Ný mannréttindahandbók komin út

Komin er út á vegum Íslandsdeildar Amnesty International handbók um mannréttindafræðslu, Fyrstu skrefin, í íslenskri þýðingu Erlends Lárussonar. Handbókin er ætluð kennurum, leiðbeinendum og öðrum sem vinna með ungu fólki og vilja kynna mannréttindi í kennslu-og fræðslustarfi sínu.

Komin er út á vegum Íslandsdeildar Amnesty International handbók um mannréttindafræðslu, Fyrstu skrefin, í íslenskri þýðingu Erlends Lárussonar. Handbókin er ætluð kennurum, leiðbeinendum og öðrum sem vinna með ungu fólki og vilja kynna mannréttindi í kennslu-og fræðslustarfi sínu.

Handbókin er ætluð til fræðslu um undirstöðuatriði þar sem kynnt eru sérstök verkefni sem miðuð eru við aldur bæði yngri og eldri barna. Nálgun efnisins er meira á hagnýtum en fræðilegum nótum.

 

Bókinni er bæði ætlað að veita aðstoð við fræðslu um mannréttindi og fræðslu í þágu mannréttinda. Verkefnin sem kynnt eru eiga að færa nemendum færni, þekkingu og viðhorf sem þau þurfa á að halda til að skilja að mannréttindi eru mikilvæg og þau beri að virða og verja.

 

Handbókin er hugsuð sem tæki fyrir kennara og leiðbeinendur sem nýtist þeim vel í starfi. Með útgáfu bókarinnar er Íslandsdeild Amnesty International að bregðast við brýnni þörf á hagnýtu efni við kennslu mannréttinda.  Bókin hentar vel við kennslu í lífsleikniáföngum og að auki nýtist hún vel sem viðbótarefni í ýmsu öðru námi og einnig þegar unnið er með vandamál á borð við einelti.

 

Handbókin er rúmlega 200 blaðsíður í A4 broti. Bókin skiptist í sex kafla sem bera yfirskriftirnar: Fyrstu skrefin, Verkfærin, Yngri börnin, Eldri börnin, Mannréttindasáttmálar og Næstu skref. Bókin hefur nú þegar verið þýdd á fjölmörg tungumál og er notuð víða um heim af kennurum, bæði sem kenna mannréttindi og öðrum sem samþætta mannréttindafræðslu öðrum námsgreinum. Handbókinni hefur alls staðar verið tekið mjög vel, sérstaklega vegna þess hversu hagnýt hún er.

 

 

Bókin kostar 3900 kr. Hægt er að kaupa bókina á skrifstofu deildarinnar og í Skólavörubúðinni.  Allar frekari upplýsingar er hægt að fá á skrifstofu Íslandsdeildar Amnesty International að Hafnarstræti 15, Reykjavík í síma 551 6940. Hægt er að senda pantanir á amnesty@amnesty.is