Refsileysi er allsráðandi innan lögreglunnar og veldur því að pyndingar lögreglu ná fram að ganga óhindrað á Filippsseyjum, samkvæmt nýjustu skýrslu Amnesty International, Above the Law: Police Torture in the Philippines sem gefin var út í tilefni að nýrri herferð til að stöðva pyndingar þar í landi.
Refsileysi er allsráðandi innan lögreglunnar og veldur því að pyndingar lögreglu ná fram að ganga óhindrað á Filippsseyjum, samkvæmt nýjustu skýrslu Amnesty International, Above the Law: Police Torture in the Philippines sem gefin var út í tilefni að nýrri herferð til að stöðva pyndingar þar í landi.
Þrátt fyrir að Filippseyjar hafi fullgilt tvo helstu alþjóðlega samninga gegn pyndingum þá eru aðferðir eins og raflost, sýndaraftökur, vatnspyndingar, kæfingar með plastpoka, barsmíðar og nauðganir notaðar af lögreglu til að fá fram játningar sem og tæki til fjárkúgunar.
„Alltof mörgum lögregluþjónum á Filippseyjum er einungis annt um byssurnar en ekki lögreglumerkið - þeir misbeita valdi sínu og hafa í flimtingum skyldu sína til að vernda og þjóna fólkinu,“ sagði Salil Shetty, framkvæmdastjóri Amnesty International í Manila í tilefni af setningu herferðarinnar.
Löggjöfin er til staðar fyrir stjórnvöld en nú þarf að framfylgja lögunum eða eiga það á hættu að lögreglan setji sig ofar lögum.
Það hefði átt að marka þáttaskil fyrir fimm árum þegar framsækin lög gegn pyndingum voru innleidd í landinu en síðan þá hefur ekki einn einasti lögregluþjónn verið sakfelldur, sem vekur upp spurningar um árangur laganna.
Filippseyjar er þriðja landið af fimm sem Amnesty International beinir sjónum sínum að í alþjóðlegri herferð til að stöðva pyndingar. Skýrslan Above the law beinir kastljósinu að því hvernig og hvers vegna stjórnvöld bregðast skyldum sínum um að framfylgja banni gegn pyndingum.
„Filippseyjar gera sjálfum sér óleik – landið er til fyrirmyndar hvað varðar að skrifa undir mannréttindasáttmála en án öflugra lögsókna gegn pyndurum þá er hætta á að mannréttindaskuldbindingar verði að innantómum loforðum,“ sagði Salil Shetty.
„Stjórnvöld glutra úr höndum sér tækifæri til að verða fyrirmyndar fordæmi um mannréttindaskuldbindingar í Asíu“.
Skýrslan byggir á ítarlegri rannsókn, þar á meðal eru 55 uggvænlegir vitnisburðir þolenda pyndinga frá því árinu 2009, þegar innleidd voru lög á Filippseyjum sem gerðu pyndingar refsiverðar. Tuttugu og einn af þolendunum sem tekin voru viðtöl við var barn þegar pyndingarnar og önnur ill meðferð átti sér stað. Átta manns sögðu að þeim hefði verið ógnað með byssu eða voru látin taka þátt í „rússneskri rúllettu“. Í skýrslunni eru einnig skráðar nokkrar tilraunir til aftöku utan réttar, tveir þolendur sem komust lífs af sögðu Amnesty International að þeir hefðu verið skotnir og skildir eftir til að deyja.
Í einu sérlega hrollvekjandi tilviki, fannst afskorið höfuð með þremur skotsárum. Fjölskylda Darius Evangelista staðfesti að höfuðið væri af Darius. Hann var dyravörður (e.porter) sem var handtekinn af lögreglu í Manila. Samfangar hans sögðu að hann hefði verið færður inn á einkaskrifstofu eldri lögregluþjóns með pökkunarlímband fyrir augun. Þegar Darius var færður út af skrifstofunni heyrðu samfangar hans lögregluþjóninn segja: „Gangið frá honum“. Darius sást ekki á lífi eftir það.
Átakanlegt myndband, sem virðist hafa verið tekið upp á farsíma, var síðar sýnt í innlendu og erlendu sjónvarpi. Þar sést Darius æpa og engjast um af sársauka á meðan að maður situr í hvítri skyrtu og heldur á bandi sem er bundinn við lim Darius og togar harkalega í það nokkrum sinnum. Einkennisklæddir lögreglumenn eru sjáanlegir á myndbandinu. Þrátt fyrir sönnunargögn, var enginn af lögreglumönnunum sakfelldur. Þrír af sjö lögreglumönnunum sem sakaðir voru um aðild að pyndingum gegn honum leika enn lausum hala.
Miskunnarleysi lögreglunnar er algjört og vinnubrögðin geðþóttaleg. Jerryme Corre sagði Amnesty International að tíu óeinkennisklæddir menn með byssur hefðu ráðist á hann og barið út á götu áður en þeir færðu hann á lögreglustöð.
Þar var hann barinn í iljarnar með tréfstaf, hann var tekinn úr stuttbuxum sínum til að kæfa hann með, pyndaður með vatni og honum gefið raflost klukkutímum saman. Á meðan á yfirheyrslu stóð, kölluðu þeir hann ítrekað með röngu nafni. Að lokum kom fulltrúi til að bera kennsl á hann og sagði lögreglunni að þeir hefðu handtekið rangan mann, en engu að síður var hann ákærður.
Sögur líkt og af Darius og Jerryme hafa orðið til þess að traust almennings til lögreglunnar er í sérlegu lágmarki. Könnun á vegum Transparency International gaf til kynna að 69% Filippseyinga telja lögregluna spillta. Engu að síður hafa stjórnvöld bersýnilega brugðist því að berjast gegn óheiðarlegum lögreglumönnum.
Fáir þora að kvarta undan lögreglunni, þar sem þeir vita að þeir eiga á hættu á að verða fyrir áreitni og ógnunum frá lögreglunni sjálfri eða hún ráði óþokka til verksins.
Rowelito Almeda, 45 ára, var handtekinn, barinn og honum gefið raflost ítrekað á þeim fimm dögum sem hann var í haldi í leyni á varðhaldsmiðstöð í Laguna en þar notuðu lögreglumenn „pyndingarlukkuhjól“ til að ákveða hvaða pyndingar yrðu notaðar á fanga. Honum var bjargað af Mannréttindanefnd Filippseyja en eftir að hann hafði sagt þeim frá pyndingunum leitaði lögregluþjónn til frænda síns til að bjóða honum pening til að myrða Rowelito.
Fyrir vikið þegja þolendur þunnu hljóði yfir raunum sínum. Fimm þolendanna sem Amnesty International tók viðtal við fyrir skýrsluna höfðu lagt inn formlega kvörtun vegna meðferðar lögreglunnar en drógu hana til baka vegna hótana og ógnana.
Langflestir þorðu ekki að leggja inn kvörtun yfirhöfuð. Aðrir töldu að kvörtun væri gagnslaus. Frá því að Mannréttindanefnd Filippseyja var stofnuð árið 2001 hefur ráðið fengið til sín 457 tilkynningar um pyndingar eða illa meðferð. Ekki eitt einasta af þessum málum hefur leitt til sakfellingar.
Þeir sem leggja fram kvörtun eiga fullt í fangi með að komast í gegnum skrifræðið þar sem reglur og verklag er óskýrt og mótsagnakennt. Kvörtunum er oft vísað á bug vegna formsatriða. Jafnframt ítarlegum ábendingum Amnesty International, hafa samtökin lagt til að leyst verði úr þessari flækju með því að stofna eina sameiginlega nefnd sem er óháð og skilvirk og tekur við öllum kvörtunum undan lögreglu.
„Fimm ár, hundruð kvartana og engar sakfellingar, það er átakanlegt hve augljóst það er að lögum gegn pyndingum er ekki framfylgt,“ sagði Salil Shetty.
„Samhljóða átak þarf til að stöðva pyndingar og refsileysið sem viðheldur því. Byrja þarf á skilvirkum forvörnum en þegar það bregst þarf að tryggja að enginn sé ofar lögum með því að gera ítarlegar rannsóknir, vera með öflugt ákæruvald og hafa aðgengilegt og óháð fyrirkomulag til að leggja fram kvörtun.
