Barack Obama ætti að halda sig réttu megin sögunnar með því að veita uppljóstraranum Edward Snowden sakaruppgjöf en Snowden á yfir höfði sér áratuga langan fangelsisdóm fyrir að tala máli mannréttinda, að sögn Amnesty International, American Civil Liberties Union (ACLU), Human Rights Watch og fjölda annarra samtaka, sem ýttu alþjóðlegri undirskriftasöfnun úr vör í dag, til stuðnings Edward Snowden.
Barack Obama ætti að halda sig réttu megin sögunnar með því að veita uppljóstraranum Edward Snowden sakaruppgjöf en Snowden á yfir höfði sér áratuga langan fangelsisdóm fyrir að tala máli mannréttinda, að sögn Amnesty International, American Civil Liberties Union (ACLU), Human Rights Watch og fjölda annarra samtaka, sem ýttu alþjóðlegri undirskriftasöfnun úr vör í dag, til stuðnings Edward Snowden. Hann upplýsti heiminn um umfangsmikið, rafrænt geðþóttaeftirlit bandarískra stjórnvalda og fleiri.
Ákallinu til stuðnings Edward Snowden, sem hefst í aðdraganda frumsýningar leikstjórans Oliver Stone um líf Snowden, er ætlað að þrýsta á Barack Obama Bandaríkjaforseta, að veita Snowden sakaruppgjöf áður en forsetinn lætur af embætti.
„Ljóst er að aðgerðir Edward Snowden voru í þágu almannaheilla. Hann kom til leiðar einni mikilvægustu umræðu sem um getur í áratugi um geðþóttaeftirlit stjórnvalda og var kveikjan að alþjóðlegri hreyfingu til varnar persónuverndar á tímum rafrænna samskipta. Að refsa Snowden fyrir gjörðir sínar sendir þau hættulegu skilaboð að þeir sem verða vitni að mannréttindabrotum á bak við luktar dyr ættu ekki að segja frá,” segir Salil Shetty, framkvæmdastjóri Amnesty International.
„Það er kaldhæðnislegt að Snowden sé meðhöndlaður sem njósnari þegar hetjudáð hans dróg athygli heimsins að þeirri staðreynd að bandarísk og bresk stjórnvöld stunduðu ólöglegar njósir á milljónum einstaklinga, án þeirra samþykkis. Fjöldaeftirlitið sem Snowden afhjúpaði hefur áhrif á líf fólks um allan heim. Herferð okkar gefur almenningi kost á að kalla eftir sakaruppgjöf Snowden og að þakka honum fyrir að hrinda af stað aðgerðum einstaklinga um heim allan sem láta sig friðhelgi einkalífsins varða.”
Í júní 2013 afhjúpaði uppljóstrarinn Edward Snowden að Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, NSA, fylgdist með síma- og netnotkun í 193 löndum um heim allan og náði eftirlitið til milljóna. Sem dæmi um eftirlitsgetu stofnunarinnar var gefið upp að hún gat safnað 5 milljörðum skráa um staðsetningar símtækja á dag og 42 milljörðum skráa af netinu, þar á meðal varðandi tölvupóst og vefsögu, á mánuði. Edward Snowden vann á sínum tíma hjá Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna sem verktaki og sá um öryggismál. Hann opinberaði einnig geðþóttaeftirlit breskra stjórnvalda.
Barack Obama, Bandaríkjaforseti brást við fréttum af afhjúpunum Snowden og gaf út tilskipun um gerðar yrðu þýðingarmiklar breytingar á eftirlitsstarfssemi Bandaríkjanna.
Árið 2015 stöðvaði bandaríska þingið eftirlitsstarfssemi Bandaríkjanna í fyrsta sinn í nærri fjóra áratugi eftir að áfrýjunardómstóll felldi þann úrskurð að upplýsingasöfnun úr nánast öllum innanlands símtölum væri ólögleg. Amnesty International hefur endurtekið kallað eftir því að bandarísk stjórnvöld láti allar ákærur á hendur Snowden niður falla eða tryggi honum opin réttarhöld fari hann fyrir rétt.
Rúmlega þrjú ár eru liðin frá uppljóstrunum Snowden en hann dvelur enn í mikilli óvissu í Rússlandi í skugga bandarískra laga um njósnastarfsemi sem á upphaf sitt að rekja til heimstyrjaldarinnar fyrri. Á grundvelli þeirra á Snowden í hættu á að vera ákærður fyrir alvarlega glæpi snúi hann aftur til Bandaríkjanna. Sakaruppgjöf Bandaríkjaforseta er besti möguleiki Edward Snowden á að hljóta frelsi.
„Minnast ætti Snowden sem mannréttindahetju fyrir þær aðgerðir sem hann vann í þágu almennings. Það yrði svartur blettur á arfleifð Barack Obama ef hann lætur af forsetaembættinu þegar Snowden er enn í útlegð í Rússlandi, aðskilinn frá fjölskyldu sinni og meðhöndlaður eins og óvinur ríkisins,“ segir Salil Shetty.
„Ákærurnar gegn Edward Snowden byggja á úreltum lögum sem aldrei hefði átt að setja til að byrja með. Við köllum nú eftir stuðningi frá almenningi um heim allan til að þrýsta á Obama að taka á þessu vítaverða óréttlæti og senda út þau skilaboð að uppljóstrarar og aðrir sem breyta í þágu mannréttinda hljóti vernd.”
Ben Wizner, lögmaður Edward Snowden og framkvæmdastjóri ACLU lét eftirfarandi orð falla: „Það eru einmitt mál eins og Edwards Snowden sem eru ástæða þess að valdið til að veita sakaruppgjöf er til staðar. Sumir forsetar Bandaríkjanna hafa veitt fólki sakaruppgjöf sem er sekt um vítavert athæfi en Barack Obamba hefur tækifæri til að samþykkja eina merkilegustu uppljóstrun samtímans. Í ljósi raunverulegs framlags Snowden til lýðræðisumræðu í heiminum ættum við að eiga samræður um hvernig við getum þakkað honum, ekki hvernig við refsum honum.”
Hægt er að skrifa undir ákall til Barack Obama, Bandaríkjaforseta, um að veita Edward Snowden hér: http://www.netakall.is/adgerdir/edward-snowden/hugrekki-hans-breytti-heiminum.
