Stefna um skyldur ríkja til að virða, vernda og uppfylla mannréttindi vændisfólks

Heimsþingið fer þess á leit við alþjóðastjórn samtakanna að hún móti stefnu sem er til þess fallin að vernda eftir fremsta megni mannréttindi vændisfólks, með aðgerðum sem meðal annars fela í sér afglæpavæðingu vændisþjónustu, að teknu tilliti til:

  • Forsendu þess að koma í veg fyrir og ráða bót á mannréttindabrotum gegn vændisfólki, einkum þeirri þörf að ríki endurskoði ekki aðeins og afnemi lög sem gera vændisfólk berskjaldað fyrir mannréttindabrotum, heldur forðist að setja slík lög.
  • Markmiða Amnesty International þess efnis að stuðla að jafnrétti kynjanna og efla réttindi kvenna.
  • Skyldu ríkja til að vernda sérhvern einstakling innan lögsögu þeirra frá mismunun, bæði í löggjöf og framkvæmd, í ljósi þess að félagsleg staða og mismunun eru oft lykilástæður þess að fólk leiðist út í vændi, jafnframt sem varnarleysi þess gagnvart grófum mannréttindabrotum eykst meðan það er í vændisþjónustu og takmarkar úrræði þess kjósi það að hætta að stunda vændi.
  • Meginreglunnar um skaðaminnkun.
  • Skyldu ríkja til að vernda mannréttindi fórnarlamba mansals og koma í veg fyrir og berjast gegn mansali sem hefur þann tilgang að misnota fólk kynferðislega í hagnaðarskyni.
  • Skyldu ríkja til að vernda vændisfólk frá misnotkun og notkun refsilöggjafar til að takast á við athæfi sem fela í sér slíka misnotkun.
  • Þess að hvers konar athæfi tengt kynferðislegri misnotkun á barni skal vera refsivert. Hvert það barn sem er flækt í kynferðislegt athæfi í hagnaðarskyni er fórnarlamb kynferðislegrar misnotkunar og á rétt á stuðningi, skaðabótum og frekari úrræðum í samræmi við alþjóðlega mannréttindalöggjöf. Skulu ríki gera allar viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir kynferðislega misnotkun og misþyrmingar á börnum.
  • Rannsókna sem benda til þess að fólk hrekist út í vændisþjónustu vegna jaðarsetningar og takmarkaðra valkosta. Í ljósi þess brýnir Amnesty International fyrir ríkjum að gera viðeigandi ráðstafanir og tryggja efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi borgara sinna svo að enginn neyðist til að stunda vændisþjónustu gegn vilja sínum, vegna skorts á öðru lífsviðurværi. Enn fremur skulu ríki tryggja að fólk geti hætt að stunda vændi ef og þegar það kýs svo.
  • Þess að með stefnunni er leitast við að hámarka alhliða mannréttindavernd, þar á meðal kynjajafnrétti, réttindi kvenna og bann við mismunun, réttinn til frelsis og mannhelgi, réttindi barna, aðgang að réttarkerfinu, réttinn til heilbrigðis, réttindi frumbyggja og réttinn til að afla sér lífsviðurværis.
  • Þess að viðurkenna og virða skuli sjálfræði vændisfólks til að byggja á eigin reynslu og skilgreina heppilegustu lausnirnar til að tryggja þeirra eigin velferð og öryggi, í samræmi við þær alþjóðlegu meginreglur á sviði mannréttinda sem við eiga og varða aðkomu að ákvarðanatöku, s.s. meginregluna um fyrir fram, frjálst og upplýst samþykki í málum er varða frumbyggja.
  • Rannsókna Amnesty International og fleiri aðila sem byggja á persónulegri reynslu vændisfólks og varða áhrif refsilöggjafar og annarrar lagasetningar á mannréttindi fólks í vændisþjónustu.
  • Þess að stefnan mun vera í fullu samræmi við afstöðu Amnesty International hvað varðar upplýst samþykki við kynferðislegt samneyti, þar á meðal í samhengi sem felur í sér misnotkun valds eða mismunandi valdastöður í samfélaginu.
  • Þess að Amnesty International tekur ekki afstöðu til þess hvort vændisþjónusta skuli vera formlega viðurkennd starfsgrein að lögum. Ríki geta takmarkað sölu vændisþjónustu að því tilskildu að slíkar takmarkanir samræmist alþjóðlegri mannréttindalöggjöf. Takmarkanirnar skulu vera lögmæltar og án mismununar, enda teljist þær nauðsynlegar þar sem lögmætu markmiði verði ekki náð með öðru og vægara móti.

Stefna þessi mun fela í sér svigrúm til að taka mið af ólíkum aðstæðum í einstökum ríkjum heims.

Deildir Amnesty mega nálgast stefnuna í áföngum og geta mótað starf sitt að mismunandi þáttum hennar (í samræmi við og innan marka stefnunnar) með tilliti til lagaumhverfis í hverju ríki fyrir sig.

Alþjóðastjórn samtakanna mun tryggja að í kjölfar útgáfu hinnar endanlegu rannsóknarskýrslu hafi deildir tækifæri til að fara yfir lokadrög stefnunnar og koma með ábendingar áður en hún verður samþykkt.