Þann 10. mars 2009 voru 50 ár liðin frá misheppnaðri uppreisn Tíbeta 1959, sem leiddi til þess að Dalai Lama, leiðtogi Tíbeta, flúði til Indlands. Á síðasta ári minntust Tíbetar uppreisnarinnar með fjölmörgum mótmælum í Tíbet og nærliggjandi héruðum.
Þann 10. mars 2009 voru 50 ár liðin frá misheppnaðri uppreisn Tíbeta 1959, sem leiddi til þess að Dalai Lama, leiðtogi Tíbeta, flúði til Indlands.
Á síðasta ári minntust Tíbetar uppreisnarinnar með fjölmörgum mótmælum í Tíbet og nærliggjandi héruðum. Mótmælin fóru að mestu friðsamlega fram. Í kjölfar þeirra sættu margir Tíbetar geðþóttahandtökum og öðrum mannréttindabrotum, þeirra á meðal langri varðhaldsvist og fangelsun, pyndingum og illri meðferð.
Kínversk stjórnvöld hafa lengi þverskallast við að taka margvísleg umkvörtunarefni Tíbeta til greina. Tíbetar hafa kvartað yfir ójafnræði í atvinnuráðningum og aðgengi að menntun, fjölda Tíbeta sem sitja í fangelsum og stóraukinni „þjóðræknikennslu“. Framferði stjórnvalda skýrir aukin mótmæli síðustu 12 mánaða.
Samtök Tíbeta í öðrum löndum hafa skrásett milli 130-200 mótmæli frá mars 2008.
Munkar, nunnur og almenningur hafa tekið þátt í fjölmennum mótmælum víða í Tíbet og annars staðar. Samfara þessu koma fréttir af auknum öryggisráðstöfunum og áköllum kínverskra stjórnvalda um að „mola“ allar samkomur til stuðnings Dalai Lama. Sérstaklega hefur borið á þessum aðgerðum kínverskra stjórnvalda undanfarnar vikur. Þrátt fyrir það halda fjöldamótmæli áfram.
Sumir fréttaskýrendur telja aðgerðir stjórnvalda vísvitandi ögrun við mótmælendur, en meðal þess sem stjórnvöld hafa gert er að neyða munka og nunnur til að yfirgefa klaustur sín og fjölga hermönnum á götum úti.
Stjórnvöld hleyptu nýrri herferð af stokkunum í Lhasa í Tíbet þann 18. janúar. Herferðin hafði það markmið að „styðja eindregið við allsherjarreglu og stöðugleika í borginni“ og var sérstaklega beint gegn þeim sem ekki hafa fasta búsetu í Lhasa.
Að sögn Lhasa Evening News gerði lögreglan „gaumgæfilega rannsókn“ á 6.000 manns fyrstu þrjá daga herferðarinnar. Þann 24. janúar hafði lögregla fært 81 manns í varðhald. Tveir þeirra voru hnepptir í varðhald fyrir að hafa „afturhaldssöngva og afturhaldsskoðanir“ í farsímum sínum.
Lögregla er sögð hafa skotið 24 ára gamlan tíbetskan munk sem kveikti í sjálfum sér þann 27. febrúar 2009. Munkurinn hélt á heimagerðum fána Tíbet ásamt mynd af Dalai Lama.
Takmarkanir á ferðafrelsi gera að verkum að erfitt er að staðfesta fregnir af atburðum. Óttast er að þau mannréttindabrot, sem heimurinn fréttir af, séu einungis lítill hluti af heildarfjölda mannréttindabrota.
Erlendir blaðamenn þurftu áður sérstakt leyfi til að ferðast til Tíbet. En í kjölfar mótmælanna vorið 2008 hafa þeir einungis fengið að heimsækja Tíbet í hópferðum í umsjón kínverskra stjórnvalda.
Amnesty International hefur hvatt kínversk stjórnvöld til að leyfa mannréttindasérfræðingum SÞ og öðrum óháðum eftirlitsaðilum að rannsaka ástand mannréttinda í Tíbet og nærliggjandi héruðum, þar sem fjölmennir hópar Tíbeta búa.
Kínversk stjórnvöld hafa hafnað heimsókn ýmissa sérfræðinga SÞ til Tíbet á þeirri forsendu að heimsóknirnar séu „óhentugar“. Þau birtu skýrslu í mars um „lýðræðisumbætur í Tíbet í 50 ár“ þar sem þau ásökuðu „vestræn and-kínversk öfl“ um að þjálfa „Dalai Lama klíkuna“ og styðja „aðskilnaðaröfl“ sem reyni að hefta og kljúfa Kína.
Stjórnvöld gera lítið úr mótmælunum og neita að horfast í augu mikla óánægju Tíbeta. Þau halda því fram að 21 hafi látist vegna aðgerða mótmælenda en heimildir úr röðum Tíbeta herma að yfir 100 Tíbetar hafi verið drepnir.
Skýrslur bandarískra stjórnvalda greina frá því að enn hafi ekki verið gerð grein fyrir afdrifum 1.000 manns, sem handteknir voru í mótmælunum í mars 2008. Í frásögnum þeirra, sem sleppt hefur verið úr haldi, er greint frá ömurlegum aðstæðum í fangelsum, barsmíðum, miklum skorti á læknisþjónustu og ónógu fæði.
Opinberar skýrslur herma að 76 einstaklingar hafi verið dæmdir í tengslum við mótmælin vorið 2008. Fangelsisdómarnir voru frá þremur árum til lífstíðarfangelsis. Flestir hinna dæmdu voru sakfelldir fyrir glæpi eins og „íkveikjur, gripdeildir, efna til deilna og valda vandræðum, safna saman hóp til að ráðast gegn stofnunum ríkisins, trufla opinberar samgöngur og þjófnað“.
Amnesty International hefur rannsakað og skrásett mörg dæmi um óréttlát réttarhöld yfir mótmælendum, þar sem kínversk stjórnvöld hafa ítrekað gerst sek um að gera ekki greinarmun á friðsamlegum mótmælum og glæpsamlegu athæfi.
Amnesty International hefur hvatt kínversk stjórnvöld til að gera grein fyrir öllum þeim sem voru drepnir, særðust, hurfu og upplýsa um alla er sæta varðhaldsvist í Tíbet og og greina frá nöfnum þeirra, hvar þeir eru niðurkomnir og hverjar ákærurnar gegn þeim eru.
Einnig hvetur Amnesty International til þess að:
fram fari tafarlaus og óháð rannsókn á ásökunum um pyndingar og illa meðferð á Tíbetum, sem sætt hafa varðhaldsvist, í því skyni að draga hina ábyrgu til saka
gerð verði tafarlaus og óháð rannsókn á dauða þeirra einstaklinga sem létust í varðhaldsvist undanfarið ár
þeim verði tafarlaust sleppt úr haldi sem voru handteknir fyrir það eitt að nýta sér tjáningar-, fundar- og félagafrelsi sitt.
LESTU MEIRA
One thousand protesters unaccounted for in Tibet lock-down (Report, 20 June 2008)
Tibet off the Human Rights Council’s agenda (News, 26 March 2008)
Hundreds of Tibet protesters arrested in Nepal (News, 24 March 2008)
Tension in Tibet as police raid homes (News, 18 March 2008)
