Niðurstaða rússneskra dómstóla í dag um sakfellingu á meðlimum hljómsveitarinnar Pussy Riot er sannkallað reiðarslag fyrir tjáningarfrelsið í Rússlandi.
Niðurstaða rússneskra dómstóla í dag um sakfellingu á meðlimum hljómsveitarinnar Pussy Riot er sannkallað reiðarslag fyrir tjáningarfrelsið í Rússlandi.
Í febrúar voru þrír meðlimir stúlknasveitarinnar handteknir eftir mótmælasöng í einni stærstu dómkirkju landsins. Konurnar voru í kjölfarið ákærðar fyrir ,,óspektir á grunni trúarhaturs“. Þær voru dæmdar til tveggja ára fangelsisvistar. Verjendur þeirra hafa í hyggju að áfrýja dómnum.
Amnesty International telur að réttarhöldin yfir þeim Mariu Alekhinu, Ekaterinu Samutesevich og Nadezhdu Tolokonnikova hafi verið runninn af pólitískum rótum og þær verið ranglega ákærðar fyrir eitthvað sem var í raun lögleg mótmælaaðgerð.
Amnesty International álítur stúlkurnar samviskufanga sem haldið sé föngnum einungis fyrir friðsamlega tjáningu skoðana sinna.
Amnesty International telur að rússnesk yfirvöld ættu að láta dómstólinn segja af sér og sýkna meðlimi Pussy Riot.
Tilgangur Mariu Alekhinu, Ekaterinu Samutesevich og Nadezhdu Tolokonnikova með gjörningnum var að hneyksla og náðu þær vissulega markmiði sínu. En með því að dæma þær til tveggja ára fangelsisvistar hefur Rússland þrengt enn meir að tjáningarfrelsinu.
Réttarhöldin eru enn einn birtingamynd aukinnar skoðanakúgunar í landinu.
Í síminnkandi rými tjáningarfrelsis í Rússlandi er handtakan og réttarhöldin yfir þeim Mariu Alekhina, Nadezhdu Tolokonnikova og Ekaterinu Samutsevich tilraun rússneskra stjórnvalda til að kæfa daufar raddir þeirra og gefa öðrum þeim sem dirfast að gagnrýna ríkisstjórnina skýra viðvörun.
Bakgrunnur
Forsagan er sú að þrjár ungar konur, meðlimir rússnesku pönksveitarinnar Pussy Riot, voru handteknar eftir að þær sungu mótmælasönginn ,,María mey, frelsaðu okkar frá Pútín“ í dómkirkju í Moskvu þann 21. febrúar 2012, huldar á bak við lambhúshettur.
Í texta lagsins er biðlað til Maríu meyjar að gerast femínisti og hrekja Vladimir Pútín á brott. Jafnframt kemur fram gagnrýni á hollustu og stuðning sem fulltrúar Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar hafa sýnt Pútín. Lagið var sungið í aðdraganda forsetakosninganna í Rússlandi og var einn af mörgum gjörningum gegn framboði Pútíns.
Í kjölfarið voru þær Nadezhda Tolokonnikova, Maria Alekhina og Ekaterina Samutsevich handteknar og fullyrt að þær hefðu verið grímuklæddu söngkonurnar.
Réttarhöldin yfir Pussy Riot hófust þann 30. júlí og var lokið átta dögum síðar. Dómararnir vísuðu frá flestum beiðnum verjenda stúlknanna um vitnaleiðslur. Áhyggjur hafa verið uppi um að reglur um réttlát réttarhöld hafi verið brotnar.
Mál þetta hefur vakið heitar umræður um tjáningarfrelsi, stöðu kirkjunnar í veraldlegu samfélagi og sjálfstæði dómstóla, á bloggum, samskiptavefjum og í fjölmiðlum.
Meira en 200 rússneskir listamenn, frægir rithöfundar, tónlistarmenn og leikarar, skrifuðu undir opið bréf til stuðnings þeim Mariu, Nadezhdu og Ekaterinu. Í framhaldinu var bréfið lesið upp á útvarpsstöð í Moskvu og 45 þúsund undirskriftir söfnuðust til viðbótar.
Í júní sendi hópur rétttrúnaðarsinna opið bréf til Kirill yfirbiskups, leiðtoga Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, og báðu um að konunum þremur yrði miskunnað. Í ágúst birti hópur lögfræðinga opið bréf þar sem þeir fullyrtu að ekki væri hægt að líta á gjörning kvennanna þriggja sem glæp og ákæran gegn þeim væri brot á rússneskum lögum.
Pussy Riot hafa fengið víðtækan og útbreiddan stuðning frá mörgum alþjóðlegum listamönnum, meðal annars Sting, Madonnu, Yoko Ono og Björk.
Nánar tiltekið er haft eftir Sting: ,,A sense of proportion – and a sense of humour – is a sign of strength, not a sign of weakness.”
Íslandsdeild Amnesty International hefur unnið að máli þeirra og hafa um 4.000 einstaklingar skrifað undir ákall til stuðnings lausnar Pussy Riot.
