Sambía: Mildun dauðadóma er lofsvert fyrsta skref

Ákvörðun Edgar Lungu, forseta Sambíu, um að milda dauðadóma yfir 332 föngum í lífstíðarfangelsi er lofsvert fyrsta skref. 

Ákvörðun Edgar Lungu, forseta Sambíu, um að milda dauðadóma með hengingu yfir 332 föngum í lífstíðarfangelsi er lofsvert fyrsta skref.

Amnesty International kallar eftir því að forsetinn afnemi dauðarefsinguna að fullu þar sem hún brýtur á réttinum til lífs, sem er verndaður í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Engar sannanir eru fyrir því að dauðarefsingin komi frekar í veg fyrir glæpi en aðrar refsingar.

„Edgar Lungu, forseti Sambíu, hefur tekið skref fram á við með ákvörðun sinni um að hlífa 332 manns við dauðarefsingunni, sem er grimmileg, ómannleg og niðurlægjandi refsing. Ákvörðun hans er lofsverð en það þarf meira til. Það þarf að afnema dauðarefsinguna að fullu í landinu. Stjórnvöld sem halda áfram að nota dauðarefsinguna í þeirri trú að það fækki glæpum eru að blekkja sig,“ sagði Deprose Muchena, framkvæmdastjóri Amnesty International í suðurhluta Afríku.

Glæpir eins og morð, landráð og rán með banvænu vopni varða við dauðarefsingu í Sambíu. Engar hengingar hafa þó verið framkvæmdar í landinu síðan árið 1997.

Aðrar upplýsingar

Árið 2014 var 28 % fækkun á aftökum í Afríku sunnan Sahara, þá voru skráðar 46 aftökur í þremur löndum. Miðbaugs-Gínea, Sómalía og Súdan eru þau þrjú lönd sem vitað er að framkvæmdu aftökur. Til samanburðar voru 64 aftökur í fimm löndum árið 2013.

Madagaskar varð 99. landið til að afnema dauðarefsinguna fyrir alla glæpi og stuttu síðar fylgdu í kjölfarið Fídjíeyjar og Súrínam.