Súdanska blaðakonan Lubna Hussein er fyrir rétti í Khartoum í Súdan fyrir að ganga í buxum.
Súdanska blaðakonan Lubna Hussein er fyrir rétti í Khartoum í Súdan fyrir að ganga í buxum. Amnesty International hvetur súdönsk stjórnvöld til að draga kæruna gegn henni til baka og afnema lög sem heimila að konur séu hýddar fyrir að ganga í fötum er teljast „ósiðleg“.
Óásættanlegt er hvernig þessum lögum hefur verið beitt gegn konum og refsingin, allt að 40 svipuhögg, er hræðileg.
Í súdönsku refsilöggjöfinni frá 1991 segir, í grein 152, að:
„Hver sem sýnir af sér ósiðlega hegðun á almannafæri… eða klæðist ósiðlegum fatnaði… skal sæta hýðingu sem ekki má vera fleiri en 40 högg, eða greiða sekt eða hvoru tveggja…“.
Lögin eru þannig samin að ómögulegt er að ráða af þeim hvað telst siðlegt eða ósiðlegt. Konur eru oft handteknar, leiddar fyrir dómara og dæmdar. Þegar dómurinn er fallinn eru þær hýddar. Allt gerist þetta einungis vegna þess að lögregluþjóni mislíkar klæðaburður þeirra. Lögin mismuna einnig kynjunum og þeim er miklu oftar beitt gegn konum.
Árið 2003 skipaði Mannréttindanefnd Afríku Súdan að breyta 152. greininni þar sem að hún jafngilti pyndingum af hálfu ríkisvaldsins, eftir að átta konur höfðuðu mál á hendur stjórnvöldum í kjölfar þess að þær voru handteknar fyrir lautarferð á almannafæri með karlkyns vinum. Konurnar átta voru hýddar opinberlega með svipu úr vír og plasti, sem olli að sögn varanlegum örum á líkama kvennanna. Ríkisstjórn landsins hefur ekki sýnt neina viðleitni til að breyta 152. greininni þrátt fyrir margvísleg tilmæli.
Hýðingar eru grimmileg, ómannúðleg og vanvirðandi refsing og brjóta í bága við alþjóðalög og almenn mannúðarsjónamið.
LESTU MEIRA
Sudanese authorities must abolish the punishment of flogging and repeal discriminatory laws (Appeal for action, 24 August 2009)
