Tvö ár eru liðin frá lokum átakanna á Gasa og í Suður-Ísrael. Amnesty International hefur nú hrundið af stað herferð sem hefur það að markmiði að Mannréttindaráð SÞ, sem kemur saman í mars, hlusti á kröfur fórnarlamba átakanna um réttlæti.
Tvö ár eru liðin frá lokum átakanna á Gasa og í Suður-Ísrael. Amnesty International hefur nú hrundið af stað herferð sem hefur það að markmiði að Mannréttindaráð SÞ, sem kemur saman í mars, hlusti á kröfur fórnarlamba átakanna um réttlæti.
Íslandsdeild Amnesty International tekur þátt í alþjóðlegri undirskriftasöfnun:
www.amnesty.is/undirskriftir
á næstu tveimur mánuðum, þar sem þrýst er á Mannréttindaráðið að bregðast við kröfum ættingja hundruða óbreyttra borgara sem létu lífið í átökunum og þúsunda annarra sem særðust eða misstu heimili sín.
Samtökin skora á Mannréttindaráðið að undirbúa ályktun sem fordæmir ófullnægjandi rannsóknir bæði Ísraels og Hamas samtakanna á þeim alvarlegu brotum sem framin voru í átökunum. Ályktunin þarf einnig að fela í sér kröfu um aðgerðir af hálfu alþjóðasamfélagsins sem tryggja munu að réttlætið nái fram að ganga. Í ályktuninni þarf auk þess að vera ákall til saksóknara Alþjóðlega sakamáladómsstólsins um að ýta á dómaraskrifstofuna (Pre-Trial Chambers) að svara þeirri spurningu hvort Alþjóðlegi sakamáladómstólinn geti opnað rannsókn á grundvelli yfirlýsingar palestínskra yfirvalda frá því í janúar 2009, þar sem lögsaga dómstólsins er viðurkennd. Mannréttindaráðið ætti jafnframt að hvetja önnur ríki til að rannsaka þau alvarlegu mannréttindabrot sem framin voru í átökunum og sækja þá til saka sem ábyrgð bera á brotunum. Ríki geta hafið slíka rannsókn á grundvelli alþjóðlegrar lögsögu.
Mannréttindaráðið þarf að fara fram á aðgerðir af hálfu Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Allsherjarþingið hefur samþykkt tvær ályktanir þar sem skorað er á stjórnvöld í Ísrael og valdhafa Hamas samtakanna að hrinda af stað trúverðugum rannsóknum á átökunum, en bæði Ísrael og Hamas samtökin hafa hunsað ályktanirnar.
Mannréttindaráðið hefur fram til þessa ekki gripið til viðhlítandi aðgerða. Á síðasta fundi ráðsins, sem haldinn var í september 2010, samþykkti Mannréttindaráðið ályktun þar sem ekki var að finna nein ákvæði um hvernig réttlætinu skuli framfylgt. Nokkrir fulltrúar í Mannréttindaráðinu héldu því fram á september fundinum að með því að krefjast réttlætis fyrir fórnarlömb átakanna yrði friðarumleitunum Ísraelsmanna og Palestínumanna stefnt í hættu.
Amnesty International heldur því fram að viljaleysi alþjóðasamfélagsins að tryggja réttlæti fyrir fórnarlömb átakanna og vítahringur refsileysis, vegna mannréttindabrota í Ísrael og á hernumdu svæðunum í Palestínu, standi í vegi fyrir varanlegum friði.
Bakgrunnur
Tuttugu og tveggja daga hersókn Ísraelsmanna á Gasa-svæðinu lauk 18. janúar árið 2009. Um 1.400 Palestínumenn og 13 Ísraelsmenn lágu í valnum að átökunum loknum, meirihlutinn óbreyttir borgarar.
Í september 2009 komst rannsóknarnefnd á vegum SÞ, undir stjórn Richard Goldstone dómara, að þeirri niðurstöðu að báðir aðilar átakanna bæru ábyrgð á stríðsglæpum og mögulega glæpum gegn mannkyni. Rannsóknarnefndin lagði fram ítarlegar tillögur þar sem skorað var á stjórnvöld að tryggja fórnarlömbum átakanna skaðabætur. Sérstök tilmæli voru þess efnis að ísraelsk stjórnvöld og yfirvöld á Gasa fengju sex mánuði til að ábyrgjast trúverðugar rannsóknir á meintum brotum á alþjóðalögum í átökunum. Stjórnvöld beggja aðila munu hafa fengið eitt og hálft ár til að rannsaka meinta stríðsglæpi, þegar fundur Mannréttindaráðsins fer fram í mars.
Í september 2010 gaf Amnesty International út mat á rannsóknum Ísraelsmanna og Palestínumanna (http://www.amnesty.org/en/library/asset/MDE15/022/2010/en/8be04616-d547-4cbf-96dc-779b70394a35/mde150222010en.html)
og nefnd óháðra rannsakenda, sem Mannréttindaráðið setti á laggirnar til að fylgjast með framgangi rannsóknanna, gaf einnig út skýrslu (http://www2.ohchr.org/english/bodies/hrcouncil/docs/15session/A.HRC.15.50_en.pdf)
Óháða rannsóknarnefndin og Amnesty International komust að þeirri niðurstöðu að rannsókn Ísraelsmanna hafi skort gagnsæi, sjálfstæði og viðhlítandi sérfræðikunnáttu. Enda þótt Ísraelsmenn haldi rannsóknum áfram, bendir ekkert til þess að þær verði óháðar og gagnsæjar eða muni leiða til saksóknar á hendur þeim sem ábyrgð bera á mannréttindabrotunum í átökunum. Hið sama gildir um rannsóknir Hamas- samtakanna á meintum brotum. Rannsóknirnar skortir allan trúverðugleika.
Enda þótt hvorki ísraelsk stjórnvöld né palestínsku sjálfstjórnarsvæðin hafi fullgilt Rómarsáttmálann um Alþjóðlega sakamáladómsstólin, þá gaf dómsmálaráðherra Palestínu út yfirlýsingu fyrir hönd stjórnvalda palestínsku sjálfstjórnarsvæðanna, þann 22. janúar 2009, þess efnis að stjórnvöld viðurkenndu lögsögu Alþjóðlega sakamáladómsstólsins yfir „glæpum sem framdir hafa verið á palestínsku yfirráðasvæði frá 1. júlí 2002“. Yfirlýsingin gæti mögulega náð yfir öll mannréttindabrot, sem framin voru á Gasa og í Ísrael, er rannsóknarnefnd Mannréttindaráðsins lætur getið í skýrslu sinni.
Amnesty International bendir á að óháð lögsögu Alþjóðlega sakamáladómsstólsins geti öll ríki rannsakað og sótt til saka þá sem ábyrgð bera á brotunum fyrir dómstólum með því að beita alþjóðlegri lögsögu. Amnesty International bendir ennfremur á að Öryggisráð SÞ getur vísað átökunum á Gasa til Alþjóðlega sakamáladómsstólsins.
