Á síðasta ári tók fjöldi Íslendinga þátt í alþjóðlegri aðgerð þar sem þrýst var á fylkisstjóra á óseyrum Nígerfljóts að náða Moses, ungan pilt frá Nígeríu, sem var pyndaður og dæmdur var til dauða með hengingu eftir átta ár í fangelsi.
Á síðasta ári tók fjöldi Íslendinga þátt í alþjóðlegri aðgerð þar sem þrýst var á fylkisstjóra á óseyrum Nígerfljóts að náða Moses, ungan pilt frá Nígeríu, sem var pyndaður og dæmdur var til dauða með hengingu eftir átta ár í fangelsi. Hann var ásakaður um stela þremur farsímum og öðrum samskiptabúnaði. Alls söfnuðust rúmlega 16.000 undirskriftir frá Íslandi árið 2014 vegna Moses í gegnum sms-aðgerðanetið, netákallið og á bréfamaraþoni samtakanna. Íslandsdeildinni bárust þær stórkostlegu fréttir í gær að fylkisstjórinn ákvað að náða þennan unga pilt og verður hann leystur úr haldi á næstu dögum.
Moses lét eftirfarandi orð falla þegar ljóst var að hann yrði náðaður:
„Ég er djúpt snortinn. Ég þakka Amnesty International og aðgerðasinnum samtakanna fyrir stórkostlegan stuðning sem gerðu mig að sigurvegara í þessum aðstæðum. Félagar Amnesty International og aðgerðasinnar eru hetjurnar mínar. Ég fullvissa þá um að þessi ótrúlegi stuðningur sem þeir hafa sýnt mér er ekki fyrir borð borinn. Með náð guðs mun ég uppfylla væntingar þeirra. Ég heiti því að gerast aðgerðasinni sjálfur og berjast fyrir aðra. Ég þakka einnig fylkisstjóranum fyrir góðverk sitt og að standa við orð sín.“
Íslandsdeildin þakkar öllum þeim sem börðust fyrir lausn Moses heilshugar fyrir þátttökuna.
Samtakamáttur einstaklinga eins og ykkar sem af þrautseigju halda baráttunni áfram í þágu þeirra sem sæta grófum mannréttindabrotum skilar sér sannarlega. Við erum djúpt snortin á þessum gleðidegi.
