Amnesty International fordæmir morðið á lögfræðingnum Stanislav Markelov. Hann var skotinn til bana í miðborg Moskvu þegar hann bjó sig undir að áfrýja reynslulausn fyrrum rússnesks ofursta sem dæmdur var fyrir morðið á tsjetsjenskri stúlku.
Amnesty International fordæmir morðið á lögfræðingnum Stanislav Markelov. Hann var skotinn til bana í miðborg Moskvu 19. janúar 2009 þegar hann bjó sig undir að áfrýja reynslulausn fyrrum rússnesks ofursta sem dæmdur var fyrir morðið á tsjetsjenskri stúlku. Blaðamaður frá Novaya Gazeta særðist í árásinni.
Mjög sennilegt er að Stanislav Markelov hafi verið myrtur vegna vinnu sinnar í þágu mannréttinda.
Amnesty International vottar fjölskyldu Stanislav Markelov samúð sína og hvetur rússnesk stjórnvöld til að ráðast í tafarlausa, ítarlega og óvilhalla rannsókn á morðinu.
Stanislav Markelov var meðal annars lögfræðingur fjölskyldu tsjetsensku stúlkunnar Kheda Kungaeva, sem var rænt, nauðgað og myrt í mars 2000. Yuri Budanov ofursti var dæmdur fyrir morðið. Honum var sleppt úr fangelsi þann 15. janúar 2009, fyrr en dómur hans kvað á um, þrátt fyrir að Stanislav Markelov hafi áfrýjað þeim úrskurði. Síðustu vikuna fyrir morðið hafði Stanislav Merkelov fengið margar líflátshótanir fyrir störf sín í þágu fjölskyldu Kheda Kungaeva.
Morðið á Stanislav Markelov er fyrirlitlegur glæpur. Rússnesk yfirvöld verða að grípa til aðgerða til að sýna að svona glæpir verði ekki liðnir. Ekki má líða að þaggað sé niður í þeim sem berjast fyrir mannréttindum og í þágu laga og reglu.
Fólk safnast saman við bygginguna þar sem Markelov var myrtur
Bakgrunnur
Amnesty International hefur starfað með Stanislav Markelov í ýmsum málum og barist í þágu þeirra sem hafa mátt sæta mannréttindabrotum. Samtökin beittu sér í hans þágu þegar á hann var ráðist árið 2004. Árásarmennirnir börðu hann og stálu af honum skjölum sem tengdust starfi hans fyrir fjölskyldu tsjetsjena sem var látinn hverfa. Stanislav Markelov vann einnig í þágu andfasista sem höfðu orðið fyrir barðinu á hatursglæpum.
