Söguleg stund og sigur í mannréttindabaráttunni!

 gær, 22. janúar greiddi löggjafarþing El Salvador atkvæði um hvort náða ætti 25 ára konu,Gudalupe, sem hlaut 30 ára fangelsisdóm í kjölfar fósturmissis.

Í gær, 22. janúar greiddi löggjafarþing El Salvador atkvæði um hvort náða ætti 25 ára konu,Gudalupe, sem hlaut 30 ára fangelsisdóm í kjölfar fósturmissis. Hún var 18 ára gömul þegar dómurinn var kveðin upp og hefur setið í fangelsi í sjö ár.

Það er okkur mikið fagnaðarefni að greina frá því að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar var sú að 43 atkvæði náðust sem nauðsynleg voru til að náðun Guadalupe næði fram að ganga. 

Þetta er söguleg stund og sigur í mannréttindabaráttunni. Þetta er niðurstaða áralangrar baráttu Amnesty International, kvennasamtaka í El Salvador og annarra samstarfsaðila á heimsvísu.

Náðun Guadalupe er sú fyrsta sem Amnesty International keppir að ná fram í máli 17 kvenna sem allar voru settar í fangelsi vegna vandkvæða á meðgöngu. Þessi fordæmisgildandi náðun verður vonandi til þess að opna dyr fyrir aðrar konur í El Salvador eins og Mariu Teresu sem var dæmd í 40 ára fangelsi vegna vandkvæða á meðgöngu.

Við þökkum öllum þeim sem lögðu ákallinu vegna Gudalupe lið eða hafa tekið þátt með öðrum hætti í herferð okkar fyrir kyn-og frjósemisréttindum.

Fortakslaust bann er við fóstureyðingum í El Salvador og gildir þá einu hvort um nauðgun eða sifjaspell er að ræða eða þegar líf eða heilsa konu eða stúlku er í hættu.