Konungur Sádí Arabíu verður að synja staðfestingu á dauðadómi gegn ungum manni, Ali Mohammed Bagir al-Nimr, sem felldur var þegar hann var á barnsaldri.
Konungur Sádí Arabíu verður að synja staðfestingu á dauðadómi gegn ungum manni, Ali Mohammed Bagir al-Nimr, sem felldur var þegar hann var á barnsaldri.
Amnesty International krefur yfirvöld um að ógilda dauðadóminn sem felldur var eftir frámunalega ósanngjörn réttarhöld en þau byggðu á játningu Ali al-Nimr sem fengin var fram með pyndingum. Samtökin skora einnig á yfirvöld í Sádí-Arabíu að koma á aftökuhléi og tryggja umtalsverðar umbætur á dómskerfi landsins.
Sérstakur glæpadómstóll og öryggisdómstóll gegn hryðjuverkum í Sádí-Arabíu dæmdi Ali al-Nimr til dauða þann 27. maí 2014. Dauðadómurinn var bæði staðfestur af áfrýjunarnefnd glæpadómstólsins og hæstarétti landsins fyrr á þessu ári, án vitneskju lögfræðings Ali al-Nimr. Hann er í hættu á að vera tekinn af lífi um leið og konungur landsins staðfestir dóminn.
Sakborningar í Sádí-Arabíu geta eingöngu áfrýjað fyrstu ákvörðun dómstóls skriflega og innan 30 daga. Brotið var á grundvallarréttindum Ali al-Nimr þegar honum var meinaður aðgangur að lögfræðingi sínum til að bregðast við ákærum á hendur honum og síðar til að áfrýja dauðadómnum sem sérstaki glæpadómstólinn felldi.
Dauðadómurinn byggði á ákærunum í tólf liðum m.a. í tengslum við þátttöku Ali al-Nimr í mótmælum gegn yfirvöldum, fyrir að ráðast á öryggissveitir, fyrir eign á vélbyssu og vopnað rán. Dómstóllinn virðist eingöngu hafa byggt úrskurð sinn á játningu sem Ali al-Nimr segir að þvinguð hafi verið fram með pyndingum og annarri illri meðferð. Í stað þess að dómarinn krefðist tafarlausrar rannsóknar á ásökunum Ali al-Nimr um pyndingar, segist dómarinn hafa beðið Innaríkisráðuneytið um að hefja rannsókn á öryggisvörðum innan eigin raða. Ekki er vitað til þess að nokkur rannsókn hafi farið fram en þess í stað dæmdi dómarinn Ali al-Nimr til dauða.
Ali al-Nimr var handtekinn 14. febrúar 2012 þegar hann var aðeins 17 ára gamall. Öryggissveitir landsins voru ekki með handtökuskipun á hendur Ali al-Nimr þegar hann var handtekinn. Hann var síðan færður fyrir rannsóknarnefnd í fangelsi í Dammam sem er í austurhéruðum landsins, þar sem Ali al-Nimr segist hafa verið pyndaður í því augnamiði að þvinga hann til skriflegrar játningar sem hann fékk aldrei að lesa. Al al-Nimr taldi sér trú um að hann væri að skrifa undir lausnarbréf. Honum var hvorki gert kleift að hitta lögfræðing sinn eða fjölskyldu. Al al-Nimr var síðan fluttur í miðstöðina, Dar al-Hulahaza, sem er til endurhæfingar fyrir ungt fólk, þar sem honum var haldið allt til 18 ára aldurs, en þá var hann aftur sendur í fangelsið í Dammam.
Þetta bendir til þess að yfirvöld hafi viðurkennt Al al-Nimr sem sakamann undir lögaldri, þegar hann var fyrst sviptur frelsi.
Embættismenn í Sádí-Arabíu hafa lengi vel harðneitað að beita dauðarefsingunni gegn ungum sakamönnum.
Ali al-Nimr er að minnsta einn af sjö sjía-múslimum og aðgerðasinnum í Sádí-Arabíu sem voru dæmdir til dauða árið 2014 vegna þátttöku í mótmælum, sem ná aftur til ársins 2011, í austurhéruðum landsins. Aðgerðasinnar halda því fram að tveir af þessum sjö séu einnig undir lögaldri. Að minnsta kosti 20 manns sem grunaðir eru um þátttöku í mótmælunum hafa verið teknir af lífi af öryggissveitum landsins og hundruðir hafa verið fangelsaðir, þeirra á meðal þjóðþekktir síja-klerkar.
Frændi Ali al-Nimr, Sheikh Nimr Baqir al-Nimr, sem er þekktur síja-klerkur og leiðtogi múslima í al-Awamiyya moskvunni í austurhéraði landsins, var einn þeirra sem var dæmdur til dauða vegna þátttöku sinnar í mótmælum. Hann var dæmdur til dauða í október 2014 í kjölfar meingallaðra réttarhalda.
Brot á alþjóðalögum og löggjöf í Sádí-Arabíu
Sádí-Arabía er aðili að samningi um réttindi barna sem leggur bann við dauðarefsingu fyrir brot sem eru framin undir 18 ára aldri. Grein 37(a) um réttindi barna segir: „Hvorki skal beita dauðarefsingunni eða lífstíðarfangelsi, án möguleika á náðun, gegn einstaklingum sem eru undir 18 ára aldri þegar brotið er framið.“
Þann 22. september 2015 hvatti sérfræðihópur á vegum Sameinuðu þjóðanna stjórnvöld í Sádí-Arabíu að stöðva aftöku Ali al-Nimr með þeim orðum að „dómur sem fyrirskipar dauðarefsingu gegn einstaklingum sem eru undir lögaldri þegar þeir fremja glæp er ósamrýmanlegur alþjóðlegum skyldum Sádí-Arbíu. Al al-Nimr hlaut ekki sanngjörn réttarhöld og lögfræðingi hans var ekki gert kleift að aðstoða hann almennilega og var meinaður aðgangur að málsgögnum“.
Sérfræðihópurinn lét einnig eftirfarandi ummæli falla: „samkvæmt alþjóðalögum sem Sádí-Arabía hefur skuldbundið sig til að fylgja, er ekki hægt að beita dauðarefsingunni nema að sanngjörnum réttarhöldum og sanngjarnri málsmeðferð sé fylgt eftir, ella er um handahófskennda aftöku að ræða“. Sérfræðihópurinn skoraði ennfremur á Sádí-Arabíu að koma á aftökuhléi, stöðva aftökur á einstaklingum sem voru börn þegar þau gerðust sek um glæpsamlegt athæfi og tryggja skjótar og hlutlausar rannsóknir á öllum pyndingarmálum í landinu.
Yfirvöld í Sádí-Arabíu hafa enn ekki brugðist við alþjóðlegri gagnrýni á máli Ali al-Nimr. Í byrjun september fullyrti fastafulltrúi Sádí-Arabíu að Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Gefn, eftirfarandi: „rannsóknir og saksóknir í glæpamálum fylgja öllum alþjóðlegum viðmiðum [um sanngjörn réttarhöld], þeirra á meðal viðveru lögfræðings við handtöku, réttinum til að vera upplýst/ur um réttindi sín og hvað viðkomandi er kærður fyrir…“. Fastafulltrúinn bætti við að Sádí-Arabía, „beitti aðeins dauðarefsingunni þegar um alvarlegustu glæpina væri að ræða…“
Yfirvöld í Sádí-Arabíu hafa bæði brotið alþjóðalög er varða sanngjörn réttarhöld við áfrýjun og lög um áfrýjun samkvæmt lögum í Sádí-Arabíu.
Samkvæmt lögum í Sádí-Arabíu eiga sakborningar að geta áfrýjað fyrsta dómsúrskurði, skriflega innan 30 daga frá því að dómur fellur en sökum þess að Ali al-Nimr var meinað að hitta lögfræðing sinn hafði hann ekki tök á að áfrýja.
Samkvæmt alþjóðalögum verður að virða réttinn til sanngjarnra réttarhalda við áfrýjun sem felur m.a. í sér réttinn til lagalegrar ráðgjafar, réttinn til nægilegs tíma og aðstöðu til að undirbúa áfrýjunina og réttinn til opinbers, rökstudds og tímanlegs dómsúrskurðar.
Refsilöggjöf í Sádí-Arabíu, sérstaklega greinar 36(1) og 102, ásamt ýmsum alþjóðasamningum, sem landið er aðili að, sérstaklega alþjóðlegum samningi gegn pyndingum, leggja skýrt og greinilegt bann við pyndingum. Engu að síður sæta sakborningar í Sádí-Arabíu reglulega pyndingum og illri merðferð í því augnamiði að þvinga fram játningu á glæp sem þeir eru ákærðir fyrir. Sakborningar eru oft sakfelldir eingöngu á grundvelli játningar sem fengin er fram með pyndingum og annarri illri meðferð, nauðung eða með blekkingum. Játningin er síðan lögð fram sem sönnunargagn í réttarhöldum.
Dauðarefsingin í Sádí-Arabíu
Sádí-Arabía er eitt þeirra ríkja sem beitir dauðarefsingunni einna mest í heiminum. Það sem af er liðið þessu ári hafa 134 einstaklingar verið teknir af lífi, nærri helmingur þeirra vegna brota sem teljast ekki til „alvarlegustu glæpanna“ samkvæmt alþjóðalögum um beitingu dauðarefsingarinnar. Samkvæmt túlkun yfirvalda á sjaría-lögum eru flestir þessara glæpa, eins og fíkniefnabrot, ekki nauðsynlega refsiverðir með dauðadómi. Það þýðir að dómarar getið ákveðið að eigin vild hvort þeiri beita dauðarefsingunni eða ekki.
Yfirvöld hafa endurtekið látið undir höfuð leggjast að fylgja alþjólegum viðmiðum um sanngjörn réttarhöld og reglum Sameinuðu þjóðanna sem tryggja eiga vernd fyrir þá sem dæmdir eru til dauða.
Sádí-Arabía heldur einnig áfram uppteknum hætti að dæma til dauða og taka af lífi einstaklinga sem eru undir 18 ára aldri þegar meintur glæpur var framinn og einstaklinga með þroskahömlun, þvert á alþjóðalög.
Hátt hlutfall af fólki af erlendum uppruna sætir einnig dauðarefsingunni, meirihlutinn farandverkafólk sem talar ekki eða skilur arabísku en arabíska er töluð þegar yfirheyrslur fara fram í varðhaldi og við réttarhöld. Farandverkafólki og öðrum af erlendum uppruna er oft meinaður aðgangur að tilhlýðilegri túlkaþjónustu í landinu.
Sendiráð og ræðismannsskrifstofur eru ekki tafarlaust upplýstar um handtöku erlendra borgara eða farandverkafólks og jafnvel ekki um aftökur þeirra. Í sumum tilvikum er hvorki fjölskyldum farandverkafólks né fjölskyldum innfæddra sakborninga kunngert tímanlega um aftöku ættingja né eru líkin send til ættingja til greftrunar.
Í ágúst 2015 gerði Amnesty International ítarlega grein fyrir ofangreindum málefnum í skýrslu um beitingu dauðarefsinginar í Sádí-Arabíu. Skýrslan ber heitið, Dráp í nafni réttlætis: dauðarefsingin í Sádí-Arabíu.
Amnesty International er andvígt dauðarefsingunni í öllum tilvikum, óháð eðli eða aðstæðum glæpsins, sekt eða sakleysi eða öðrum þáttum sem einkenna sakborninginn, eða hvaða aðferðum ríki beita til að taka fólk af lífi.
Dauðarefsingin brýtur gegn réttinum til lífs sem viðurkenndur er í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Dauðarefsingin er hin endanlega, grimmilega, ómannlega og vanvirðandi refsing.
