Serbía og Svartfjallaland: skammarleg rannsókn á mansalsmáli

Amnesty International telur áríðandi að ríkisstjórn Svartfjallalands opni að nýju þekkt mansalsmál, sem að stjórnmálamenn, dómarar, lögregla og opinberir embættismenn í Svartfjallalandi eru bendlaðir við.

Amnesty International telur áríðandi að ríkisstjórn Svartfjallalands opni að nýju þekkt mansalsmál, sem að stjórnmálamenn, dómarar, lögregla og opinberir embættismenn í Svartfjallalandi eru bendlaðir við. Samtökin fóru þess á leit í nýlegu bréfi til innanríkisráðherra Svartfjallalands. Moldóvísk kona, sem er í brennidepli þess máls, heldur því fram að stjórnmálamenn, dómarar, lögreglumenn og opinberir embættismenn Svarfjallalands hafi pyndað hana og nauðgað henni og öðrum austur-evrópskum konum sem, eins og hún, hafi verið seldar mansali og haldið sem kynlífsþrælum.

Amnesty International hefur af því áhyggjur að opinber rannsóknarnefnd, sem skipuð var til að rannsaka framferði lögreglu og dómsvalda, hafi ekki staðið eðlilega að rannsókn sinni, og því vakið upp spurningar um yfirhylmingu um þátt yfirvalda í mansali á konum og stúlkum til kynlífsþrælkunar í Svartfjallalandi.

Moldóvíska konan, sem gengur undir nafninu S. C. er talin hafa verið seld mansali til Svartfjallalands og neydd til að starfa sem vændiskona á tímabilinu 1999 til nóvember 2002, þegar hún komst í kvennaathvarf í höfuðborginni Podgorica. Konan, sem er 28 ára gömul og tveggja barna móðir, mátti þola hræðilegt líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi á þessum þremur árum. Meðal áverka voru sjö beinbrot, innvortis meiðsli, sem gerðu að verkum að hún gat ekki setið fyrir kvölum, ör eftir handjárn, sígarettuglóð á kynfærum hennar, og áverkar á munni.

Sakamálarannsókn var hafin á málinu og fjórir einstaklingar, þeirra á meðal aðstoðarríkissaksóknarinn Zoran Piperovic, voru handteknir grunaðir um aðild að mansali á konum í því skyni að nota þær sem kynlífsþræla. Málarekstri gegn þessum fjórum einstaklingum var hætt árið 2003, að sögn vegna skorts á sönnunargögnum. Yfirvöld í Svartfjallalandi leyfðu aðra rannsókn á málinu eftir mikinn þrýsting frá alþjóðsamfélaginu. Í nóvember 2004 lauk opinber nefnd rannsókn sinni á aðgerðum lögreglu og dómsvalda í málinu. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE), sem fylgist með málinu, lét í ljós óánægju sína með niðurstöðu nefndarinnar.

Amnesty International hefur verulegar áhyggjur af því að rannsóknarnefndin:

lýsir S. C. sem glæpamanni frekar en þolanda mjög alvarlegra mannréttindabrota;

fer niðrandi orðum um persónuleika hennar;

gefur enn á ný ástæðu til að hafa áhyggjur af yfirhylmingu um þátt yfirvalda í mansali og kynlífsþrælkun.

Yfirvöld í Svartfjallalandi eru skyldug samkvæmt landslögum og alþjóðalögum að draga hina seku til ábyrgðar og tryggja að S. C. geti fengið skaðabætur fyrir það tjón, sem hún hefur hlotið. Enginn hefur enn verið sóttur til saka vegna mansals og kynlífsþrælkunar S. C. og hún hefur engar bætur hlotið.
Amnesty International telur að rannsóknarnefndin hafi brugðist því hlutverki að fást við málið með eðlilegum hætti, og hvetur stjórnvöld í Svartfjallalandi til að hefja nýja rannsókn á málinu. Auk þess fara samtökin fram á upplýsingar um það hvort einhverjir starfsmenn innanríkisráðuneytisins hafi mátt eða muni sæta ábyrgð vegna málsins, eða þurfa að svara til saka fyrir að vanrækslu, í samræmi við niðurstöður rannsóknarnefndarinnar.