Fjölskyldur eru fyrirvaralaust þvingaðar af heimilum sínum og skildar eftir heimilislausar.
Eftir þvingaða brottflutninga í Nairobi í Kenía
Fjölskyldur eru fyrirvaralaust þvingaðar af heimilum sínum og skildar eftir heimilislausar. Ríkisstjórnir leyfa fyrirtækjum námavinnslu á svæðum frumbyggja án þess að fá heimild frá íbúum. Hálf milljón kvenna lætur lífið ár hvert vegna vandkvæða á meðgöngu, vandkvæða sem hægt er að koma í veg fyrir á einfaldan hátt. Þetta eru eingöngu örfá dæmi um það hvernig ríkisstjórnir vanvirða efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Fram til þessa hefur verið erfitt að leita réttar fólks sem brotið er á. Innan seilingar er að fólk geti loks leitað réttar síns hjá Sameinuðu þjóðunum þegar ríkisstjórnir bregðast íbúum og vanvirða réttindi þeirra.
Amnesty International hefur í mörg ár barist fyrir kæruleið sem endurspeglast í valfrjálsri bókun við Alþjóðasamninginn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Réttlæti er afar mikilvægt öllum einstaklingum, hópum og samfélögum sem verða fyrir mannréttindabrotum. Þeir þurfa virkt úrræði fyrir þann skaða sem þeir hafa orðið fyrir. Þetta gæti til dæmis þýtt að gefa fólki aftur heimili sem það var þvingað burt frá og veita því lagalaga tryggingu fyrir því að það verði ekki aftur þvingað af heimilum sínum. Mannréttindabrot viðgangast þegar ríkisstjórnir setja ekki lög, hafa ekki stefnu né fylgja eftir framkvæmdum sem nauðsynlegar eru til að stöðva brotin. Að baki getur legið vanræksla, mismunun í garð ákveðinna hópa eða yfirvöld hafa einfaldlega tekið ákvörðun um að gera ekkert til að vernda þessi réttindi.
Þegar ríki gerist aðili að valfrjálsa viðaukanum, hefur fólk loksins tækifæri til að leita réttar síns og greina frá þeim brotum sem það hefur orðið fyrir. Viðurkenning réttindanna verður þá ekki eingöngu í orði heldur einnig á borði. Í dag eru átta ríki aðilar að þessari mikilvægu bókun. Þegar tvö ríki til viðbótar gerast aðilar að henni mun hún ganga í gildi. Undirskrift og aðild Íslands skiptir því miklu til að hægt verði að tryggja betri mannréttindavernd bæði heima og heiman.
Amnesty International leggur ríka áherslu á að ríki heims gerist aðilar að valfrjálsri bókun við Alþjóðasamninginn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Bókunin er mikilvægt skref í þeirri viðleitni að tryggja aðgang að réttlæti fyrir þolendur mannréttindabrota. Fólk sem lifir í sárri fátækt og hópar sem eru á jaðri samfélaga sæta alvarlegustu brotunum á efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum, þar með talið réttinum til húsnæðis, fæðis, vatns og hreinlætis, svo og réttinum til heilsu og menntunar. Ríki sem gerast aðilar að bókuninni viðurkenna með undirskrift sinni að öll mannréttindi eru innbyrðis háð og skuldbinda sig til að uppfylla öll mannréttindi.
Með þessari valfrjálsu bókun hafa Sameinuðu þjóðirnar stigið stórt skref til að rétta af það ójafnvægi sem hefur viðgengist í alþjóðlegri mannréttindavernd. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna voru árið 1966 samþykktir tveir alþjóðlegir samningar sem eru sú meginstoð sem öll mannréttindavernd byggir á. Sama ár var gerð valfrjáls bókun við annan samninginn þ.e. Alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Aftur á móti er það ekki fyrr en árið 2008 sem sambærileg bókun var gerð við Alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Öll mannréttindi eru samofin og innbyrðis háð, eins og kemur skýrt fram í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Valfrjálsa bókunin tryggir að loksins geta einstaklingar, sem halda því fram að brotið hafi verið á þeim, lagt erindi fyrir sérstaka nefnd Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Nefndin mun taka mál til umfjöllunar og koma sjónarmiðum sínum á framfæri við ríkið sem í hlut á og einstaklinginn eða þann hóp sem leggur fram málið.
Amnesty International hefur á undanförnum árum sýnt fram á nauðsyn þess að tryggja þarf betur lagalega vernd þeirra sem sæta brotum á efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum. Valfrjálsa bókunin er mikilvægt skref í þeirri viðleitni. Samtökin hafa m.a. bent á þá staðreynd að fjöldi barna af Róma-uppruna í mörgum Evrópulöndum hafa ekki aðgang að menntun og að í fjölda Afríkuríkja er réttur til húsnæðis ekki virtur. Samtökin hvetja öll ríki heims til að skrifa undir og fullgilda bókunina
Ísland er eitt þeirra landa sem enn hefur ekki skrifað undir bókunina og stendur því þessi mikilvæga mannréttindavernd Íslendingum ekki til boða. Þau ríki sem gerst hafa aðilar að bókuninni viðurkenna algildi og órjúfanleika allra mannréttinda.
