Sláandi tölur um dauðsföll kvenna af barnsförum í Bandaríkjunum

Í nýútkominni skýrslu Amnesty International, Banvænar fæðingar: Neyðarástand í mæðraheilsugæslu í Bandaríkjunum (Deadly Delivery: The Maternal Health Care Crisis in the USA) kemur fram að á degi hverjum láta að meðaltali tvær konur lífið á meðgöngu eða af barnsförum í Bandaríkjunum.

Í nýútkominni skýrslu Amnesty International, Banvænar fæðingar: Neyðarástand í mæðraheilsugæslu í Bandaríkjunum (Deadly Delivery: The Maternal Health Care Crisis in the USA )(hér má nálgast ágrip af skýrslunni) kemur fram að á degi hverjum láta að meðaltali tvær konur lífið á meðgöngu eða af barnsförum í Bandaríkjunum. Meirihluti þessara kvenna tilheyra minnihlutahópum frumbyggja og/eða innflytjenda, þær búa jafnan við sára fátækt og margar tala litla sem enga ensku. Bandarískar konur af afrískum uppruna eru fjórum sinnum líklegri en hvítar til að láta lífið af barnsförum. Jafnframt kemur fram í skýrslunni að enda þótt Bandaríkin teljist til ríkustu þjóðar veraldar verma þau fertugasta og fyrsta sætið yfir ríki heims þar sem konur eiga á hættu að láta lífið af völdum vandkvæða á meðgöngu. Í svo að segja öllum iðnvæddum ríkjum heims er dánartíðni kvenna af völdum barnsburðar minni og unnt er að komast hjá a.m.k. helmingi þessara dánartilfella í Bandaríkjunum. Sem dæmi má nefna eru fimm sinnum meiri líkur á að barnshafandi kona láti lífið í Bandaríkjunum en Grikklandi og að sama skapi eru líkurnar á mæðradauða fjórum sinnum meiri í Bandaríkjunum en í Þýskalandi og þrisvar sinnum meiri en á Spáni. Ástæðan að baki þessari háu dánartíðni barnshafandi kvenna í Bandaríkjunum er ekki skortur á viðhlítandi heilbrigðisþjónustu fyrir verðandi mæður heldur skortur á pólitískum vilja til að tryggja að slík þjónusta sé aðgengileg öllum barnshafandi mæðrum. Bandaríkin verja meiri fjármunum í heilbrigðisþjónustu en nokkur önnur þjóð heimsins, og meira fjármagni er varið í sjúkrahúskostnað vegna meðgöngu eða fæðinga, en í nokkru öðru ríki heimsins.

Þörf er á skjótum viðbrögðum og yfirgripsmiklum aðgerðum af hálfu yfirvalda í Bandaríkjunum til að bregðast við þessari miklu vá, en eins og greinir frá í skýrslu samtakanna er réttur kvenna til mæðraheilsu og öruggrar barnsfæðingar ekki virtur í nokkrum veigamiklum atriðum:

Barnhafandi konur í Bandaríkjunum eru ekki nægilega upplýstar um einkenni sem benda til vandkvæða á meðgöngu.

Nærri 13 milljónir kvenna á frjósemisaldri (15 til 44 ára), eða ein af hverri fimm, hefur enga sjúkratryggingu. Konur í minnihlutahópum teljast til 32% allra kvenna í Bandaríkjunum, en 51% þeirra eru ótryggðar.

Ólíkt því sem tíðkast í mörgum löndum njóta bandarískar konur ekki mæðraeftirlits heima fyrir að fæðingu lokinni, enda þótt rúmlega helmingur allra tilfella mæðradauða eigi sér stað á fyrstu 42 dögunum eftir barnsburð.

Ein af hverjum fjórum konum í Bandaríkjunum nýtur ekki nægilegrar heilsugæslu á fyrstu þremur mánuðum meðgöngunnar. Þegar um bandarískar konur af afrískum uppruna ræðir eða frumbyggjakonur hækkar hlutfallið í ein af hverjum þremur.

Seinagangur í skráningu barnshafandi kvenna sem leita ríkisstyrktrar heilbrigðisþjónustu gerir það að verkum að margar njóta ekki mikilvægs eftirlits á fyrstu þremur mánuðum meðgöngunnar.

Skortur á heilbrigðisstarfsfólki er alvarleg hindrun á skilvirkri og tímanlegri þjónustu til handa barnshafandi konum, sérstaklega í dreifbýli og fátækrahverfum. Árið 2008 bjuggu 64 milljónir á svæðum í Bandaríkjunum þar sem skortur var á aðgengi að grunnþjónustu, þar með talið mæðraheilsugæslu.

Margar barnshafandi konur í Bandaríkjunum fá litlu sem engu ráðið um ákvarðanir er lúta að heilsu þeirra svo sem eins og þegar framkvæma þarf áhættusaman keisaraskurð. Einn þriðji allra barna í Bandaríkjunum eru tekin með keisaraskurði sem er tvisvar sinnum hærra hlutfall en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir með.

Skortur á skilvirkri gagnasöfnun gerir að verkum að fjöldi kvenna er lætur lífið af barnsförum er vanmetin.

Yfirvöld gera lítið til að greina núverandi vanda og setja fram tillögur að lausnum til að bæta mæðraheilsu.

                               

Samtökin skora á bandarísk yfirvöld að framfylgja alríkislögum sem banna mismunun,  auka stuðning við uppbyggingu á fullnægjandi heilsugæsluþjónustu í öllum ríkjum Bandaríkjanna fyrir árið 2011, og auka aðgang kvenna að mæðraheilsugæslu á viðráðanlegu verði.

Samtökin skora jafnframt á ráðherra heilbrigðismála, Kathleen Sebelius, að bæta aðgang kvenna að vandaðri mæðraheilsugæslu. Ennfremur skorar Amnesty International á heilbrigðisráðherrann að vinna með Barack Obama, forseta Bandaríkjana, að því að koma á laggirnar sérlegu embætti fyrir mæðraheilsu innan ráðuneytisins sem hefði það hlutverk að varna gegn, bera kennsl á og bregðast við þeim vandkvæðum sem orsaka dauðsföll kvenna af völdum barnsburðar. 

 

Skrifaðu undir áskorun til heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna þar sem farið er fram á umbætur í heilsugæslu barnshafandi kvenna í landinu:

 

Skoraðu á heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna að gera úrbætur