Taílenskar öryggissveitir beita pyndingum kerfisbundið gegn uppreisnarmönnum í suðurhluta landsins

Öryggissveitir í suðurhluta Taílands beita kerfisbundið pyndingum og annarri illri meðferð, samkvæmt nýrri skýrslu Amnesty International.

Öryggissveitir í suðurhluta Taílands beita kerfisbundið pyndingum og annarri illri meðferð, samkvæmt nýrri skýrslu Amnesty International.

Í skýrslunni, sem ber heitið Thailand: Torture in the southern counter-insurgency, segir að fólk sæti hrottafengnum barsmíðum, það sé brennt með kertum, grafið í jörðina upp að hálsi, gefið rafstuð og neytt til að þola mikinn hita eða kulda. Amnesty International hefur upplýsingar um að að minnsta kosti fjórir hafi látist í kjölfar pyndinga.

Þessi mannréttindabrot eiga sér stað í baráttu öryggissveita landsins gegn uppreisnarmönnum í héruðunum Narathiwat, Pattani, Songkhla, og Yala.

Uppreisnarmenn í Suður-Taílandi eru sekir um mikil ofbeldisverk, en ekkert réttlætir pyndingar öryggissveitanna. Pyndingar eru algerlega bannaðar og þær magna andstöðu íbúa svæðisins gegn stjórnvöldum.

Pyndingum í Taílandi hefur fækkað lítillega eftir að fjölmiðlar greindu í mars 2008 frá dauða manns í varðhaldi, sem líklega dó af völdum pyndinga. En pyndingar og önnur ill meðferð og refsileysi þeirra, sem pyndingar stunda, er enn svo algengt og útbreitt að ekki er hægt að segja að um sé að ræða einangruð tilvik og nokkra einstaklinga, sem ekki virða skipanir.

 

Amnesty International fór þess á leit við nýja ríkisstjórn forsætisráðherrans Abhisit Vejjajiva að hún gripi tafarlaust til ráðstafana til að binda enda á pyndingar og tryggja að hinir seku sættu ábyrgð. Abhisit lofaði því nýlega að sýna réttlæti til að binda mætti enda á langvinna uppreisn í suðurhluta Taílands.

Ofbeldið í suðurhlutanum endurspeglar langvarandi áhrifaleysi íbúa þar, sem eru múslímskir Malajar að mestu leyti.

 

Gengið var frá endanlegum landamærum Taílands og Malasíu í upphafi tuttugustu aldarinnar og síðan hafa tíðar uppreisnir verið á því svæði.

Svæðið er meðal fátækustu og vanþróuðustu svæða Taílands. Íbúar þar hafa lengi verið mjög andsnúnir tilraunum hins búddíska meirihluta og stjórnvalda í Taílandi til að laga íbúa suðurhlutans að öðrum svæðum landsins. Herskáar hreyfingar múslima hafa einnig sprottið upp í seinni tíð og eflt andóf á svæðinu.

Ofbeldi í suðurhlutanum hafði legið í láginni um nokkurra ára skeið, en blossaði aftur upp þegar múslímskir uppreisnarmenn réðust á birgðastöð hersins í Narathiwat-héraði og stálu hundruðum byssa og drápu fjóra hermenn þann 4. janúar 2004. Að minnsta kosti 3.500 manns hafa látist í átökum á svæðinu síðan þá.

Tölur frá yfirvöldum í mars 2008 sýndu að óbreyttir borgarar eru 66 prósent þeirra sem drepnir hafa verið í suðurhlutanum frá 2004. Rétt rúmlega helmingur látinna voru múslímar.

 

Skýrsla Amnesty International skoðar sérstaklega atburði frá mars 2007 til maí 2008. Samtökin fengu vitnisburð að minnsta kosti 34 einstaklinga, sem lentu í varðhaldi á því tímabili. Rætt var beint við þrettán fórnarlömb pyndinga, sem og ættingja og vitni að pyndingum og illri meðferð annarra.

Fórnarlömbin sögðu að algengustu pyndingaraðferðirnar hefðu verið barsmíðar, sparkað hefði verið í þau og traðkað á þeim og plastpokar settir yfir höfuð þeirra þannig að þau nærri köfnuðu.

 

Öryggissveitir Taílands hafa beitt pyndingum og annarri illri eða niðurlægjandi meðferð kerfisbundið til að:

fá upplýsingar

þvinga fram játningar þegar upplýsingaöflun og rannsóknarvinnu hefur verið áfátt

hræða fólk í varðhaldi og samfélög þess svo að þau láti vera að styðja uppreisnarmenn.

 

Amnesty International fékk margvíslegar upplýsingar um pyndingar og illa meðferð í Ingkharayuthboriharn herstöðinni í Pattani-héraði, sem bendir til þess að yfirvöld í landinu þurfi að beina sérstakri athygli að því að koma í veg fyrir slíkt athæfi í stöðinni.

Öryggisyfirvöld í Taílandi viðurkenna opinberlega einungis að uppreisnarmönnum sé haldið í tveimur varðhaldsmiðstöðvum. Skýrslur benda til þess að uppreisnarmönnum sé haldið í að minnsta kosti 21 annarri varðhaldsmiðstöð.

Amnesty International hefur hvatt taílensk yfirvöld til að loka nú þegar öllum varðhaldsmiðstöðvum sem þau gangast ekki við opinberlega. Samtökin hafa einnig hvatt taílensk yfirvöld til að endurbæta neyðartilskipun frá 2005, sem geymir mestan þann lagaramma sem öryggissveitir styðjast við í baráttunni gegn uppreisnarmönnum.

Þær endurbætur myndu heimila ættingjum, lögfræðingum og læknum að heimsækja fólk í varðhaldi og afnema refsileysi þeirra sem brjóta mannréttindi í störfum sínum fyrir yfirvöld á svæðinu.

 

LESTU SKÝRSLUNA:

 

Thailand: Torture in the southern counter-insurgency