Öryggissveitir í Ríó de Janeiro sýna sitt sanna andlit í aðdraganda Ólympíuleikanna í Brasilíu

Að hundrað dögum liðnum verður Ríó de Janeiro fyrsta borgin í Suður-Ameríku sem heldur flottustu sýningu í heimi – Ólympíuleikana.

Að hundrað dögum liðnum verður Río de Janeiro fyrsta borgin í Suður-Ameríku sem heldur flottustu sýningu í heimi – Ólympíuleikana. Þar munu 10.000 íþróttamenn keppa í 28 greinum og engu verður til sparað enda kostar viðburðurinn milljarða bandaríkjadala.
Ólympíuleikarnir eru hugsaðir sem friðarberi en koma þeirra til Ríó de Janeiro stefnir í að hafa þveröfug áhrif. Þúsundir ferðamanna munu brátt leggja leið sína frá flugvellinum í borgina sem oft er nefnd „Cidade Maravilhosa“ eða „Hin dásamlega borg“ vegna þeirrar náttúrlegu fegurðar sem fjöllin og strendurnar skapa. Fáir þessara ferðamanna munu heyra um lífið í þeim 600 fátækrahverfum sem Ríó de Janeiro rúmar, á meðan að afreksíþróttafólkið hleypur, stekkur og syndir leið sína í átt til frægðar.
Brasilía er það land þar sem flest morð eru framin ár hvert. Árið 2014, þegar Brasilía hélt heimsmeistaramótið í knattspyrnu, voru 60.000 manns myrtir. Þúsundir þessara morða voru framin af sama fólkinu og átti að veita almenningi vernd. Lögreglan í Río de Janeiro myrti 580 manns þetta ár sem er 40% aukning frá árinu áður. Árið 2015 hækkaði þessi tala enn frekar þegar 645 voru myrtir. Meirihluti fórnarlambanna eru ungir blökkumenn sem búa í fátækrahverfum borgarinnar. Það sem af er árinu 2016 hefur morðtíðni lögreglunnar aukist um 10% miðað við sama tímabil í fyrra. Nú þegar starfssemi öryggissveita er í fullum undirbúningi er hætta á að morðtíðnin aukist enn frekar ef ekki er gripið til viðeigandi öryggisráðstafana. Þangað til mun mikill fjöldi bæði herlögreglu og borgaralögeglu á götum Brasilíu vera sárköld áminning almennings um myrka daga einræðis í landinu.
Þungvopnað herlið leggur undir sig fátækrahverfi
Maré, sem er eitt af mörgum fátækrahverfum Ríó de Janeiro, gæti við fyrstu sýn verið fátækrahverfi í hvaða landi Suður-Ameríku sem er. Hrörlegar byggingar innan um götubása, þar sem bananar, egg og fótboltaskyrtur eru seldar, hrópa á meira rými. Ofan við hrörleg húsin getur á að líta flækta rafmagnsstrengi, þvers og kruss um strætin sem tengja heimilin við nærliggjandi rafmagsstöð. Unglingar líða framhjá á hjólum og vöruflutningabílar þröngva sér í gegnum þröng strætin. Þegar betur er að gáð kemur ýmislegt annað í ljós sem gerir þetta fátækrahverfi skelfilega frábrugðið öðrum stöðum. Á nánast hverju götuhorni í þessu stóra fátækrahverfi sem hýsir 140.000 íbúa situr unglingspiltur í stól með skammbyssu eða vélbyssu í kjöltu sér til verndar umráðasvæði þess gengis sem hann tilheyrir. Þessi sjón er svo algeng að staðarbúar veita því sjaldnast nokkra athygli. Andrúmsloftið er engu að síður oftar en ekki rafmagnað. Alltof gjarnan skapa hvellir hljómar byssuskota dauðadrunur.
Stuttu áður en heimsmeistaramótið í knappspyrnu fór fram árið 2014 lagði brasilíski herinn fátækrahverfið Maré undir sig, lagði þungvopnuðum skriðdrekum á þröngum götum hverfisins og kom 3000 hermönnum fyrir á eftirlitsstöðvum. Allt í nafni öryggis. Heimsmeistaramótið stóð yfir í mánuð en herinn dvaldi í Maré í rúmt ár. Íbúar stóðu mitt í eldlínunni í vopnuðum átökum fíkniefnagengja og öryggissveita ríkisins. Skriðdrekarnir voru fjarlægðir síðla árs í fyrra en í aðdraganda Ólympíuleikanna spá margir fyrir um endurkomu þeirra.
Vitor Santiago, 30 ára, hefur búið í Maré allt sitt líf. Á brennheitum febrúardegi í Brasilíu fyrir rúmu ári lofaði hann þriggja ára dóttur sinni, Beatriz að fara með henni á ströndina daginn eftir. Sú varð ekki raunin.
Kvöldið fyrir ætlan sína að hitta dótturina fór Vitor ásamt vinum sínum til að fylgjast með fótboltaleik. Þegar leiknum var lokið og þeir héldu heim á leið voru götur Maré yfirfullar af fólki og hermönnum brá fyrir alls staðar. Bílinn þeirra var stöðvaður af manni í herklæðum. Vitor og vinir hans stigu út úr bílnum og hermenn leituðu á þeim og gerðu leit í bílnum. Þar sem ekkert fannst, hvorki í bílnum né innanklæða á mönnunum, var þeim sleppt og þeir héldu för sinni áfram. Léttirinn var skammvinnur þar sem vinirnir sáu aðra eftirlitsstöð hersins innan seilingar og hægðu því á sér. Án nokkurrar viðvörunar hófu hermennirnir skothríð. Vitor reyndi að víkja sér undan þegar byssukúlum ringdi á bifreiðina en þegar ein kúlan sneið í gegnum bílinn fann hann fyrir óbærilegum sársauka. Byssukúlan olli rifbeinsbroti, rauf gat á lungu Vitor og hitti fyrir mænuna. „Á þessu augnabliki missti ég alla tilfinningu í líkamanum fyrir neðan mitti. Ég fann ekki fyrir fótunum. Ef að byssukúlan hefði lent aðeins hærra þá hefði ég lamast frá hálsi og niður. Ég var í bílnum og það eina sem ég man er hávaðinn þegar rúðurnar brotnuðu, ekki vitandi hvað væri á seyði. Ég vissi ekki hvar ég hafði slasast, hvort byssukúlan hafði sneitt í gegnum bílinn aftanverðan eða frá annarri hlið…það var blóð út um allt.“ Fyrir utan bílinn var hávaðinn hrikalegur, fólk grét og öskraði.
Vitor var í dái í viku og þegar hann komst til meðvitundar frétti hann að lífi hans hafi naumlega verið bjargað. Læknar töldu lífslíkur hans aðeins vera 7%. Vitor uppgötvaði einnig að önnur byssukúla hafi lent á vinstra lærinu, mölbrotið beinið og farið í gegnum hægra fótinn þar sem kúlan rauf gat á slagæð. Til að bjarga lífi Vitor urðu læknar að aflima hann. Honum var tjáð að tilfinning í neðri hluta líkamans myndi að líkindum aldrei koma að nýju.
Þrátt fyrir allt er Vitor engu að síður líklega meðal þeirra heppnu. Móðir hans hitti nýverið Terezinha de Jesus sem á ungan son sem lögreglan skaut til bana í apríl á síðasta ári. Tíu ára Eduardo sat á stigapallinum fyrir utan heimili sitt og lék sér með farsímann sinn þegar eftirlitslögregla átti leið hjá og skaut hann í höfuðið. Eduardo dó samstundis. Árásir sem þessar af hálfu lögreglu er svo algengar að þær rata sjaldnast í fréttirnar í Ríó de Janeiro. 
Vitor dvaldi á spítala í þrjá mánuði. Í rúmt ár hefur hann verið rúmfastur í litlu, gluggalausu herbergi á heimili foreldra sinna. Brattur, þröngur útistiginn sem liggur að heimilinu gerir Vitor ómögulegt að komast upp og niður í hjólastól.
„Ég þarf á heimili að halda sem er aðlagað að ástandi mínu. Ég vil geta gert sömu hluti og allir aðrir. Ég get ekki einu sinni farið í eldhúsið til að elda eða opnað ísskápinn. Það sem gerðist, gerðist – ég get ekki horfið aftur í tímann og fengið fótinn minn aftur. En tæknin er í örri þróun og kannski er bráðum mögulegt fyrir mig að endurheimta tilfinningu í líkamann og jafnvel að ganga að nýju.“
Engin rannsókn hefur átt sér stað á skothríðinni á Vitor og félaga, og enginn láta sæta ábyrgð. Slíkt sendir sárköld skilaboð til almennings um að ofbeldi af þessu tagi af hálfu öryggissveita ríkisins sé ásættanlegt og veitir gerendum frelsi til að endurtaka leikinn.
Ólympíuleikarnir eru innan seilingar en á bak við glitrið, töfrana og vegsemdina þrífast ofbeldisverk og morð. Án tafarlausra aðgerða af hálfu yfirvalda til að stöðva skotárásir öryggissveita og lögreglu, munu enn fleiri liggja í valnum eins og Vitor og Eduardo, og þá munu skipuleggjendur Ólympíuleikanna standa frammi fyrir því að brot á grundvallarréttinum til lífs varpi algerum skugga á viðburðinn.