Rússland: Læknir á yfir höfði sér málaferli

Tatyana Revva, læknir frá Volgograd í suðurhluta Rússlands á yfir höfði sér málaferli sem gætu leitt til þess að hún missi lækningaleyfið í kjölfar þess að hún kvartaði yfir skorti á hlífðarbúnaði og öðrum vandamálum  tengdum kórónuveirufaraldrinum á spítalanum þar sem hún starfar. 

Skráðu þig í sms-aðgerðanetið hér! Sendu svo AKALL í númerið 1900 til að skrifa undir málið.

Engar opinberar tölur eru til í Rússlandi um fjölda smita hjá heilbrigðisstarfsfólki en óopinberar tölur gefa til kynna að yfir 100 þeirra hafi látist í heimsfaraldrinum. Fjöldi starfsfólks hefur kvartað vegna skorts á hlífðarbúnaði, óásættanlegum vinnuaðstæðum og launum. 

Þá eru dæmi um að heilbrigðisstarfsfólki, aðgerðasinnum og mannréttindasinnum sé refsað fyrir aðgerðir þeirra tengdar kórónuveirufaraldrinum. Fólk hefur verið ofsótt fyrir að benda á ýmis konar vanbúnað, skort á þálfun, óöruggar vinnuaðstæður eða fyrir það eitt að reyna að rétta fram hjálparhönd. Samkvæmt alþjóðlegum mannréttindalögum ber ríkisstjórnum skylda til að virða tjáningarfrelsi. Ríkisstjórnir verða að tryggja að borgarar hafi greiðan aðgang að upplýsingum til dæmis svo þeir geti varið sig í heimsfaraldi og fylgt leiðbeiningum um almannavarnir.

Tatyana Revva á rétt á að sinna starfi sínu og nýta tjáningarfrelsið án þess að óttast refsiaðgerðir stjórnvalda.

SMS-félagar krefjast þess að Tatyana Revva haldi lækn­inga­leyfi sínu, sleppi við hvers konar refsi­að­gerðir og njóti tján­ing­ar­frelsis.