“Við getum ekki útilokað að pyndingar eigi sér stað”
–Embættismaður norska utanríkisráðuneytisins í viðtali við norsku fréttastofuna NTB þann 27 júlí 2007
“Við getum ekki útilokað að pyndingar eigi sér stað”
–Embættismaður norska utanríkisráðuneytisins í viðtali við norsku fréttastofuna NTB þann 27 júlí 2007
Berskjaldaðir fyrir pyndingum
Í nýrri skýrslu Amnesty International kemur fram að alþjóðlegar öryggisveitir Atlantshafsbandalagsins, ISAF (International Security Assistance Force), hafi gert fanga berskjaldaða fyrir pyndingum og illri meðferð af hendi afganskra yfirvalda.
Skýrslan greinir frá því að ISAF- liðar, þá sérstaklega liðsmenn frá Belgíu, Bretlandi, Kanada, Hollandi og Noregi, hafi flutt fanga til leyniþjónustu Afganistans (NDS), þrátt fyrir ítrekaðar fregnir af pyndingum og illri meðferð á föngum af hendi leyniþjónustunnar. Claudio Cordone, yfirmaður rannsókna hjá Amnesty International bendir á að aðildarríkjum ISAF beri alþjóðleg skylda til að afhenda ekki fanga til afganskra stjórnvalda ef þeir eiga á hættu að verða pyndaðir eða mæta annarri illri meðferð. Fresta eigi því öllum fangaflutningum þangað til öryggisráðstafanir fyrir fangana hafa verið gerðar.
Nauðsyn á rannsókn
Sameinuðu þjóðirnar ítrekuðu í september síðastliðnum áhyggjur sínar yfir ásökunum um pyndingar og illa meðferð innan leyniþjónustunnar og fyrirskipuðu rannsókn á þessum ásökunum. Á síðustu tveimur árum hefur Amnesty International ítrekað fengið frásagnir af pyndingum og illri meðferð á föngum hjá leyniþjónustunni. Fangar hafa verið hýddir, þeim neitað um mat og hafa mátt þola afar mikinn kulda.
“Við vorum teknir til búða NDS í Kandahar… þeir börðu mig í bakið og magann með málmkaðli. Þeir settu málmkaðal undir bundnar hendur mínar og hné, hengdu mig niður úr krók í loftinu og héldu áfram að berja mig. Ég hékk í þessari stöðu í um klukkutíma og missti meðvitund.“ Vitnisburður sem gefinn var til Amnesty International í desember 2005.
Í skýrslu Amnesty International kemur m.a fram að fangar hafi verið pyndaðir eftir að kanadískir liðsmenn ISAF afhentu þá til afganskra stjórnvalda. Belgísk og hollensk yfirvöld hafi misst sjónar á föngum sem fluttir hafa verið til NDS. Breskir og hollenskir liðsmenn ISAF hafi átt í erfiðleikum við að tryggja sjálfstætt eftirlit með föngum í varðhaldi hjá afgönskum yfirvöldum. Skýrslan skoðar einnig tvíhliða samstarfssamninga á milli afganskra stjórnvalda og liðsafla ISAF, þar á meðal liðsafla Kanada, Danmerkur, Hollands, Noregs og Bretlands. Að sögn Claudio Cordone geta aðildarríki ISAF ekki hlaupist undan skyldu sinni að vernda einstaklinga frá slíkri meðferð með því að styðjast við tvíhliða samninga. Þessir samningar eiga að tryggja að komið sé fram við fanga samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum en hafa reynst ófullnægjandi.
Tillögur Amnesty International til úrbóta
ISAF fresti tímabundið öllum flutningum fanga til afganskra stjórnvalda og haldi þeim í þangað til að öryggisráðstafanir hafi verið gerðar.
Aðildarríki ISAf beiti sér fyrir umbótum innan afganska gæslukerfisins og kanni möguleika á því að staðsetja alþjóðlega starfskrafta innan afganskra gæslustöðva til þess að hafa eftirlit með og þjálfa nýja afganska gæsluliða.
Afganska ríkisstjórnin geri opinbera leynilega tilskipun forsetans hvað varðar störf leyniþjónustunnar og hefji aðskilnað gæslusviðs, rannsóknarsviðs og lögsóknarsviðs.
Afganska ríkisstjórnin staðfesti valfrjálsa bókun við Sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og bjóði sérlegum erindreka Sameinuðu þjóðanna um pyndingar til varðhaldsmiðstöðvanna í Afganistan.
Sjálfstæðar eftirlitssveitir fái óhindraðan og ótakmarkaðan aðgang að öllum varðhaldsstöðum undir stjórn NDS.
Hægt er að nálgast skýrslu Amnesty International hér: Afganistan: meðsekt ISAF í flutningum fanga til pyndinga?
