Rússland/Úkraína: Amnesty International kallar eftir því að alþjóðleg mannréttindalög verði virt

„Eftir nokkurra vikna árangurslausar samningaviðræður verður nú að setja öryggi almennings í Úkraínu í algjöran forgang. Blákaldur raunveruleikinn er sá að líkur eru á vopnuðum átökum. En gera verður allt til að minnka líkur á að almennir borgarar þjáist og forgangsraða verður mannúð í þessu hættuástandi. Það er lagaleg skylda allra aðila,“  

sagði Agnès Callamard, aðalframkvæmdarstjóri Amnesty International eftir að Pútín fyrirskipaði herlið til „friðargæslu“ í Donetsk og Luhansk í Austur-Úkraínu og eftir að hann lýsti yfir sjálfstæði héraðanna. 

„Við hvetjum alla aðila til að fylgja alþjóðlegum mannúðar- og mannréttindalögum. Tryggja verður líf almennra borgara og koma í veg fyrir handahófskenndar árásir og notkun ólöglegra vopna eins og klasasprengja. Einnig köllum við eftir því að almenningur í neyð fái greiðan aðgang að mannúðaraðstoð.“  

„Amnesty International mun fylgjast grannt með stöðunni og fletta ofan af brotum allra aðila á alþjóðlegum lögum“ 

Amnesty International hefur áður varað við þeirri átakanlegu ógn sem stafar af vopnuðum átökum milli Rússlands og Úkraínu. Átökin ógna lífi almennra borgara, lifibrauði og innviðum og leiða mögulega til matarskorts og nauðungarflutninga. Samtökin skráðu þann toll sem síðustu vopnuðu átök tóku, á árunum 2014-2015 þar sem stríðsglæpir og glæpir gegn mannúð voru framdir.