórnarlömb vopnaðra rána og gripdeilda stjórnarhermanna sem voru á flótta gegnum borgina.

Amnesty International fær daglegar fregnir af öðrum stríðsglæpum og alvarlegum mannréttindabrotum. Frá héruðunum Masisi og Rutshuru berast fregnir af umfangsmiklum mannránum á börnum til barnahermennsku, sem og af nauðgunum og drápum á óbreyttum borgurum.

Neyðarástandið hefur leitt til margvíslegra neyðarfunda háttsettra embættismanna. En þeir fundir hafa ekki bjargað einu einasta lífi hingað til. Margar ríkisstjórnir hafa lýst yfir vilja til að efla friðargæsluliðið, en öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur enn sem komið er ekki leyft að fjölgað verði í herliði friðargæslunnar eða vopnabúnaður þess efldur.

 

Amnesty International hvetur alþjóðasamfélagið til að:

 

Hætta afsökunum sínum;

styrkja MONUC þegar í stað;

koma á öruggum flutningaleiðum svo að mannúðaraðstoð geti borist um Norður-Kivu;

þrýsta með samræmdu átaki á stríðandi fylkingar að þær hætti öllum mannréttindabrotum.

 

Þrýstu á öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að grípa til aðgerða (aðgerð frá AI Mexíkó) !