Spænsk stjórnvöld felldu frumvarp um fóstureyðingarbann! 

Spænsk stjórnvöld felldu nýverið grimmilegt frumvarp til laga sem setja átti fóstureyðingum í landinu mjög þröngar skorður, er ógnað hefði heilsu, lífi og reisn kvenna og stúlkna.

Spænsk stjórnvöld felldu nýverið grimmilegt frumvarp til laga sem setja átti fóstureyðingum í landinu mjög þröngar skorður, er ógnað hefði heilsu, lífi og reisn kvenna og stúlkna.

Amnesty International fagnar því að forsætisráðherra Spánar hafi loks fallið frá afturhaldssömu frumvarpi en furðar sig engu að síður á því að það hafi verið lagt fram yfir höfuð. „Ríkisstjórn Spánar getur ekki stýrt ákvörðunum sem konur og stúlkur eiga að geta tekið fjálst um líf sitt og líkama og stjórnvöld verða að hrinda í framkvæmd tilmælum alþjóðlegra mannréttindastofnanna“, segir Esteban Beltrán framkvæmdastjóri Amnesty International á Spáni.

Frumvarpið fól í sér ýmsar hindranir í aðgengi kvenna og stúlkna að öruggum og löglegum fóstureyðingum. Til að mynda hefðu konur og stúlkur sem óskuðu eftir fóstureyðingu þurft að fá tvö vottorð frá læknum á sitthvorri heilsugæslustöðinni sem staðfestu að líf eða heilsa konunnar eða fóstursins væri í hættu á meðgöngu. Samkvæmt frumvarpinu hefði kona eða stúlka sem yrði þunguð í kjölfar nauðgunar þurft að tilkynna glæpinn til lögreglu til að fá aðgengi að fóstureyðingu. Þetta hefði reynst óskráðum farandverkakonum mjög erfitt þar sem þær ættu á hættu að vera vísað úr landi og einnig fórnalömbum sifjaspells.

Frumvarpið mætti gríðarlegri andstöðu meðal alþjóðasamfélagsins, óháðra félagasamtaka, kvenréttindasamtaka, heilbrigðisstarfsfólks um víða veröld og kvenna og stúlkna á Spáni. Amnesty International afhenti spænskum stjórnvöldum undirskriftir frá 130.000 einstaklingum um víða veröld, þar sem þess var krafist að stjórnvöld féllu frá frumvarpinu. Félagar í netákalli Íslandsdeildar Amnesty International tóku þátt í undirskriftasöfnuninni og voru 1.730 undirskriftir sendar frá Íslandi til spænskra stjórnvalda.

Enda þótt spænsk stjórnvöld hafi stígið mikilvægt skref með því að falla frá frumvarpinu er sjálfræði og heilsu kvenna og stúlkna á Spáni enn ógnað. Ríkisstjórn Spánar hefur lagt til að unglingsstúlkur á aldrinum 16 til 18 ára þurfi samþykki foreldra til að hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu sem sinnir fóstureyðingum. Þetta yrði stórt skref afturábak og myndi ganga í berhögg við nýleg tilmæli frá nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félags- og menningarleg réttindi þess efnis að Spánn ryddi úr vegi hindrunum í aðgengi á fóstureyðingarþjónustu, sérstaklega þegar um ungar stúlkur ræðir og farandverkakonur.

Amnesty International stendur að herferð sem nefnist, Minn líkami, Mín réttindi en hún hefur það að marki að tryggja að ríkisstjórnir allra landa verndi, virði og uppfylli kyn- og frjósemisréttindi allra. Sjá nánar: http://www.amnesty.is/starfid-okkar/herferdir/minn-likami/almennt-um-herferdina/