Réttlæti í Mexíkó

Ég hef séð Claudiu Medina gráta margsinnis.

En í dag er í fyrsta sinn sem ég hef séð hana gráta af gleði og létti. Dómari hefur dregið síðustu ákæru gegn henni til baka, á þeim grundvelli að eina sönnunargagnið gegn henni, skýrsla sem var gerð af hernum, væri lygi.

Grein eftir Mariano Machain, herferðastjóra Amnesty International í Mexíkó.

Ég hef séð Claudiu Medina gráta margsinnis.

Hún grét þegar hún sagði mér frá pyndingum, þar á meðal kynferðislegu ofbeldi, sem hún þurfti að þola af hendi mexíkóskra hermanna árið 2012. Hún grét einnig þegar hún skýrði frá því hvernig væri að lifa með ákærur á bakinu, sökuð um að vera meðlimur í glæpagengi, í hættu að vera handtekin á ný hvenær sem er. Síðan sagði hún mér hvernig börn hennar þjáðust.

En í dag er í fyrsta sinn sem ég hef séð hana gráta af gleði og létti. Dómari hefur dregið síðustu ákæru gegn henni til baka, á þeim grundvelli að eina sönnunargagnið gegn henni, skýrsla sem var gerð af hernum, væri lygi.

Dómarinn staðfesti að eftir að Claudia var handtekin sætti hún pyndingum og kynferðislegu ofbeldi af hendi hermanna til þess að þvinga hana til að bendla sjálfa sig og aðra við fíkniefnaglæpi. Brotið átti sér stað 7. ágúst 2012 við hermannaskála í Veracruz-ríki í austurhluta Mexíkó.

 „Í tvö ár hef ég búið við ásakanir sem voru byggðar á pyndingum sem ég sætti. Þetta er búið að vera mjög erfitt. Í byrjun leit ég á þetta allt saman sem skrímsli sem stæði fyrir framan mig, eitthvað sem ég hélt að ég myndi aldrei ná að sigrast á,“ sagði Claudia.

„Þetta hafði áhrif á einkalíf mitt þar sem allir snéru baki við mér. Ég gat heldur ekki staðið mig að fullu í móðurhlutverkinu. Þetta hafði áhrif á mig fjárhagslega. Ég gat ekki gefið börnum mínum það sem þau voru vön að fá og það sem þau þurftu á að halda.“

Þann 6. febrúar síðastliðinn upplýsti dómari hana um að búið væri að fella niður síðustu ákæruna gegn henni, fyrir ólöglega vopnaeign.

„Ég er mun rólegri núna,“ sagði Claudia rétt fyrir blaðamannafund Amnesty International í Mexíkóborg.

„Ég get núna verið mun frjálsari ferða minna. Áður gekk ég um og bjóst við að vera handtekin og pynduð líkt og áður. En ekki lengur. Núna get ég borið höfuðið hátt og sagt: „Ég er saklaus og hef alltaf sagt sannleikann.““

En barátta Claudiu fyrir réttlæti er langt frá því að vera lokið.

„Kvörtun mín um pyndingar er nú hjá ríkissaksóknara. Málinu hefur ekkert miðað áfram en ég mun standa föst á mínu.“

Ríkissaksóknari segir að að Claudia verði að staðfesta hvort hún vilji halda áfram rannsókn á ásökunum um pyndingar. Það er svívirða. Pyndingar eru mjög alvarlegur glæpur og yfirvöldum ber skylda til að rannsaka vel allar kvartanir um leið og þær berast inn.

Þessi nálgun réttvísinnar sýnir hvernig refsileysi er viðhaldið. Samkvæmt opinberum tölum hafa mexíkósk alríkisyfirvöld aðeins náð sjö sakfellingum frá árinu 1991,  þrátt fyrir fjölmargar skráningar um pyndingar og illa meðferð af hálfu lögreglu og hersveita.

Síðastliðinn september gaf Amnesty International út skýrslu sem var hluti af alþjóðlegu herferðinni „Stöðvum pyndingar“ þar sem litið var á verulega aukningu á fjölda tilkynninga á pyndingum síðastliðinn áratug og hve ótrúlega fáar rannsóknir hafa verið gerðar.

Niðurstöðurnar eru í samræmi við það sem eftirlitsfulltrúi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri illri meðferð sagði, eftir nýlega heimsókn hans í Mexíkó, að  pyndingar þar í landi væru „útbreiddar“.

Ein ástæða fyrir skorti á réttlæti eru misbrestir á að skrifstofa ríkissaksóknara framkvæmi réttarlæknisskoðun á hugsanlegum fórnarlömbum á skjótan, viðeigandi og óháðan máta eins og tilgreint er í Istanbúl-bókuninni, sem er studd af Sameinuðu þjóðunum, og leggur fram viðmiðanir um hvernig skal rannsaka ásakanir um pyndingar.

Þetta átti við um mál Claudiu. Hún átti engra annarra kosta völ en að leita til óháðs réttarlæknis frá félagasamtökum á heimaslóðum sínum og frá Mannréttindanefnd Mexíkó. Það á eftir að koma í ljós hvort skrifstofa saksóknara samþykki þessar óháðu læknisskoðanir eða hvort að þeir sem pynduðu Claudiu verði dregnir til ábyrgðar.

En þrátt fyrir allar þrautir lítur Claudia björtum augum til framtíðar.

„Eftir þetta langa ferli sem ég þurfti að ganga í gegnum fékk ég löngun til að starfa í þágu mannréttinda til að sýna það að ég væri ekki glæpamaður eins og yfirvöldu töldu.“

„Ég læt það ekki viðgangast að önnur kona verði pynduð í Mexíkó“.