Örfá ríki standa að baki flestum aftökum

Samkvæmt ársskýrslu Amnesty International árið 2013 um dauðarefsinguna jókst aftökufjöldi í Íran og Írak mjög á síðasta ári þrátt fyrir að aukning sé í átt til afnáms dauðarefsingarinnar á heimsvísu. 

.

Samkvæmt ársskýrslu Amnesty International árið 2013 um dauðarefsinguna jókst aftökufjöldi í Íran og Írak mjög á síðasta ári þrátt fyrir að aukning sé í átt til afnáms dauðarefsingarinnar á heimsvísu.

Ískyggilegur fjöldi dauðarefsinga átti sér stað árið 2013 í afmörkuðum fjölda landa einkum í tveimur fyrrgreindum ríkjum Mið- Austurlanda. Tæplega 100 fleiri einstaklingar voru teknir af lífi árið 2013 samanborið við árið á undan sem er næstum 15 prósenta aukning.  

Í Íran var dauðarefsingunni beitt 369 sinnum og 169 sinnum í Írak árið 2013 sem setur umrædd lönd í annað og þriðja sætið yfir lönd sem oftast beita henni. Kína trónir enn í efsta sætinu yfir flestar afökur og þrátt fyrir að fjölda dauðarefsinga þar í landi sé haldið leyndum telur Amnesty International að þúsundir séu teknir af lífi í Kína á ári hverju.

Sádí Arabía (79 aftökur) og Bandaríkin (39 aftökur) koma næst í fjórða og fimmta sæti og Sómalía (34 aftökur) í sjötta yfir flestar aftökur.

Ef Kína er undanskilið er vitað að 778 aftökur áttu sér stað árið 2013 í 22 ríkjum samanborið við 678 aftökur árið 2012 í 21 ríki. Kúvæt, Indónesía, Víetnam og Nígería héldu áfram að beita dauðarefsingunni á síðasta ári. Í þremur löndum þar sem dauðarefsingum hefur ekki verið beitt í langan tíma var fólk tekið af lífi í fyrra. Í Indónesíu fór fram fyrsta aftakan í fjögur ár og í Kúveit sú fyrsta í sex ár. Í Nígeríu var fyrsta aftakan í sjö ár.

Þrátt fyrir bakslag á árinu 2013 þá hefur þeim ríkjum stöðugt fjölgað síðustu 20 árin sem afnumið hafa dauðarefsinguna og var þróunin jákvæð í öllum landsvæðum á síðasta ári. 

Mörg ríki sem beittu dauðarefsingunni árið 2012 tóku engan af lífi á síðasta ári, þar með talið Gambía, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Pakistan. Hvíta-Rússland beitti heldur ekki dauðarefsingunni árið 2013 sem þýðir að bæði Evrópa og Mið-Asía beittu í fyrsta sinn ekki dauðarefsingunni frá árinu 2009.

 Fyrir tuttugu árum beittu 37 ríki dauðarefsingunni markvisst. Árið 2004 var talan komin niður í 25 ríki og á síðasta ári beittu 22 ríki dauðarefsingunni. Aðeins níu ríki hafa beitt dauðarefsingunni árvisst síðustu fimm árin. „Þróunin er skýr, dauðarefsingin mun heyra fortíðinni til. Við skorum á stjórnvöld sem enn beita dauðarefsingunni í nafni réttlætis að koma á tafarlausu aftökustoppi með það að marki að afnema hana,“ segir Salil Shetty framkvæmdastjóri Amnesty International.

Í mörgum ríkjum hvílir mikil leynd yfir beitingu dauðarefsingarinnar, engar upplýsingar eru gerðar opinberar og í sumum tilfellum upplýsa stjórnvöld ekki fjölskyldumeðlimi, lögfræðinga eða almenning áður en aftökur fara fram.

Aftökuaðferðir

Meðal aftökuaðferða sem beitt var árið 2013 voru raflost, hálshöggning, henging, aftökusveitir og banvæn sprauta. Opinberar aftökur áttu sér stað í Íran, Norður-Kóreu, Sádí–Arabíu og Sómalíu. Fólk var dæmt til dauða fyrir margvíslegar sakir samanber þjófnað, fíkniefna- og auðgunarbrot, auk annarra gjörða eins og hjúskaparbrot eða guðlast sem ekki ættu að teljast til glæpa. Þá beittu mörg ríki óljósu orðalagi til að ná yfir pólitíska „glæpi“ í þeim tilgangi að taka raunverulega eða ímyndaða pólitíska andstæðinga af lífi.

Landsvæði

Mið-Austurlönd og Norður-Afríka

Mikil aukning var á aftökum í Írak en að minnsta kosti 169 einstaklingar voru teknir þar af lífi árið 2013 sem er aukning um nærri þriðjung frá árinu áður. Langflestir voru sakfelldir á grundvelli óljósra hryðjuverkalaga.

Í Íran viðurkenndu stjórnvöld opinberlega að 369 aftökur hafi farið fram árið 2013. Áreiðanlegar heimildir benda þó til þess að hundruð fleiri aftökur hafi átt sér stað með leynd sem þýðir að heildarfjöldinn er rúmlega 700. 

Sádí-Arabía hélt aftökum áfram af sama þunga og undangengin ár (a.m.k. 79 voru teknir af lífi árið 2013). Í fyrsta sinn í þrjú ár tóku stjórnvöld í Sádí-Arabíu ungmenni undir átján ára aldri af lífi í trássi við alþjóðleg lög. Eins eru miklar líkur á að börn hafi einnig verið tekin af lífi í Jemen og Íran.

Í flestum tilvikum er ekki farið að alþjóðalögum þegar réttað er yfir fólki sem á yfir höfði sér dauðarefsingu. Má þar nefna að pyntingum er beitt til þess að þvinga fram játningu. 

Ef Kína er undanskilið áttu 80 prósent af öllum aftökum í heiminum sér stað í Íran, Írak og Sádí-Arabíu árið 2013. Jákvæð þróun varð þó að nokkru marki á svæðinu. Engin/n var tekinn af lífi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í fyrsta sinn í þrjú ár og aftökum fækkaði í Jemen, annað árið í röð.

Afríka

Að minnsta kosti 64 aftökur fóru fram í fimm Afríkuríkjum í fyrra og er það mikil aukning á milli ára en 2012 var 41 tekinn af lífi í álfunni. Er aukningin langmest í Sómalíu en þar fór fjöldi aftaka úr 6 árið 2012 í a.m.k. 34 á síðasta ári. Löndin fimm sem beittu dauðarefsingunni voru:  Nígería, Botswana, Sómalía, Suður-Súdan og Súdan. Nígería, Sómalía og Súdan beittu samanlagt 90 prósent af öllum aftökum á svæðinu

Í Nígeríu voru fjórir menn hengdir í fyrstu aftöku landsins í sjö ár í kjölfar yfirlýsingar frá forseta landsins Jonathan Goodluck sem gaf grænt ljós á dauðarefsingar á nýjan leik í landinu.

Ýmis ríki á svæðinu þar með talið Benín, Gana og Síerra Leóne stigu mikilvæg skref í áttina að afnámi dauðarefsingarinnar, ýmist með breytingum á stjórnarskránni eða hegningarlöggjöfinni.

Bandaríkin

Bandaríkin eru eina ríki Norður-Ameríku sem beitir dauðarefsingum. Alls voru 39 teknir af lífi þar í fyrra sem er fjórum færri en árið 2012. Níu ríki Bandaríkjanna beittu dauðarefsingum í fyrra. Þar af fór 41% þeirra fram í Texas. 

Asía

Víetnam og Indónesía tóku aftur upp dauðarefsinguna á síðasta ári. Indónesía beitti dauðarefsingunni í fyrsta sinn í fjögur ár, en fimm menn voru teknir þar af lífið árið 2013, þar af voru tveir líflátnir fyrir fíkniefnaviðskipti.

Kína tók fleiri af lífi á síðasta ári en öll önnur lönd samanlagt en þar sem dauðarefsingin er ríkisleyndarmál þar í landi er ekki hægt að nálgast áreiðanleg gögn um raunverulegan aftökufjölda. Framfarir hafa verið litlar fyrir utan þær að Hæstiréttur Kína úrskurðaði nýverið bann við líffæragjöf úr líflátnum föngum.

Engar aftökur áttu sér stað í Singapúr og nokkrir fangar á dauðadeild fengu dóminn mildaðan.

Evrópa and Mið-Asía

Í fyrsta sinn frá árinu 2009 áttu engar aftökur sér stað í Evrópu eða Mið-Asíu. Eina landið í Evrópu sem enn beitir dauðarefsingunni er Hvíta-Rússland enda þótt engar aftökur hafi farið þar fram árið 2013.