Stjórnvöld í Ástralíu hafa breytt eyjunni Nauru í fangelsi undir berum himni.

Eins og fram kemur í nýrri skýrslu Amnesty International eru áströlsk stjórnvöld sek um að beita flóttafólki og hælisleitendur kerfisbundnu ofbeldi og brjóta blygðunarlaust alþjóðalög til þess eins að halda fólkinu frá ströndum landins.

Eins og fram kemur í nýrri skýrslu Amnesty International eru áströlsk stjórnvöld sek um að beita flóttafólki og hælisleitendur kerfisbundnu ofbeldi og brjóta blygðunarlaust alþjóðalög til þess eins að halda fólkinu frá ströndum landins.
Skýrslan sem ber heitið, Island of Despair: Australia´s “processing” of refugees on Nauru, flettir ofan af stefnu ástralskra stjórnvalda um meðferð á flóttafólki og hælisleitendum á eyjunni Nauru. Margra mánaða rannsóknarvinna liggur að baki skýrslunni en rætt er við rúmlega 100 einstaklinga á eyjunni Nauru og í Ástralíu. Í skýrslunni kemur fram að stefna stjórnvalda byggi á úthugsuðu kerfi vanrækslu og grimmdar.
„Áströlsk stjórnvöld stýra fangelsi undir berum himni á eyjunni Nauru sem er hannað til að valda eins miklum sársauka og nauðsynlegt er til að koma í veg fyrir að viðkvæmustu hópar heimsins leiti eftir öryggi í Ástralíu,” segir Anna Neistat, yfirmaður rannsókna hjá Amnesty International og ein þeirra sárafáu sem tekist hefur að komast á þessa afskekktu og leyndu eyju til að rannsaka þar mannréttindabrot. „Ríkisstjórn Ástralíu hefur einangrað konur, karlmenn og börn, sem eru í mjög viðkvæmri stöðu, á afskekktum stað þaðan sem þau komast hvergi í því augnamiði að láta þetta fólk þjást. Þau hafa sannarlega þjáðst á hrikalegan hátt og í sumum tilfellum óbætanlegan.”
Aðeins örfáum viku eftir að Malcolm Turnbull forsætisráðherra Ástralíu hampaði stefnu stjórnvalda á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um flóttafólk og hvatti aðrar þjóðir til að gera að sinni, ljóstraði skýrsla Amnesty International því hvernig fælingarstefna stjórnvalda hefur leitt til hræðilegra mannréttindabrota. „Stefna ástralskra stjórnvalda er andstæða þess sem aðrar þjóðir ættu að keppa að. Stefnan lágmarkar vernd og hámarkar skaða,“ segir Anna Neisat. 
„Fyrir sex áratugum skrifuðu áströlsk stjórnvöld undir alþjóðlegan flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna en engu að síður þverbrjóta þau alþjóðalög og hvetja önnur ríki til að gera slíkt hið sama.“
Ástralía hefur varið þúsundum milljarða íslenskra króna í að koma á laggirnar og viðhalda hrottalegu flóttamannakerfi utan landsteinanna. Samkvæmt Ríkisendurskoðun Ástralíu hefur viðhald á flóttamannakerfinu á eyjunum Nauru og Manus á Papúa Nýju-Gíneu, kostað rúmlega 50 milljónir íslenskra króna á ári fyrir hvern flóttamann. Stórum hluta þessara fjármuna hefur verið varið í fyrirtæki sem eru á samningi hjá stjórnvöldum og er ætlað að sinna ýmsum verkefnum á eyjunni Nauru. Mörg þessara fyrirtækja hafa lýst því yfir að þau ætli að hætta allri starfsemi á eyjunni. Starfsfólk sumra fyrirtækja á eyjunni hafa gerst uppljóstrarar og eiga á hættu að vera sótt til saka fyrir að svipta hulunni af vonlausum aðstæðum á Nauru.
„Áströlsk stjórnvöld ættu að komast að sömu niðurstöðu, loka fyrir flóttamannamiðstöðvarnar á eyjunni og nýta skattpeninga borgaranna betur með því að viðurkenna rétt allra flóttamanna og hælisleitenda til að koma tafarlaust til Ástralíu. Þessir einstaklingar geta ekki beðið stundarkorn lengur eftir mannúðlegri lausn,“ segir Anna Neistat.
Þolendum refsað
Flóttafólk og hælisleitendur á Nauru hafa sætt ofbeldi af hálfu íbúa á Nauru, þeirra á meðal íbúa sem eru í áhrifastöðum. Þrátt fyrir trúverðugar frásagnir um fjölmargar árásir m.a. kynferðislegar árásir gegn flóttafólki og hælisleitendum hefur enginn íbúi á Nauru verið sóttur til saka svo Amnesty International sé kunnugt um. Flóttafólk og hælisleitendur hafa hins vegar sætt handahófskenndum handtökum og varðhaldi af geðþóttaástæðum. Eins og einn þjónustuaðili á Nauru sagði: „varðhald af geðþóttaástæðum sem hluti af ógnun er algengt á Nauru.“
Hamid Reza Nadaf, íranskur flóttamaður sem á ungan son, sagðist hafa sætt varðhaldi frá 3. júní til 7. september á grundvelli upploginnar ákæru. Frelsissvipting hans og fangelsun tengist að öllum líkindum myndum sem hann tók af flóttamannamiðstöðinni. Átta ára sonur Hamid, sem að sögn þjáist af berklum, var einn og afskiptur lengst af þeim þremur mánuðum sem faðir hans sat á bak við lás og slá. Yfirvöld á Nauru hafa einnig handtekið flóttafólk og hælisleitendur vegna sjálfskaðandi hegðunar, jafnvel í þeim tilvikum þegar ljóst var að dvöl þeirra í vörugeymslum um óákveðin tíma, olli hrakandi, andlegri heilsu þeirra.„Þetta er grimm gildra. Í örvæntingu sinni reynir fólk að binda enda á líf sitt til að flýja það, en endar á bak við lás og slá, varpað inn í fangelsi innan fangelsis,“ segir Anna Neistat.
Versnandi andleg heilsa
Nánast allir sem Amnesty International ræddi við, þeirra á meðal ung börn, þjáðust af slæmri andlegri heilsu. Það er óyggjandi staðreynd að langvinn fangelsisvist um óákveðinn tíma hefur bein, neikvæð áhrif á andlega heilsu fólks, samkvæmt Konunglegum sálfræðiháskóla Ástralíu og Nýja-Sjálands. Fólk fær ekki þá aðhlynningu sem það þarf á að halda vegna andlegra veikinda eða annarra kvilla. „Laleh” (ekki raunverulegt nafn) er írönsk kona sem flúði heimaland sitt, ásamt eiginmanni sínum og þriggja ára dóttur. Laleh tjáði Amnesty International að hún hrjáðist af þunglyndi en að „þeim stæði á sama.“ „Nahal” (ekki raunverulegt nafn), dóttir Laleh þróaði einnig með sér andleg veikindi á þeim 18 mánuðum sem fjölskyldan dvaldi í tjaldi á Nauru. Eftir að læknir skar úr um andleg veikindi Nahal var henni gefin lyf sem eru ekki æskileg börnum. Þegar Laleh og eiginmaður hennar vöktu máls á þessu sópaði læknirinn áhyggjum þeirra undir teppið. Að sögn hjónanna, lét læknirinn eftirfarandi orð falla, „ef ykkur líkar þetta ekki þá getið þið snúið aftur til heimalandsins.“ Dr. Peter Young, fyrrum framkvæmdastjóri geðheilbrigðisþjónustu hjá Alþjóðlegu heilbrigðis- og læknaþjónustunni (International Health and Medical Service) tjáði Amnesty International eftirfarandi; „það virðist vera hluti af fælingarstefnu ástralskra stjórnvalda að láta það viðgangast að andlegri heilsu fólks hraki án þess að gripið sé til viðeigandi meðferðar. Allt virðist viðgangast til að stöðva bátana.“
Meðferð á flóttafólki á Nauru jafngildi pyndinum
Amnesty International komst að því að meðferðin sem flóttafólk og hælisleitendur sem sætir á eyjunni Nauru, jafngildir pyndingum.
Skelfileg angist flóttafólksins, skaðsamlegt eðli flóttamannakerfisins og sú stefna að halda flóttafólki frá landi, sem ætlað er að ógna og hræða aðra frá því að leita sér verndar, sýnir að flóttamannakerfi ástralskra stjórnvalda fellur undir skilgreininguna á pyndingum samkvæmt alþjóðalögum. Forsætisráðherra Ástralíu, Malcolm Turnbull, hefur haldið því fram að ríkisstjórn landsins verði að tryggja að flóttamannakerfið sé óvægið. Sem ráðherra samskiptamála lét Malcom eftirfarandi orð falla í maí 2014: „aðgerðir okkar eru óvægar og einhverjir myndu segja að þær væru grimmar…en staðreyndin er sú að ef það á að stöðva smygl á fólki þá þarf að vera mjög, mjög harðskeyttur.“