„Uppgjafahermenn“ í Simbabve neyða um þessar mundir ungt fólk til að ráðast á meinta stuðningsmenn stjórnarandstöðunnar. Ofbeldið í landinu nálgast að jafngilda neyðarástandi.
„Uppgjafahermenn“ í Simbabve neyða um þessar mundir ungt fólk til að ráðast á meinta stuðningsmenn stjórnarandstöðunnar. Ofbeldið í landinu nálgast að jafngilda neyðarástandi.
Þeir sem neita að beita ofbeldi sæta árásum „uppgjafahermanna“ og eru ásakaðir um að tilheyra Lýðræðisumbótahreyfingunni (Movement for Democratic Change (MDC).
Sjónarvottar hafa tjáð Amnesty International að stórir hópar stuðningsmanna stjórnarflokksins ZANU-PF og „uppgjafahermanna“ ráðist nú á meinta stuðningsmenn MDC í Mberengwa í Midlands-héraði og Mazowe í Mashonaland Central héraði.
Í Mberengwa fer stór hópur stuðningsmanna ZANU-PF um og ræðst á heimili fólks sem talið er hafa stutt MDC í kosningunum 29. mars 2008. Flestir árásarmannanna eru ungt fólk sem neytt var til verksins með valdi af „uppgjafahermönnum“. Sambærilegur hópur sögðu sjónarvottar að hefði farið um í Chiwese í Mazowe-héraði.
Lögregla virðist treg til að binda enda á ofbeldið og grípur aðeins til aðgerða til að handtaka stuðningsmenn MDC sem grunaðir eru um að ráðast á meinta stuðningsmenn ZANU-PF.
Amnesty International hefur sérstaklega áhyggjur af fólki sem býr á afskekktari svæðum þar sem ofbeldið fer fram fjarri kastljósi umheimsins. Aðstæður þess fólks eru sérstaklega erfiðar. Mannúðarsamtök og frjáls félagasamtök hafa sætt árásum vegna þess að þau hjálpa þolendum ofbeldisins sem er meinað að leita sér hefðbundinnar læknisaðstoðar.
Fórnarlömb árásanna á dreifbýlissvæðum þurfa að ganga langar leiðir til að flýja ofbeldið og leita í síauknum mæli hælis í bæjum og borgum. Sumir skólar á landsbyggðinni hafa neyðst til að hætta kennslu vegna þess að kennarar sem taldir eru stuðningsmenn MDC flýja ofbeldið, sem stjórnvöld kynda undir.
Amnesty International óttast um öryggi Tonderai Ndira, sem er stuðningsmaður MDC. Honum var að sögn rænt af heimili sínu í Mabvuku, einu snauðari hverfa Harare, snemma morguns þann 14. maí. Fregnir herma að níu vopnaðir menn í borgaralegum klæðum hafi ráðist á hann áður en þeir óku honum nöktum burt í hvítum Toyota. Ekkert hefur spurst til hans síðan.
Tonderai Ndira er einn 32 stuðningsmanna MDC sem sættu pyndingum yfirvalda meðan þeir voru í varðhaldi árið 2007. Honum var haldið í yfir tvo mánuði í fangelsi í Harare en þá voru ákærur á hendur honum látnar niður falla.
Amnesty International hefur einnig fengið fregnir af meintu mannráni Sinoia Pfebve (79) og konu hans Serena Pfebve (76) þann 13. maí, en mennirnir sem rændu þeim eru taldir vera „uppgjafahermenn“. Þeim var að sögn rænt í Mukumbura í Mt. Darwin héraði í Mashonaland Central sýslu. Talið er að þau hafi verið flutt í Nyakatondo grunnskólann þar sem mannræningjarnir halda til. Pfebve fjölskyldan hefur pólitísk tengsl við MDC. Sonur hjónanna var í framboði fyrir MDC í þingkosningunum 2000 og aukakosningum árið 2001.
Að minnsta kosti 22 einstaklingar hafa látið lífið og yfir 900 þurft að leita læknisaðstoðar í ofbeldishrinu sem riðið hefur yfir eftir þingkosningarnar nýverið. Hundruð einstaklinga hafi verið lagðir á sjúkrahús. Hundruð fjölskyldna hafa neyðst til að flýja heimili sín eftir að „uppgjafahermenn“ og hópar ungmenna á vegum ZANU-PF brenndu þau til grunna.
Amnesty International hefur hvatt stjórnvöld í Simbabve að fordæma opinberlega öll ofbeldisverk stuðningsmanna ZANU-PF, „uppgjafahermanna“ og hermanna, sem og annarra, og starfa með öðrum stjórnmálaflokkum að því að binda enda á pólitískt ofbeldi þegar í stað.
