Rússland: Morðið á Boris Nemtsov verður að rannsaka vel

Morðið á Boris Nemtsov, einum þekktasta pólitíska aðgerðasinna Rússlands, verður að rannsaka á skjótan, óháðan og áhrifaríkan hátt.

Morðið á Boris Nemtsov, einum þekktasta pólitíska aðgerðasinna Rússlands, verður að rannsaka á skjótan, óháðan og áhrifaríkan hátt.

Boris Nemtsov var skotinn og drepinn seint að kvöldi þann 27. febrúar í miðborg Moskvu. Ekki hefur verið hægt að bera kennsl á morðingjann sem flúði vettvanginn. Forseti Rússlands, Vladimir Pútín, hefur sagt að hann muni persónulega stjórna framgangi rannsóknarinnar.

„Í samfélagi þar sem brotið er á tjáningar-, fundar og félagafrelsi þá er þetta kaldrifjað morð á einni af frjálsu röddunum sem yfirvöld hafa með virkum hætti reynt að þagga niður í,“ sagði Denis Krivosheev, framkvæmdastjóri Evrópu og Mið-Asíudeildar Amnesty International.

 „Nú þegar er kominn listi af óleystum pólitískum morðum og árásum í Rússlandi, þar sem rannsóknirnar hafa verið undir persónulegri stjórn háttsettra rússneskra stjórnmálamanna. Við getum ekki látið það viðgangast að Boris Nemtsov verði enn eitt nafnið á listanum.“

Boris Nemtsov er einn þekktasti og hugrakkasti pólitíski aðgerðasinni Rússlands, hann var eitt sinn samviskufangi eftir handtöku hans í tengslum við friðsamleg mótmæli út á götu. Hann var einn af þeim sem skipulagði stóra mótmælagöngu gegn stjórnvöldum í Moskvu sem átti að fara fram sunnudaginn 1.mars síðastliðinn.

„Ef misbrestur verður á að rannsaka morðið á skjótan og skilvirkan hátt og færa morðinga Boris Nemtsov fyrir dóm í sanngjörnum réttarhöldum, þá mun það verða táknrænn áfellisdómur á rússnesk stjórnvöld fyrir að bregðast því að virða grunnmannréttindi,“ sagði Denis Krivosheev.

„Þangað til að upplýst hefur verið um sannleikann um morðið á Boris Nemtsov munu sögusagnir sem hafa nú þegar komið fram halda áfram og geta verið notaðar af alls kyns andstyggilegum öflum til að ýta undir ofbeldi í kringum verðandi mótmælaviðburði. Það er á ábyrgð rússneskra yfirvalda að tryggja að borið verði kennsl á þá sem standa á bak við morðið sem fyrst og að rétturinn til funda- og tjáningarfrelsis verði tryggður og verndaður.“