Ákærur vegna bangsa-gjörningsins 4. júlí 2012 hafa verið felldar niður. Anton Suryapin og Syarhei Basharimau eiga ekki lengur á hættu að sæta fangelsi.
Tveir af leikfangabjörnunum sem svifu til jarðar í Hvíta-Rússlandi © Studiototal.se
Ákærur vegna bangsa-gjörningsins 4.júlí 2012 hafa verið felldar niður. Anton Suryapin og Syarhei Basharimau eiga ekki lengur á hættu að sæta fangelsi.
Félagar í netákalli okkar tóku málið upp í ágúst 2012 og þrýstu á hvít-rússnesk yfirvöld. Bestu þakkir til allra sem tóku þátt!
Anton Suryapin hefur lýst yfir þakklæti vegna stuðnings Amnesty International og herferðar samtakanna í þeirra þágu.
Nánar
Anton Suryapin og Syarhei Basharimau voru ákærðir eftir að tveir fulltrúar frá sænska auglýsingafyrirtækinu Studio Total fóru yfir landamæri Hvíta-Rússlands í lítilli flugvél. Um það bil 900 böngsum í fallhlífum var kastað úr flugvélinni. Hver bangsi hélt á spjaldi þar sem kallað var eftir tjáningarfrelsi í Hvíta-Rússlandi.
Anton Suryapin, nemi í blaðamennsku, var ákærður fyrir að setja ljósmyndir af böngsunum á vefsíðu fyrir fréttamyndir í Hvíta-Rússlandi. Hann var handtekinn 13.júlí 2012 og var í varðhaldi í mánuð. Amnesty International lýsti því yfir að hann væri samviskufangi. Anton var seinna leystur úr haldi með því skilyrði að hann yfirgæfi ekki heimabæ sinn, Slutsk, suður af Minsk, án leyfis frá KGB og að hann gæfi ekki upp neinar upplýsingar varðandi rannsóknina.
Syarhei Basharimau, sem hefur umsjón með leiguíbúðum í Minsk, var handtekinn 6.júlí vegna gruns um að hafa aðstoðað sænska einstaklinga að fara ólöglega yfir landamærin. Hann hafði útvegað íbúð fyrir tvo samstarfsaðila flugmannsins. Þeir fóru til Minsk fyrir gjörninginn en yfirgáfu landið að honum loknum. Studio Total fordæmdi handtökurnar og sagði að hvorugur mannanna tengdist málinu eða hafi haft vitneskju af áformunum.
Anton Suryapin og Syarhei Basharimau eiga ekki lengur á hættu á lögsókn vegna atviksins þann 4.júlí 2012. Skilyrðum fyrir tryggingu var aflétt og þeir eru ekki lengur í farbanni. Öllum tækjabúnaði, sem gerður var upptækur, hefur verið skilað aftur til Antons Suryapin og honum verið gert viðvart um málalok.
