Senn líður að Ólympíuleikunum og kastljós heimsins mun beinast að glitri og glamúr á meðan að ógnvænlegur fjöldi ungra blökkumanna í fátækrahverfunum týnir lífi sínu að ósekju, aðeins í nokkurra kílómetra fjarlægð frá leikunum. Allt vegna þess að heimurinn leit undan.
Grein eftir Rebeca Lerer, herferðastjóra Amnesty International í Brasilíu
Fjöldi loforða og þúsunda fagurra orða fylla þriggja binda framboðsgögn fyrir Ólympíuleikana í Ríó de Janeiro árið 2016. Allt frá því að Brasilía ávann sér réttinn til að halda Ólympíuleikana hafa margir íbúar landsins haft háar hugmyndir um að fá að standa að einum stærsta viðburði heims.
Í Ríó de Janeiro ríkir hins vegar bitur tilfinning um að atburðir fyrri ára séu að endurtaka sig en áður höfðu Pan-Ameríku leikarnir sem fram fóru árið 2007 og FIFA heimsmeistaramótið í knattspyrnu, árið 2014, verið haldin í borginni. Verðlaunapeningum, titlum og frægð fylgdi aukið lögregluofbeldi í fátækra- og úthverfum borgarinnar. Morð af völdum lögreglu jukust um 40% í Ríó de Janeiro fylkinu árið 2014 miðað við árið á undan. Frásagnir íbúa af mannréttindabrotum hersins, sem sinntu löggæslu í fátækrahverfum landins, jók á neikvæð tengsl íbúanna við heimsmeistaramótið.
Allt frá árinu 2009, þegar Ríó de Janeiro var valin til halda Ólympíuleikana, hafa 2.500 einstaklingar verið myrtir af völdum lögreglu og hers. Á undanförnum vikum hefur sú tilfinning verið ráðandi meðal margra að þó leikarnir séu ekki enn hafnir hafi Brasilía þegar beðið ósigurs, þar sem daglegar lögregluaðgerðir og skothríðir hafa skilið eftir sig blóði drifnar slóðir víða í fátækrahverfum.
Samkvæmt opinberu öryggisráði Brasilíu, Instituto de Segurança Pública, voru 40 einstaklingar myrtir af lögreglu í borginni í maímánuði sem er 135% aukning frá sama tímabili árið 2015. Í öllu Ríó de Janeiro fylkinu var aukning dauðsfalla af völdum lögreglu 90% á tímabilinu miðað við árið á undan.
Samfélögin sem verða einna helst fyrir barðinu á ofbeldi öryggissveitanna eru staðsett nálægt helstu leiðunum til og frá alþjóðlega flugvellinum og keppnissvæðum Ólympíuleikanna.
Til að bæta gráu ofan á svart lýsti fylkisstjórinn í Ríó de Janeiro, Francisco Domeles, yfir neyðarástandi í þeim tilgangi að kalla eftir frekari liðsauka hers og lögreglu fyrir Ólympíuleikana, jafnvel þótt það geti þýtt niðurskurð til almenningsþjónustu.
Yfirvöld í Ríó de Janeiro hafa annars verið lygilega þögul um ógeðfelld morð lögreglunnar allt frá því í apríl. Ofan á þetta bætist lamað dómskerfi og skortur á skaðabótum til þolenda lögregluofbeldis og fjölskyldna þeirra. Gríðarlegur skortur er á rannsóknum á morðum sem lögregla og her bera ábyrgð á og enginn er látinn svara til saka fyrir. Í stað þess að horfast í augu við þessa misbresti hafa stjórnvöld kappkostað að beina athygli heimsins að þeim stórviðburði sem Ólympíuleikarnir eru, jafnvel þó það sé á kostnað mannréttinda.
Óhjákvæmilega verður að spyrja, þó svarið muni eflaust standa á sér: Hvað varð um þá öflugu áætlun sem ætlað var að efla brasilískt hagkerfi sem svo víða var kynnt í opinberum gögnum þegar landið sótti um að fá að halda leikana? Hvað varð um öll loforðin um að „efla félagslega– og efnahagslega innviði Ríó de Janeiro og Brasilíu“, bæði fyrir og eftir leikana?
Það eru mikil vonbrigði að Ólympíuleikarnir séu ekki nýttir sem tækifæri til að stuðla að endurnýjun á borgarlífinu sem hluta af nýjum samfélagssáttmála Ríó de Janeiro. Það er löngu tímabært að yfirvöld skipti um gír í stefnu sinni um öryggismál, hverfi frá orðræðunni um „baráttuna gegn fíkniefnum“, rök sem lengi hafa verið notuð til að koma fyrir þungvopnuðum her og lögreglu í fátækum og fjölmennum íbúðarhverfum.
Staðreyndin er sú að síðustu ár hefðu átt að nýtast til þjálfunar lögreglu og innleiðingar á reglum um notkun skotvopna þannig að óhóflegri valdbeitingu og aftökum án dóms og laga hefði mátt útrýma.
En það varð aldrei neitt úr því. Senn líður að Ólympíuleikunum og kastljós heimsins mun beinast að glitri og glamúr á meðan að ógnvænlegur fjöldi ungra blökkumanna í fátækrahverfunum týnir lífi sínu að ósekju, aðeins í nokkurra kílómetra fjarlægð frá leikunum. Allt vegna þess að heimurinn leit undan.
