Nígería: Stöðvum refsileysi vegna lögregluofbeldis

Í Nígeríu hefur almennum borgurum verið nauðgað, þeir pyndaðir og kúgaðir og jafnvel myrtir af lögreglumönnum sem tilheyra sérsveit lögreglu gegn ránum, SARS (e. Special Anti-Robbery Squad). Stjórnvöld í Nígeríu neyddust til að leggja niður sérsveitina í kjölfar mótmæla en það er ekki nóg. Fórnarlömb þessara glæpa bíða enn réttlætis. Kallað er eftir því að bundið verði enda á refsileysi vegna glæpa SARS-sérsveitarinnar.

Taktu þátt í starfi Amnesty og skráðu þig í sms-aðgerðanetið hér!

Um alla Nígeríu hefur fólk sameinast og mótmælt lögregluofbeldinu. Nú fara íbúar Nígeríu fram á umbætur og að lögreglumenn í SARS sem framið hafa mannréttindabrot verði sóttir til saka.

Lögreglumenn í SARS eru alræmdir fyrir morð, kúganir og pyndingar. Í mörg ár hafa mannréttindasamtök og fjölmiðlar fjallað um þessi mannréttindabrot.

Þolendur og aðstandendur þeirra sem hafa verið myrtir hafa lagt sig í hættu við að segja frá ofbeldinu og leita réttlætis. Þessi hrottafengnu mál hafa leitt til mótmæla þar sem krafist er umbóta. Nú er tími til kominn að binda enda á refsileysi vegna glæpa SARS-sveitarinnar.

SMS-félagar krefjast þess að Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu og Abubakar Malami, ríkissaksóknari geri umbætur á starfsemi lögreglunnar í Nígeríu og að þeir aðilar sem bera ábyrgð á þessum mannréttindabrotum verði sóttir til saka.

Lestu meira um stöðu tjáningarfrelsis í Nígeríu hér