Neyðarástand í Myanmar: Ríkisstjórnir í Asíu hvattar til að þrýsta á stjórnvöld í Myanmar

Leiðtogar Asíuríkja hafa verið hvattir til að þrýsta á herstjórnina í Myanmar að grípa til tafarlausra aðgerða til að takast á við skelfingarástandið í landinu, sem sífellt fer versnandi.

Leiðtogar Asíuríkja hafa verið hvattir til að þrýsta á herstjórnina í Myanmar að grípa til tafarlausra aðgerða til að takast á við skelfingarástandið í landinu, sem sífellt fer versnandi. Amnesty International telur að með beinum hindrunum í vegi neyðaraðstoðar geti stjórnvöld í Myanmar verið sek um að brjóta gegn rétti íbúa landsins til lífs, fæðu og heilsu.

Tími skiptir öllu ef takast á að bjarga mannslífum. Stjórnvöld í Myanmar fullyrða að þau þarfnist ekki hjálpar við að útvega og dreifa matvælum og annarri aðstoð til fórnarlamba náttúruhamfaranna í landinu, en stofnanir SÞ, óháðir eftirlitsaðilar, og starfsfólk alþjóðlegra mannúðarsamtaka sem og starfsfólk að mannúðarmálum innanlands leggja síaukna áherslu á versnandi aðstæður hundruð þúsunda fólks sem á um sárt að binda vegna fellibylsins Nargis.

 

Ríkisstjórn Myanmar hefur ekki greitt fyrir útgáfu vegabréfsáritunar til sérfræðinga í mannúðaraðstoð. Þetta er í hrópandi mótsögn við annað ríki á svæðinu, Indónesíu, sem brást við flóðbylgjunni 2004 með samvinnu við alþjóðasamfélagið (þar á meðal her Bandaríkjanna og annarra ríkja)

Framkvæmdastjórar landsdeilda Amnesty International í Asíu og við Kyrrahafið hafa hvatt ríkisstjórnir á svæðinu til að auka þrýsting á stjórnvöld í Myanmar að taka á móti og greiða fyrir stórfelldri alþjóðlegri aðstoð sem þörf er á til að tryggja rétt fórnarlamba fellibylsins Nargis til lífs, fæðu og heilsu.

Japan, Indland, Suður-Kórea og Kína eru best til fallin að þrýsta á stjórnvöld í Myanmar að afnema hindranir og hleypa aðstoð og hjálpargögnum inn í landið til þeirra milljóna sem á þurfa að halda.

 

Nú er nokkuð um liðið frá því að fellibylurinn Nargis olli gríðarmiklum spjöllum við Irrawaddy árósana, olli dauða tugþúsunda og gerði rúmlega milljón manns heimilislausa. Þetta fólk skortir helstu nauðsynjar, eins og mat, húsaskjól og heilsugæslu. Það þarfnast hjálpar þegar í stað. SÞ áætla að um 2.400.000 manns búi við þessar aðstæður um þessar mundir.

Opinberar tölur um látna eru nú um 78.000. Sú tala gæti orðið hærri. Tölur frá SÞ benda til að um 220.000 manns hafi enn ekki komið í leitirnar.

 

Eftir að SÞ sendi út ákall um neyðaraðstoð hafa stjórnvöld víða um heim lagt fram milljónir í aðstoð við fórnarlömbin og mörg hjálparsamtök bíða nú átekta í Tælandi. En stjórnvöld í Myanmar standa enn í vegi fyrir neyðaraðstoðinni. Þau hafa hægt á dreifingu neyðaraðstoðar, neita að falla frá kröfu um vegabréfsáritanir og neita að flýta útgáfu slíkra áritana fyrir erlent hjálparstarfsfólk. Sendiráð Myanmar héldu meira að segja upp á þrjá hátíðisdaga meðan sérfræðingar biðu eftir vegabréfsáritunum.

Börn eru í sérstakri hættu í eftirmála náttúruhamfara, þar sem þau verða fljótlega vannæringu og smitsjúkdómum að bráð. Aðgerðaleysi stjórnvalda í Myanmar gæti valdið dauða margra sem annars væri hægt að bjarga. Myanmar er aðili að Barnasáttmála SÞ og stjórnvöld í landinu eru skuldbundin til að tryggja rétt þeirra til lífs, fæðu og heilsu eins og kostur er.

 

Lestu meira

Myanmar obstructionism costs lives
Myanmar: Constitutional referendum flouts human rights