Í kjölfar innrásar fjölþjóðlegs herliðs, undir stjórn Bandaríkjanna, í Afganistan árið 2001 til að koma stjórn Talíbana frá völdum, veittu yfirvöld í Afganistan loforð um að vernda mannréttindi kvenna og tryggja jafnrétti kynjanna. Frá þeim tíma hafa átta ár runnið sitt skeið og aðstæður afganskra kvenna eru enn dapurlegar.
„Mér berast lífslátshótanir og tilraun var gerð til að nema níu ára son minn á brott. Þeir sem ógna lífi mínu með þessum hætti eru að senda mér skýr skilaboð; loki ég ekki athvarfinu fyrir konur í neyð er líf mitt í hættu.“
Shahla, mannréttindafrömuður sem rekur athvarf fyrir konur er búa við heimilisofbeldi, eru þvingaðar í hjónaband og/eða eiga á að hættu að vera beittar kynferðislegu ofbeldi.
Í kjölfar innrásar fjölþjóðlegs herliðs, undir stjórn Bandaríkjanna, í Afganistan árið 2001 til að koma stjórn Talíbana frá völdum, veittu yfirvöld í Afganistan loforð um að vernda mannréttindi kvenna og tryggja jafnrétti kynjanna. Frá þeim tíma hafa átta ár runnið sitt skeið og aðstæður afganskra kvenna eru enn dapurlegar.
Einhverjar umbætur í mannréttindum kvenna hafa þó verið innleiddar í landinu frá falli Talíbana. Til að mynda með stofnun ráðuneytis sem fer með málefni kvenna, gerð stjórnarskrár sem tryggja á konum jafnan rétt og körlum, bættri menntun kvenna og meiri sýnileiki kvenna á alþingi.
Þrátt fyrir ofangreindar umbætur er ofbeldi gegn konum og stúlkum í Afganistan enn landlægt og birtingarmyndirnar margar. Má þar nefna heimilisofbeldi, mannsrán, nauðganir af hendi vopnaðra manna, mansal, þvinguð hjónabönd (sífellt yngri stúlkur eru nú þvingaðar í hjónaband) og skiptasamninga þar sem konur eru látnar ganga upp í skuldir eða þær látnar af hendi sem sárabætur vegna deilna.
Horia Mosadiq berst fyrir mannréttindum kvenna í Afganistan
Lítill hópur afganskra kvenna, sem berst fyrir mannréttindum, hefur sótt í sig kjark til að laga bága stöðu kvenna í landinu. Barátta þeirra fer fram með ýmsu móti; með öflun upplýsinga um ofbeldi stríðsherra, rekstri athvarfa fyrir konur og vitundarvakningu um áhrif þvingaðra hjónabanda, og með því að bjóða upp á fræðslu og fjölskylduráðgjöf. Þessum hugrökku baráttukonum er ósjaldan ógnað og þær verða oft fyrir árásum, sérstaklega af hendi voldugra afla í samfélaginu. Sum þessara afla heyra undir ríkisstjórnina, sum eiga í bandalagi við talíbana og önnur eru í stjórnarandstöðu. Í sumum tilvika verða þessar baráttukonur jafnvel fyrir ofbeldi af hálfu fjölskyldumeðlima sem telja heiðri sínum ógnað af starfi þeirra. Í mörgum tilvikum berast konum í Afganistan, sem berjast fyrir mannréttindum kynsystra sinna, líflátshótanir, þær verða fyrir líkamsárásum, jafnvel sýruárásum og tilraunum til mannráns, annað hvort á þeim eða fjölskyldumeðlimum. Sumar kvennanna hafa flúið land en aðrar hafa verið myrtar fyrir það eitt að láta í sér heyra.
Árið 2007 var Zakia Zaki framkvæmdastjóri útvarpsstöðvarinnar Friður í Parwan héraði skotin til bana á heimili sínu. Hún lá sofandi við hlið tveggja ungra sona sinna þegar morðið átti sér stað. Zakia Zaki var vel þekkt útvarpskona; rödd sem talaði opinberlega gegn stríðsherrum landsins og lét lífið fyrir. Henni höfðu margsinnis borist líflátshótanir vegna gagnrýni sinnar áður en látið var til skarar skríða. Enginn hefur enn þurft að sæta ábyrgð á þessum hrottafengna glæp.
Laila, sem er mannréttindafrömuður og berst fyrir réttlæti fórnarlamba stríðsglæpa, tjáði Amnesty International eftirfarandi: „Allt frá árinu 2007 hef ég sætt kerfisbundnum þrýstingi [að láta af baráttunni]af hálfu óþekktra aðila sem hringja til mín, senda mér tölvupóst, veita mér eftirför og hóta mér lífláti. Á fyrstu sex mánuðum ársins 2008 voru að minnsta kosti tvær tilraunir gerðar til að nema börnin mín á brott þegar þau voru á leið heim úr skólanum.“
Sima Samar er formaður Mannréttindanefndar Afganistan, sem er óháð stofnun
Skortur á pólitískum vilja, ásamt mismunun gegn konum innan réttarkerfisins, ýtir undir refsileysi og styrkir þau menningarlegu viðhorf og það ofbeldi sem takmarkar mjög mannréttindi kvenna í Afganistan. Hvorki lögregla, dómstólar né ættarþing (jirgas) taka kvartanir kvenna fyrir, svo heitið geti og misyndismennirnar eru sjaldan dregnir fyrir dóm.
Enda þótt Afganistan hafi skrifað undir samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum og stjórnarskrá landsins ábyrgist jafnan rétt karla og kvenna, þá hefur ríkisstjórn landsins mistekist að tryggja að mannréttindi allra kvenna og stúlkna í Afganistan séu uppfyllt, vernduð og virt. Þetta á ennfremur við um alþjóðasamfélagið sem úthlutar Afganistan 90% af því fé sem fer í opinber útgjöld.
Ef ná á raunverulegum árangri í að bæta stöðu kvenna í Afganistan verða þarlend stjórnvöld að grípa til tafarlausra aðgerða svo baráttufólk fyrir mannréttindum geti sinnt sínu mikilvæga starfi, án ótta við ofbeldi eða ógn af hvers kyns tagi.
Gríptu til aðgerða í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna og krefðu Karzai forseta landsins um fullra vernd fyrir þær konur sem berjast fyrir mannréttindum í Afganistan.
Skrifaðu undir áskorun til forseta Afganistan
