Tæland: Herjað á börn sem mótmæla

Tælensk yfirvöld hafa áreitt og sótt börn til saka fyrir að nýta rétt sinn til að mótmæla friðsamlega. Hinsegin aðgerðasinninn Petch (Thanakorn Phiraban) hefur hlotið fangelsisdóm, réttarhöld standa yfir í máli Sand sem er 17 ára gömul og rannsókn stendur yfir í máli yfir Yok (Chan Tonnamphet), 15 ára aðgerðasinna fyrir réttindum frumbyggja í Tælandi.

Petch hlaut 18 mánaða fangelsisdóm fyrir brot á banni við gagnrýni á konungsríkið en hán var 17 ára þegar hán hélt ræðu á tveimur mótmælum. Yfirvöld hófu sakamál gegn Sand fyrir þátttöku í friðsamlegum mótmælum árið 2021. Yok sætir rannsókn vegna þess að hún tjáði áhyggjur sínar af aðgengi frumbyggja að landi sínu á baráttufundi í október 2022. Hún var handtekin vorið 2023 og gæti átt yfir höfði sér allt að 15 ára fangelsi.

Mál þessara þriggja einstaklinga eru dæmigerð fyrir viðbrögð tælenskra yfirvalda við mótmælum barna. Mótmælaalda hófst í landinu árið 2020 og eru nemendur undir 18 ára aldri stór hluti mótmælenda. Að minnsta kosti 284 börn hafa sætt rannsókn tælenskra yfirvalda fyrir að mótmæla friðsamlega eða tjá skoðun sína. Nemendurnir krefjast samfélagslegra umbóta í stjórnmálum, menntun og efnahagslegum- og félagslegum málaflokkum þar sem þeim þykir opinbera kerfið vera of íhaldssamt og þrúgandi.

SMS-félagar krefjast þess að tælensk yfirvöld leysi úr haldi öll börn sem hafa verið handtekin fyrir það eitt að tjá skoðun sína og mótmæla friðsamlega, felli niður allar ákærur og sakamál á hendur börnum, virði og verndi tjáningarfrelsi barna og geri úrbætur á lögum í samræmi við alþjóðleg lög.

Lestu nánar um aðför tælenskra yfirvalda að tjáningarfrelsi barna þar í landi.

15 ára stúlka handtekin í Tælandi