Hryllileg myndskeið, ljósmyndir og vitnisburðir sem Amnesty International hefur tekið saman, varpa ljósi á ný sönnunargögn um stríðsglæpi, þar á meðal aftökur án dóms og laga og önnur alvarleg mannréttindabrot í Norðaustur-Nígeríu.
Hryllileg myndskeið, ljósmyndir og vitnisburðir sem Amnesty International hefur tekið saman, varpa ljósi á ný sönnunargögn um stríðsglæpi, þar á meðal aftökur án dóms og laga og önnur alvarleg mannréttindabrot í Norðaustur-Nígeríu, á meðan barátta hersins gegn Boko Haram og öðrum vopnuðum hópum stigmagnast.
Myndskeiðin, sem komist var yfir með hjálp fjölmargra heimildarmanna í ferð til Borno-fylkis, afhjúpa ljóslifandi sönnunargögn um fjölmarga stríðsglæpi sem eiga sér stað í Nígeríu.
Þar á meðal eru skelfileg myndskeið af föngum sem eru skornir á háls, hver á eftir öðrum, og fleygt í fjöldagrafir af hendi manna sem virðast vera meðlimir nígeríska hersins og Borgaralegu stríðsfylkingarinnar (Civilian Joint Task Force), borgaralegs varaherliðs sem fjármagnað er af ríkinu. Myndskeiðin sýna einnig afleiðingar af innrás Boko Haram í þorp þar sem hinn vopnaði hópur drap tæplega 100 einstaklinga og eyðilagði eða skemmdi fjölmörg heimili og aðrar byggingar.
„Þessi átakanlegu gögn eru enn frekari sönnun um þá hræðilegu glæpi sem framdir eru skefjalaust af öllum aðilum átakanna. Nígeríumenn eiga betra skilið – hvers konar mynd er dregin upp þegar meðlimir í hernum framkvæma svona yfirgengilega glæpi og fanga það á filmu?“, segir Salil Shetty, framkvæmdastjóri Amnesty International.
„Þetta eru ekki myndir sem við búumst við að sjá frá ríki sem telur sig gegna leiðtogahlutverki í Afríku. Þetta hræðilega myndefni er stutt af fjölmörgum vitnisburðum sem við höfum tekið saman og gefa til kynna að aftökur án dóms og laga séu, í reynd, framkvæmdar reglubundið af nígeríska hernum og Borgaralegu stríðsfylkingunni.
Yfir 4000 einstaklingar hafa verið drepnir, aðeins á þessu ári, í átökunum milli nígeríska hersins og Boko Haram, þar á meðal hafa 600 manns verið teknir af lífi án dóms og laga í kjölfar árásar Boko Haram á herbúðir nígeríska hersins í Maiduguri þann 14. mars síðastliðinn.
Á nýliðnum mánuðum hafa átökin stigmagnast í Norðaustur-Nígeríu, og breiðst út til smærri bæja og þorpa sem færast smátt og smátt fremst á víglínuna. Í júlí síðastliðinn varð bærinn Damboa í Borno-fylki fyrsti bærinn sem Boko Haram yfirtók, síðan forseti landsins, Goodluck Jonathan, lýsti yfir neyðarástandi í maí 2013.
Hin harkalega hegðun nígeríska hersins hafði einnig áhrif á fólk í Kaduna-fylki í júlí. Tólf einstaklingar, flestir úr hópi sjía-múslima, sem leiddir voru af sjeiknum El Zakzaky, virðast hafa verið drepnir í varðhaldi hjá hernum. Þeir voru handteknir eftir þátttöku í, að því er virtist, friðsamlegum mótmælum þar sem 21 mótmælandi, þar á meðal tvö börn, voru einnig drepin í skotárás hersins.
Amnesty International sendir ákall á nígerísk yfirvöld til að tryggja að her þeirra hætti umsvifalaust að brjóta mannréttinda- og mannúðarlög. Allar fregnir af aftökum án dóms og laga, öðrum stríðsglæpum og alvarlegum mannréttindabrotum verður að rannsaka tafarlaust og vandlega af sjálfstæðum, óhlutdrægum aðilum, og draga verður hina seku til ábyrgðar.
„Meðlimir Boko Haram og annarra vopnaðra hópa eru ábyrgir fyrir fjölmörgum svívirðilegum glæpum – svo sem brottnámi skólastúlkna í Chibok fyrir meira en þremur mánuðum – en hlutverk hersins á að vera að vernda fólk, ekki að misþyrma því enn frekar,“ segir Salil Shetty.
„Neyðarástand á ekki að vera afsökun fyrir lögleysu. Því miður eru sömu samfélögin að verða fyrir barðinu á bæði Boko Harm og nígeríska hernum.“
Viðurstyggilegar aftökur án dóms og laga
Myndbandsupptaka sem Amnesty International hefur undir höndum sýnir meðal annars hryllilega atburði sem áttu sér stað nærri Maiduguri í höfuðborg Borno-ríkis, þann 14. mars árið 2014. Þar má sjá, að því er virðist, meðlimi nígerískra hersveita og Borgaralegu stríðsfylkingarinnar notast við sverð til að skera fjölda fanga á háls og kasta síðan líkunum í fjöldagröf. Myndbandsupptakan sýnir 16 unga menn og drengi sitja í röð á jörðinni. Hver maðurinn á fætur öðrum er síðan kallaður til og skipað að leggjast á jörðina fyrir framan gröfina. Fimm þeirra eru myrtir á þennan hátt - örlög hinna sjást ekki á upptökunni en samkvæmt framburði vitna voru aðrir níu skornir á háls með sverði og þeir sem eftir voru skotnir til bana.
Annað myndskeið sem tekið var fyrr um daginn, á sama stað, sýnir marga af sömu ódæðismönnunum standa vopnaða yfir tveimur föngum sem látnir eru grafa gröf áður en þeir eru drepnir. Öðrum fanganum er skipað að leggjast niður við gröfina á meðan meðlimir Borgaralegu stríðsfylkingarinnar halda höfði hans og fótum niðri. Aðili sem virðist vera foringi stríðsfylkingarinnar stígur með hægri fæti á líkama fangans, hefur sverðið til himins, kyssir það og hrópar, „deyðu hermaður“ og sker síðan á háls unga mannsins með sverðinu. Aðrir meðlimir nígeríska hersins og Borgaralegrar stríðsfylkingar hrópa, „Já, foringi, dreptu hann“.
Sjónarvottar staðfestu að myndbandsupptökurnar eru frá 14. mars 2014, daginn sem Boko Haram gerði árás á herbúðir nígeríska hersins í Maiduguri. Að sögn leystu Boko Haram meðlimi sína úr gæsluvarðhaldi og skipuðu öðrum föngum að ganga til liðs við sig eða halda til síns heima. Eftir að Boko Haram yfirgáfu bæinn voru 600 einstaklingar, flestir fangar sem náðust aftur, drepnir án dóms og laga. Fangarnir sem sjást í myndskeiðinu voru teknir til fanga á nýjan leik af meðlimum Borgaralegu stríðsfylkingarinnar í Giddari Poli, nærri herbúðunum, þar sem fjölmörg vitni hafa staðfest að fjöldi annarra fanga voru skotnir til bana eftir að hafa verið færðir í hendur stjórnarhersins. Herinn tók síðan líkin og aðra fanga á stað fyrir utan Maiduguri, nálægt Giddari, þar sem aftökur fóru fram og voru teknar upp á myndband.
Smölun stjórnarhersins í Bama
Annað myndskeið sem Amnesty hefur undir höndum sem sönnunargagn, sýnir alvarleg mannréttindabrot sem áttu sér stað í bænum Bama 70 kílómetra suðaustur af Maiduguri. Bama er eitt af mörgum samfélögum sem hefur orðið fyrir vopnuðum árásum Boko Haram en hefur einnig verið skotmark nígeríska hersins sem handtekið hefur fjölda íbúa á handahófskenndan hátt undir því yfirskini að þeir séu meðlimir í Boko Haram.
Sjónarvottar greindu Amnesty International frá aðgerð af hendi nígeríska hersins og Borgaralegu stríðsfylkingarinnar sem átti sér stað 23. júlí árið 2013 þar sem ráðist var inn á markað í Maiduguri að morgni dags og öllum karlmönnum á svæðinu skipað að halda fyrir á afmörkuðum stað og afklæða sig. Samkvæmt frásögn sjónarvotta var mönnunum skipað að mynda röð og loka augunum um leið og þeim var ýtt í átt að manni sem sat í nálægri bifreið. Maðurinn gaf síðan merki um hverjir ættu að halda til hægri og hverjir til vinstri. Allt að 35 menn, sem fyrirskipað var að halda sig vinstra megin voru, að áliti nígeríska hersins, meintir meðlimir Boko Haram. Hinir 300 sem sendir voru hægra megin hlutu náð hersins.
Myndbandið sem Amnesty International hefur undir höndum staðfestir frásagnir fjölda sjónarvotta sem greindu frá atburðinum. Nígeríski herinn og meðlimir Borgaralegu stríðsfylkingarinnar fyrirskipuðu meintum Boko Haram meðlimum að leggjast hlið við hlið á jörðina og börðu þá síðan með prikum og sveðjum. Einn sjónarvottanna greindi Amnesty International frá því að einn hermannanna hafi öskrað: „þú verður að berja, jafnvel drepa þessa, þeir eru meðlimir í Boko Haram“.
Myndefnið sýnir hvernig herinn og Borgaralega stríðsfylkingin skjóta fagnaðarskotum á meðan þessi „skimun“ stendur yfir. Síðar voru allt að 35 mönnum safnað saman í herfarartæki og þeir færðir í herstöðvarnar í Bama.
Nokkrum dögum síðar, á hádegi þann 29. júlí, létu hermenn fangana lausa og fluttu þá aftur til síns heima þar sem þeir skutu þá, nokkra í einu, áður en þeir köstuðu líkunum í grafir. Einn heimamaður tjáði Amnesty International hvernig byssuskotin ómuðu frá klukkan tvö um eftirmiðdaginn og inn undir kvöldið, þar sem hermenn skutu mennina og komu líkunum fyrir á mismunandi stöðum í bænum.
Ættingi eins þeirra sem var tekinn af lífi án dóms og laga lýsti eftirmálanum: „Þarna gerðu allir sér grein fyrir því að þetta fólk hafði verið drepið, og tóku að hlaupa um til að leita eftir þeim. Við fundum ættingja okkar nálægt Brama-brúnni. Það voru margir með okkur. Þeir höfðu skotið fimm manns, bara á þessum stað. Þarna voru fimm lík, þar á meðal ættingi minn. Hann var með skotsár í bringunni og var einungis í buxum. Við tókum líkið og jörðuðum það. Það er ekkert dánarvottorð, sjúkrahúsið í Bama er óstarfshæft. Það er enginn staður til þess að bera fram kvörtun, það eru takmarkanir á ferðafrelsi innan bæjarins. Allir hafa lagt það sem gerðist í hendur guðs.“
Mannskæðar árásir Boko Haram
Rétt eins og í mörgum öðrum samfélögum í Norðaustur-Nígeríu, hafa íbúar Bama búið í stöðugum ótta við árásir Boko Haram og annarra vopnaðra hópa. Árásirnar eru stundum taldar vera hefndaraðgerðir fyrir samstarf íbúanna með nígeríska hernum, að áliti vopnuðu hópanna. Í mörgum þessara árása veitir herinn litla mótstöðu.
Ein mannskæðasta árás Boko Haram stóð yfir í nokkrar klukkustundir að morgni dags, þann 19. febrúar árið 2014, þar sem, að sögn heimamanna, tæplega 100 manns létust og yfir 200 manns særðust. Heimatilbúnar sprengjur og handsprengjur voru notaðar til þess að eyða stórum svæðum bæjarins. „Uppreisnarmennirnir fóru um, drápu, brenndu og eyðilögðu,“ tjáði einn íbúi Bama Amnesty International.
Myndbrot sem voru tekin í kjölfarið sýna sviðin bílhræ og brenndar byggingar, þar á meðal efstu hæð hallarinnar Shehu. Sjónarvottar sögðu Amnesty International að skólar og aðrar stjórnsýslubyggingar hafi einnig verið sprengdar eða brenndar og ökutæki yfir 100 íbúa eyðilögðust.
Myndefnið sýnir raðir látinna, líkin vafin inn og tilbúin til greftrunar.
Amnesty International kallar eftir tafarlausri, sjálfstæðri, óháðri og ítarlegri rannsókn á alvarlegum og kerfisbundnum brotum allra aðila átakanna á mannréttinda- og mannúðarlögum, sem eiga sér stað í Norðaustur Nígeríu. Stjórnvöld í Nígeríu verða að fordæma opinberlega slík brot, sem fela meðal annar í sér geðþóttahandtökur, einangrunarvarðhald, þvinguð mannshvörf, pyndingar og aðra illa meðferð, sem og aftökur án dóms og laga sem nígeríski herinn stendur að.
Amnesty International hvetur almenning til að taka þátt í Twitter-aðgerð og þrýsta á forseta Nígeríu að setja á fót óháða rannsókn á meintum stríðsglæpum. Twitter-skilaboðin munu berast aðstoðarmönnum forsetans.
Tillögur að Twitter-skilaboðum:
@abati1990 @doyinokupe More than 600 executed on 14 March 2014. When will President Jonathan #InvestigateWarCrimes ? owl.li/zYdht
@abati1990 @doyinokupe Internal investigations are not enough, President Jonathan must #InvestigateWarCrimes owl.li/zYdht
Amnesty varar við myndunum sem birtast á myndbandinu.
