Sögulegt loftlagsmál Pabai og Paul

Pabai Pabai og Paul Kagai, oft nefndir Pabai frændi og Paul frændi, tveir frumbyggjahöfðingjar frá afskekktum eyjum í Guda Maluyligal í Torres-sundi, standa í málaferlum gegn áströlsku ríkistjórninni fyrir að grípa ekki til nægra aðgerða til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar. 

Pabai Pabai og Paul Kagai eru svokallaðir venjuhelgaðir eigendur (Traditional Owners) eða upprunalegir landeigendur en forfeður þeirra hafa búið í Torres-sundinu í meira en 65.000 ár. Nú eru þeir í framlínu baráttunnar gegn loftslagsbreytingum og standa frammi fyrir því að missa heimili sín á eyjunum vegna hækkandi sjávarmáls. 

Ástralska ríkið hefur staðið sig einna verst allra ríkja í viðbrögðum við loftslagsbreytingum. Breyti ríkisstjórnin ekki tafarlaust um stefnu þá gætu eyjar í Torres-sundi orðið óbyggilegar sem neyðir eyjasamfélög í Torres-sundi til að yfirgefa heimili sín, rjúfa 65.000 ára tengsl við landið og gera þau að fyrstu loftslagsflóttamönnum Ástralíu. 

Málið er fyrsta sinnar tegundar þar sem einstaklingar í Ástralíu halda því fram að öll ríkisstjórnin, ekki einungis ráðherra eða stofnun, beri skylda til að vernda fólk gegn loftslagsbreytingum.

Lagarök

Pabai og Paul hafa snúið sér til dómstóla í von um að vernda samfélög sín gegn hörmungum. Þeir halda því fram að ríkisstjórnin beri lagalega ábyrgð á að tryggja að íbúar á eyjum í Torres-sundi verði ekki fyrir skaða af loftslagsbreytingum. Í lagalegu tilliti er þetta kallað „varúðarskylda“ (e. Duty of Care). 

Pabai og Paul halda því fram að áströlsk stjórnvöld hafi vanrækt skyldu sína til að takast á við loftslagsbreytingar og brotið gegn þessari varúðarskyldu með ólögmætum hætti í ljósi þess að loftslagsbreytingar muni valda samfélögum þeirra alvarlegu og varanlegu tjóni. Þeir vonast eftir niðurstöðu dómstóla um að stjórnvöldum beri að koma í veg fyrir þennan skaða á samfélög sín með því að draga úr losun gróðurhúslofttegunda í takt við nýjustu niðurstöður vísinda. Miðað við stöðuna í dag mun hitinn í Ástralíu hækka um 2 gráður ef viðmiðið um 43% samdrátt á losun gróðurhúsalofttegunda 2030 stendur.  Sérfræðingar telja að markmiðið ætti að vera nær 74% árið 2030.  

Eyjarnar sem Paul og Pabai búa á eru á áströlsku yfirráðasvæði í um 1.5 metra hæð yfir sjávamáli og um 4 km suður af Papúa Nýju-Gíneu. Fólk sem býr á eyjum í Torres-sundi finnur fyrir áhrifum loftlagsbreytinga á hverjum degi þar sem sjávarföll flæða yfir heimili og innviði, sjór flytur grafarstaði og skemmir hvíldarstaði forfeðra. Árstíðabundnar breytingar og eyðilegging hafsbotnsins hefur áhrif á getu samfélagsins til veiða og saltvatn eyðileggur jarðveginn sem gerir þeim ómögulegt að rækta eigin mat.  

Í ofanálag hafa Pabai og Paul og samfélög þeirra, sem frumbyggjar, djúpa tengingar við landið, hafið, himininn, stjörnurnar og vindinn. Tengingar sem varað hafa yfir 65.000 ár. „Eyjarnar mínar eru að sökkva. Þetta er okkar fósturjörð, Saibai og Boigu. Við viljum ekki tapa sjálfsmynd okkar né menningu. Þess vegna stend ég í þessum málaferlum,” segir Paul Kabai.

Byggir á alþjóðlegum árangri

Ástralska loftslagsmálið svokallaða hefur verið unnið í samvinnu með Urgenda Foundation, alþjóðleg samtök lagasérfræðinga, sem náð hafa árangri í málaferlum um loftslagsbreytingar. 

Árið 2015 hjálpaði Urgenda Foundation 886 einstaklingum í Hollandi að draga hollensku ríkisstjórnina fyrir dómstóla fyrir að gera ekki nóg til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar. Þeir unnu málið í héraðsdómi í Haag og unnu svo aftur á tveimur efri dómsstigum, með lokasigri í hæstarétti árið 2019. 

Málið var það fyrsta sem staðfesti að stjórnvöldum beri skylda til að vernda fólk gegn loftslagsbreytingum. Dómstóllinn skipaði hollenskum stjórnvöldum að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda í Hollandi innan fimm ára. Áhrif þessa tímamótamáls er þau að Holland fer nú eftir einni ströngustu loftslagsstefnu í heimi. Holland hefur lokað kolaorkuverum og fjárfest milljarða í endurnýjanlega orku og orkunýtingu. Fólk í Belgíu, Kólumbíu, Frakklandi, Þýskalandi og Írlandi hefur einnig náð góðum árangri fyrir dómstólum og nóg er af svipuðum málum í gangi í öðrum löndum.