Hundruð þúsunda sem flúðu nýlegt stríð á norðaustanverðu Sri Lanka og búa nú í flóttamannabúðum njóta ekki grundvallarmannréttinda eins og ferðafrelsis.
Hundruð þúsunda sem flúðu nýlegt stríð á norðaustanverðu Sri Lanka og búa nú í flóttamannabúðum njóta ekki grundvallarmannréttinda eins og ferðafrelsis.
Tveir mánuðir eru liðnir frá því að átökum lauk á Sri Lanka en stjórnvöld hafa enn ekki brugðist við neyð flóttafólks með fullnægjandi hætti. Flóttamannabúðirnar eru yfirfullar og hreinlæti mjög ábótavant.
Auk þess eru þetta í raun varðhaldsbúðir. Herinn rekur búðirnar og íbúum þeirra er í raun meinað að yfirgefa þær og fá því ekki notið grundvallarréttinda. Stjórnvöld fullyrða að þetta sé nauðsynlegt í eftirlitsskyni, en það réttlætir ekki að ferðafrelsi óbreyttra borgara, þar á meðal heilla fjölskylda, gamals fólks og barna, sé takmarkað ótímabundið.
Flóttafólkinu hefur jafnvel verið bannað að ræða við hjálparstarfsfólk. Engir óháðir eftirlitsaðilar fá að heimsækja búðirnar óhindrað og íbúar þeirra eru varnarlausir gagnvart þvinguðum mannshvörfum, mannránum, geðþóttahandtökum og kynferðisofbeldi.
Úr flóttamannabúðunum á Menik-býlinu
Tölur stjórnvalda segja að ríflega 409.000 manns hafi lagt á flótta undan átökum Tamílsku tígranna og stjórnarhers Sri Lanka. Að minnsta kosti 280.000 manns hafa flúið svæði sem áður voru á valdi Tamílsku tígranna. Fólksflótti jókst mjög þaðan yfir á yfirráðasvæði Sri Lanka stjórnarinnar frá og með mars 2009.
Flóttafólkið er hýst í 41 flóttamannabúðum sem ná yfir 4 héruð í landinu. Þeirra á meðal eru að minnsta kosti 50.000 börn. Meirihluti þeirra sem hafa flúið er nú í Vavuniya-héraði. Stærstu flóttamannabúðirnar þar eru á Manik-býlinu.
Þegar Ban Ki-moon framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna heimsótti nokkrar af flóttamannabúðunum í maí sagði hann: „Ég hef ferðast um heiminn og heimsótt svipaða staði, en þetta eru langverstu aðstæður sem ég hef séð“.
Nokkur árangur hefur náðst í að koma til móts við frumþarfir íbúanna, en enn vantar mikið uppá til að tryggja rétt þeirra, til heilsu, matar, vatns, og aðgengi þeirra að fjölskyldum sínum.
Amnesty International hefur hvatt stjórnvöld á Sri Lanka til að:
binda enda á ýmsar takmarkanir á einstaklingsfrelsi, þar á meðal ferðafrelsi
tryggja að flóttamannabúðirnar verði færðar undir stjórn borgaralegra yfirvalda frekar en hersins
veita innlendum og alþjóðlegum samtökum, eftirlitsaðilum og hjálparstofnunum tafarlausan og fullan aðgang til að fylgjast með ástandinu og koma í veg fyrir mannréttindabrot.
Stjórnvöld á Sri Lanka fullyrtu þann 21. maí síðastliðinn að flóttafólkið fengi að fara innan 180 daga. En mjög fáum hefur verið leyft að hverfa aftur til heimila sinna eða vina og fjölskyldna annars staðar og flóttafólkið hefur ekki frelsi til að yfirgefa búðirnar.
Amnesty International hvetur stjórnvöld á Sri Lanka til að hætta að takmarka ferðafrelsi flóttafólksins, sem jafngildir í raun geðþóttavarðhaldsvist. Stjórnvöld verða að leyfa fólki sem þarf á tímabundnu athvarfi í flóttamannabúðunum að halda að koma og fara að eigin frumkvæði.
Stjórnvöld á Sri Lanka verða að gera skýra áætlun til að tryggja að flóttafólk geti snúið aftur heim eða fengið einhverja aðra viðunandi lausn sinna mála eins fljótt og auðið er. Þá áætlun verður að gera í samstarfi og samvinnu við alþjóðasamfélagið og flóttafólkið sjálft.
