Þann 11. júlí 2015 voru tuttugu ár liðin frá því að þjóðarmorðin í Srebrenica áttu sér stað en þá voru rúmlega 8000 múslimar drepnir.
Þann 11. júlí 2015 voru tuttugu ár liðin frá því að þjóðarmorðin í Srebrenica áttu sér stað en þá voru rúmlega 8000 múslimar drepnir.
Þúsundir fjölskyldna fórnarlambanna sem féllu í þjóðarmorðinu í Srebrenica bíða þess enn að fá stríðsskaðabætur, sjá réttlætinu fullnægt og sannleikann afhjúpaðan.
„Tveir áratugir eru liðnir frá því að heimurinn leit undan þegar einn versti glæpur mannkynssögunnar var framinn á evrópskri grundu en ekkert þessu líkt hefur átt sér stað frá hörmungum seinni heimstyrjaldarinnar. Enn bíða fjölskyldur fórnarlambanna í Srebrenicu þess að réttlætið nái fram að ganga. Þörfin fyrir viðurkenningu yfirvalda í Bosníu og Hersegóvínu á þeim glæpum sem framdir voru er jafn brýn og áður. Því lengur sem hinir seku njóta refsileysis og jarðneskar leifar hinna látnu eru í fjöldagröfum, því dýpra verður sárið í sálum eftirlifenda sem kyndir undir hættulega og langvarandi togstreitu þjóðarbrota,“ segir John Dalhuisen framkvæmdastjóri Evrópu- og Mið-Asíudeildar Amnesty International.
Tuttugu árum eftir að vígasveitir Bosníu-Serba réðust inn í hólmlendur Srebrenicu - umráðasvæði sem tilnefnt var „öruggt svæði Sameinuðu þjóðanna“ - og myrtu handahófskennt þúsundir Bosníu-múslima, aðallega karlmenn og drengi, eru afdrif rúmlega 1000 einstaklinga enn ókunn.
Líkamsleifar nærri 7000 fórnarlamba þjóðarmorðsins hafa verið grafnar upp, borið hefur verið kennsl á líkin og þau jarðsett. Meðal annars var borið kennsl á 421 barn, eitt þeirra nýfætt og 94 ára gamla konu. Enn á eftir að endurheimta og bera kennsl á líkamsleifar rúmlega 1000 einstaklinga.
Samtals er 8000 manns enn saknað, þvert yfir landið, allt frá því að stríðinu lauk árið 1995 en landsstofnun horfinna fær sífellt minni fjárframlög með hverju árinu. Lög um horfna einstaklinga hafa enn ekki verið innleidd að fullu og því hafa fjölskyldur horfinna litlar bjargir til að krefjast skaðabóta. Sjóður til að styðja við bakið á fjölskyldum horfinna hefur enn ekki litið dagsins ljós þrátt fyrir að lögin voru samþykkt árið 2004.
Engin opinber stefna eða löggjöf vísar til viðurkenningar á þjóðarmorðinu og námsefni í skólum er jafnvel gersneytt tilvísunum í glæpina sem áttu sér stað í Srebrenica. Sáttaferli hefur ekkert þokast áfram og enn kyndir undir togstreitu á milli þjóðarbrota.
Þrátt fyrir að Alþjóðlegi stríðsglæpadómstólinn fyrir fyrrum Júgóslavíu hafi sótt Radovan Karadzic, Ratko Mladic og Slobodan Milosevic til saka, ásamt því að sakfella 74 aðra, eru fjölmörg mál enn óleyst. Lögsókn, vegna glæpa samkvæmt alþjóðalögum, fyrir dómstólum heima fyrir, er mjög seinvirkt ferli. Mikill meirihluti þeirra sem grunaðir eru um að hafa framið stríðsglæpi og glæpi gegn mannúð njóta refsileysis, öruggir í þeirri vissu að án pólitísks vilja þurfi þeir aldrei að svara til saka.
Enda þótt Bosnía og Hersegóvína hafi tekið ýmis jákvæð skref í þá átt að fjölga leiðum til lögsóknar gegn stríðsglæpum, eru fjárframlög til eftirfylgni enn fátækleg og ríkisstjórnin hefur verið treg til að innleiða stefnumótum um verkefnið. Hefja verður nýjar rannsóknir og lögsóknir, ásamt því að tryggja vitnavernd.
Án ábyrgðarskyldu, réttlætis og stríðsskaðabóta, mun sátt aldrei nást í samfélaginu. „Srebrenica er ekk aðeins hrópleg áminning um getu mannkyns til að fremja hrottafengin ódæðisverk, heldur einnig um sinnuleysi alþjóðasamfélagsins til að fá stöðvað þjóðarmorð sem átti sér stað beint fyrir framan nefið á því,“ segir John Dalhuisen.
Tuttugu árum eftir þjóðarmorðin neita leiðtogar Bosníu og Hersegóvínu enn að láta uppi hvar líkin eru grafin. Grípa verður til áhrifaríkra aðgerða, án tafar, til að lina þjáningar þeirra sem enn bíða sannleikans og réttlætis.
