Suður-Afríka: Úrskurður gegn námufyrirtæki er sigur fyrir jaðarsamfélög í landinu

Dómstóll í Suður-Afríku úrskurðaði að stjórnvöld geta ekki veitt leyfi fyrir námugreftri á títani í Xolobeni án samþykkis frumbyggjasamfélaga. Dómurinn sendir skýr skilaboð um að fjölþjóðleg námufyrirtæki geta ekki vaðið yfir réttindi fólks fyrir eigin gróða

Dómstóll í Suður-Afríku úrskurðaði að stjórnvöld geta ekki veitt leyfi fyrir námugreftri á títani í Xolobeni án samþykkis frumbyggjasamfélaga. „Þessi framsækni úrskurður er sigur fyrir Xolobeni-samfélagið sem hefur lengi barist fyrir rétti sínum til að hafna námugreftri á landi forfeðra sinna,“ segir framkvæmdastjóri Amnesty International í Suður-Afríku.

„Dómurinn sendir skýr skilaboð um að fjölþjóðleg námufyrirtæki geta ekki vaðið yfir réttindi fólks fyrir eigin gróða. Dómurinn er ekki aðeins sigur fyrir þetta tiltekna samfélag heldur öll samfélög í landinu sem eru að berjast fyrir því að vernda landið sitt, arfleifð og menningu. Stjórnvöld verða að fara eftir úrskurðinum og tryggja framvegis að upplýst samþykki frumbyggjasamfélaga sé til staðar við veitingu leyfis fyrir námugreftri.“

Það er þó enn brýnt að styðja við Nonhle, eina af baráttukonunum í Bréf til bjargar lífi 2018 og leiðtoga samfélags síns, í að verja land sitt gegn námugreftri í Suður-Afríku. Hætta er á að þrýst verði á samfélag hennar til að samþykkja námugröftinn. Einnig eru áform um að áfrýja úrskurðinum. Það er því enn mikilvægt að styðja baráttuna og gæta að öryggi Nonhle og samfélags hennar.

Bakgrunnur

Transworld Energy and Minerals, dótturfyrirtæki ástralska fyrirtækisins MRC, sótti um leyfi fyrir námugreftri á títani á uMgungundlovu-svæðinu í austurhluta Suður-Afríku árið 2008. Xolobeni-fólkið myndaði nefnd árið 2007 til að hindra námugröftinn því hann bryti á landsréttindum og væri ógn við sögu og lífsviðurværi samfélagsins.