Sýrland: Umsátur í Yarmouk – hryllingssaga um stríðsglæpi, svelti og dauða!

Ný skýrsla Amnesty International sýnir að stríðsglæpir og glæpir gegn mannkyni hafa verið framdir á sýrlenskum og palestínskum borgurum í flóttamannabúðunum Yarmouk við útjaðar Damaskus, sem sýrlenski stjórnarherinn hefur á sínu valdi. 

Ný skýrsla Amnesty International sýnir að stríðsglæpir og glæpir gegn mannkyni hafa verið framdir á sýrlenskum og palestínskum borgurum í flóttamannabúðunum Yarmouk við útjaðar Damaskus, sem sýrlenski stjórnarherinn hefur á sínu valdi.

Skýrslan sem ber heitið Lífið murkað út í Yarmouk: Stríðsglæpir gegn stríðshrjáðum borgurum (Squeezing the life out of Yarmouk: War crimes against besieged civilians) varpar ljósi á dauða 200 einstaklinga frá því umsátrið var hert í júlí 2013 og lokað var fyrir aðgengi að mat og sjúkravörum. Samkvæmt rannsóknum Amnesty International urðu 128 einstaklingar af 200 hungurmorða í þeirri mannréttindaneyð sem þróast hefur á svæðinu.

Lífið í Yarmouk er óbærilegt fyrir örvinglaða borgara sem svelta og finna sig fasta í stigversnandi þjáningum þaðan sem hvergi er undankomu auðið. Borgarar Yarmouk eru meðhöndlaðir eins og peð í banvænni skák sem þeir hafa enga stjórn á.

Skýrslan bendir á að stjórnarherinn og bandamenn hafa ítrekað gert árásir, þar með talið loft- og sprengiárásir, á skóla, spítala og moskur í Yarmouk. Sum svæðin sem hafa orðið fyrir árás hýsa athvörf fyrir fólk sem flosnað hefur upp frá heimilum sínum vegna átakanna. Læknar og hjúkrunarfólk hefur einnig verið skotmark árása.

Handahófskenndar árásir á borgarbyggðir sem leiða til dauða og líkamsmeiðsla teljast til stríðsglæpa. Síendurteknar árásir á þéttbýli þar sem borgarar eiga ekki undankomu auðið sýnir fram á vægðarleysi og harðvítugt skeytingarleysi gagnvart grundvallarreglum í  alþjóðalaga, að sögn Amnesty International.

Að minnsta kosti 60% þeirra sem enn búa í Yarmouk þjást af vannæringu. Íbúar greindu Amnesty International frá því að þeir hefðu ekki lagt sér ávöxt eða grænmeti til munns í marga mánuði. Verðlag hefur snarhækkað að undanförnu. Eitt kíló af hrísgrjónum kostar allt að ellefu þúsund íslenskar krónur.

Sýrlensk yfirvöld fremja stríðsglæpi með því að svelta borgaranna. Það er hluti af stríðsrekstri fyrrnefndra. Skelfilegar frásagnir af fjölskyldum sem grípa til þess örþrifaráðs að borða hunda og ketti og árásum leyniskyttna á borgara í fæðuleit eru hluti af þeim hryllingi sem íbúar Yarmouk lifa við, segir Amnesty International. Flóttamannabúðirnar í Yarmouk hafa einnig verið án rafmagns síðan í apríl 2013.

Þrátt fyrir að hjálparstofnun Sameinuðu þjóðanna hafi dreift matarbirgðum til íbúa búðanna í janúar og febrúar hafa þær hrokkið skammt og nægja ekki einu sinni til að mæta grunnþörfum. Hjálparstarfsfólk hefur lýst dreifingu matargjafanna sem dropa í hafið. Nýlegt sprengiregn á svæðið hefur þýtt að enn og aftur þarf að loka á dreifingu matarbirgða.

Tíðni dauðsfalla hækkar á degi hverjum í Yarmouk og  ástandið er skelfilegt. Frásagnir berast af konum sem láta lífið við barnsburð. Börn og eldra fólk þjáist einna mest. Átján börn þeirra á meðal ungabörn hafa látið lífið. Einnig hefur borið á vandkvæðum þegar íbúar leggja sér til munns eitraðar plöntur eða hundakjöt.

Sjúkrahús hafa ekki einu sinni yfir nauðsynlegum sjúkravörum eða læknabúnaði að ráða og flestum hefur þurft að loka. Íbúar á svæðinu tjáðu Amnesty International frá því að í sumum tilfellum hafi vopnaðir stjórnarandstæðingar stolið lyfjum, sjúkrabílum og öðrum sjúkravörum. Einnig hefur endurtekið verið ráðist á heilbrigðisstarfsfólk. Að minnsta tólf heilbrigðisstarfmenn hafa verið handteknir frá því umsátrið hófst og sex horfið sporlaust. Vitað er að einn læknir lét lífið í kjölfar pyndinga sem hann sætti í varðhaldi sýrlenska hersins. Að sögn Amnesty International er það stríðsglæpur að gera lækna og hjálparstarfsfólk – sem aðstoða sjúka og særða – að skotmarki árása.

Umsátrið í Yarmouk jafngildir refsingu gegn öllum þeim sem í búðunum dvelja. Sýrlensk stjórnvöld verða tafarlaust að binda endi á umsátrið og leyfa óhindraðan aðgang hjálparsamtaka á svæðið.

Í síðasta mánuði sendi Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna frá sér ályktun þar sem skorað er á stríðandi fylkingar að binda endi á allt umsátur og gróf mannréttindabrot en ályktunin hefur enn ekki leitt til betri lífskjara Sýrlendinga.

Amnesty International krefst þess að hver sá sem er grunaður um að fremja eða skipa fyrir um stríðsglæpi eða glæpi gegn mannkyni verði sóttur til saka, meðal annars með því að vísa málinu til Alþjóðlega sakamáladómsstólsins. Samkvæmt Rómarsáttmálanum teljast sumar gjörðir, þeirra á meðal morð, pyndingar og þvinguð mannshvörf til glæpa gegn mannkyni ef þær beinast gegn óbreyttum borgurum á kerfisbundinn hátt.