Söfnunarátaki fyrir hinsegin fólk í Úganda hrint af stokkunum 27. febrúar

Hinsegin fólk í Úganda hefur lengi glímt við mikla
fordóma og ofbeldi, hvort sem er af hálfu almennings eða stjórnvalda.

Hinsegin fólk í Úganda hefur lengi glímt við mikla fordóma og ofbeldi, hvort sem er af hálfu almennings eða stjórnvalda. Lesbíska baráttukonan Kasha Jaqueline Nabagesera sem heimsótti Ísland á síðasta ári á vegum Íslandsdeildar Amnesty International, gaf Íslendingum góða innsýn í þann stöðuga ótta sem samkynhneigt, tvíkynhneigt og transfólk lifir við í þessu fallega landi. Frá árinu 2009 hefur hangið yfir ógnin af frumvarpi sem lagt var fram í úganska þinginu til að herða reipið enn þéttar um hálsinn á hinsegin fólki. Nokkrum dögum fyrir síðustu jól samþykkti þingið óvænt umrætt frumvarp en forseti landsins, Museveni, gat synjað því staðfestingar eða beiðst þess að þingið endurskoðaði einstök ákvæði þess. Nú liggur fyrir að forsetinn hefur samþykkt hin umdeildu lög sem kveða m.a. á um lífstíðarfangelsi við samkynhneigð. 

Eftir heimsókn Köshu til Íslands í fyrra komst á samstarf Samtakanna ´78 og grasrótar hinsegin fólks í Úganda. Samtökin ´78 og Íslandsdeild Amnesty International, með liðveislu öflugs hóps úr röðum tómstunda- og félagsmálafræðinema við HÍ, hafa nú tekið höndum saman um söfnunarátak til að styðja við bakið á hinsegin fólki í Úganda á þessum erfiðu tímum í baráttu þess. Verndar átaksins eru Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrum forsætisráðherra Íslands, og Páll Óskar Hjálmtýsson tónlistar- og baráttumaður.

Átakinu verður hrint af stokkunum nk. fimmtudag, 27. febrúar kl. 18 í Bíó Paradís. Þar verður sýnd hin verðlaunaða heimildamynd Call Me Kuchu sem gerist í Úganda og segir frá lífi og dauða samkynhneigða baráttumannsins Davids Kato auk hinsegin baráttuhreyfingarinnar þar í landi. Angel P´Ojara, sem er samkynhneigð kona frá Úganda búsett hérlendis, mun spjalla við gesti um ástandið að lokinni sýningu. Aðgangseyrir er 1000 krónur og rennur óskiptur til hinsegin fólks í Úganda. Miðar verða seldir í anddyri Bíó Paradísar, forsala verður miðvikudaginn 26. febrúar frá 11:00 – 14:00. Á fimmtudaginn opnar Bíó Paradís svo klukkan 17:00.

Fimmtudaginn 6. mars kl. 20 er blásið til stórtónleika í Hörpu. Á tónleikunum koma fram Hinsegin kórinn, Sigga Beinteins & Stjórnin, Páll Óskar og Retro Stefson. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 í Hörpu og munu standa í um tvo tíma. Miðaverð verður 2000 kr og rennur allur ágóði óskiptur til hinsegin fólks í Úganda. Meiri upplýsingar um tónleikana berast á allra næstu dögum. 

Eigi fólk ekki heimangengt í bíó eða á tónleika verður því gert kleift að styrkja átakið eftir öðrum leiðum.

Nánari upplýsingar:

Anna Pála Sverrisdóttir formaður S78 s. 864-9949

Unnsteinn Jóhannsson, verkefnisstjóri söfnunarátaksins fyrir S78 s. 662-2204

Bryndís Bjarnadóttir herferðastjóri AI s. 842-5664

Sigga Ólafsdóttir nemi í Tómstunda- og félagsmálafræði s. 6631171