Sjö ár frá stofnun Gvantanamó fangabúðanna

Hið alþjóðlega mannréttindakerfi hefur beðið mikinn hnekki allt frá því að Bandaríkjastjórn hóf hið svokallaða „stríð gegn hryðjuverkum“ fyrir sjö árum síðan. Fangabúðirnar við Gvantanamó flóa á Kúbu eru skýr vitnisburður í þá veru þar sem grundvallarmannréttindum hefur verið fórnað í þeim yfirlýsta tilgangi að stuðla að öryggi bandarískra borgara.

Hið alþjóðlega mannréttindakerfi hefur beðið mikinn hnekki allt frá því að Bandaríkjastjórn hóf hið svokallaða „stríð gegn hryðjuverkum“ fyrir sjö árum síðan. Fangabúðirnar við Gvantanamó flóa á Kúbu eru skýr vitnisburður í þá veru þar sem grundvallarmannréttindum hefur verið fórnað í þeim yfirlýsta tilgangi að stuðla að öryggi bandarískra borgara.

Enn er um það bil 250 manns haldið föngum í Gvantanamó en sumir hafa sætt þar varðhaldsvistun í rúmlega sex ár samfleytt .

Amnesty International hefur allt frá því að fyrstu fangarnir voru færðir til Gvantanamó hinn 11. janúar árið 2002 barist fyrir því að grundvallarmannréttindi þeirra séu virt.

Samtökin skora á nýkjörinn forseta Bandaríkjanna, Barack Obama, að standa við yfirlýst heit sín um að binda að fullu endi á þau mannréttindabrot sem stefna Bandaríkjanna í stríðinu gegn hryðjuverkum hefur leitt af sér.

Forsetinn tekur formlega við embætti sínu þann 20.janúar næstkomandi og hvetur Amnesty International Barack Obama til að kunngera dagsetningu á lokun Gvantanamó skömmu eftir innsetningarathöfnina.

Barack Obama

Samtökin skora ennfremur á forsetann að tryggja að óháð nefnd verði sett á laggirnar sem rannsaki öll mannréttindabrot bandarískra stjórnvalda og samstarfslanda þess í hinu svokallaða „stríði gegn hryðjuverkum“. Með því móti hafnar forsetinn refsileysi og gefur merki um mikilvæga stefnubreytingu Bandaríkjastjórnar í baráttunni gegn hryðjuverkum.

„Við erum ekki að biðja um hið ómögulega. Barack Obama hefur áður lýst því yfir að hann hyggist brjóta á bak aftur það ranglæti sem að miklu leyti var heimilað af Bandaríkjastjórn í nafni þjóðaröryggis. Við erum einfaldlega að fara fram á að hann standi við þetta loforð sitt,“ segir Irene Khan, framkvæmdastjóri Amnesty International.

Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Robert Gates hefur farið fram á gerð áætlunar um lokun Gvantanamó sem vonast er til að hin nýja ríkisstjórn setji á oddinn þegar hún tekur formlega við stjórn landsins. Áætlun þessi þarf að fela í sér ítarleg áform um framtíð þeirra fanga sem enn sæta varðhaldsvist í Gvantanamó; lausnir sem eru í senn réttlátar og lögmætar. Mikilvægt er að slík áætlun feli í sér fyrirætlan um að binda endi á starfsemi allra herdómsstóla sem Bandaríkjamenn starfrækja; öll réttarhöld skulu fara fram fyrir borgaralegum dómstólum.

Aðrar þjóðir ættu jafnframt að leggja sitt af mörkum til að greiða fyrir lokun Gvantanamó með því að veita þeim föngum sem ekki geta snúið til síns heima, vegna hættu á frekara harðræði við heimkomuna, inngöngu í eigin landi. Fjöldi Evrópusambandsríkja, þeirra á meðal Þýskaland og Portúgal hafa tekið vel í þá hugmynd að greiða fyrir móttöku Gvantanamófanga og Evrópusambandið leggur á ráðin um að taka upp sameiginlega stefnu í þessum efnum.

Amnesty International skorar á Barack Obama að gera gagngerar umbætur í mannréttindamálum á fyrstu 100 dögum sínum í embætti. Slíkar umbætur fela meðal annars í sér lokun fangabúðanna í Gvantanamó á stuttum tíma, forsetatilskipun þess efnis að Bandaríkin muni ekki undir nokkrum kringumstæðum grípa til pyndinga eða annars konar ómannúðlegrar eða vanvirðandi meðferðar, eins og slíkt er skilgreint alþjóðalögum, og tryggingu á að óháðri nefnd verði komið á fót sem rannsaki mannréttindabrot Bandaríkjastjórnar í stríðinu gegn hryðjuverkum.