Amnesty International varar við því að 2.2. milljónir manna séu mikilli hættu á sjúkdómum og hungri í kjölfar ákvörðunar súdanskra yfirvalda um að reka meira en 10 mannúðarsamtök frá landinu.
Amnesty International varar við því að 2.2. milljónir manna séu mikilli hættu á sjúkdómum og hungri í kjölfar ákvörðunar súdanskra yfirvalda um að reka meira en 10 mannúðarsamtök frá landinu.
Brottvísun mannúðarsamtaka frá Darfúr hefur geigvænleg áhrif á íbúa, sem hafa reitt sig á aðstoð þeirra. Amnesty International hefur fordæmt ákvörðunina.
Þessi ákvörðun súdanskra yfirvalda kemur í kjölfar birtingar handtökuskipunar alþjóðlega sakamáladómstólsins á hendur Omar al Bashir forseta Súdan vegna ákæru um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni.
Með því að reka á brott mannúðarsamtök er í raun verið að refsa enn frekar íbúum Darfúr sem síðustu sex ár hafa mátt þola vopnuð átök og alvarleg mannréttindabrot.
Amnesty International hvetur súdönsk stjórnvöld til að afturkalla nú þegar ákvörðunina og heimila mannúðarsamtökum að halda áfram mikilvægu starfi sínu í þágu íbúa Darfúr. Einnig hvetja samtökin Afríkusambandið og alþjóðasamfélagið til að fordæma ákvörðunina og þrýsta á um að mannúðarsamtök geti snúið til starfa sinna á ný.
Súdönsk yfirvöld eru skuldbundin til að fara að alþjóðalögum og heimila alþjóðlega aðstoð til fólks sem þarfnast hennar.
