Einn stærsti mannréttindaviðburður heims hefur sannarlega fest sig í sessi – Bréfamaraþon Amnesty International.
.
Einn stærsti mannréttindaviðburður heims hefur sannarlega fest sig í sessi – Bréfamaraþon Amnesty International. Á hverju ári í kringum 10. desember koma hundruð þúsunda saman víða um heim og skrifa bréf til stjórnvalda sem brjóta gróflega á mannréttindum fólks í eigin landi. Einnig gefst fólki kostur á að senda stuðningskveðjur til þolenda mannréttindabrota sem veitir þeim von og vissu um að umheimurinn hafi ekki gleymt þeim. Um er að ræða einstakan viðburð þar sem máttur samstöðunnar sýnir sig í verki í kröfu um réttlæti fyrir karlmenn, konur og börn um heim allan. Eins og framkvæmdastjóri Amnesty International Salil Shetty kemst að orði; „þó ef til vill megi kæfa niður eina rödd sem krefst réttlætis er ljóst að þúsundir slíkra radda hljóta hljómgrunn.“ Bréfamaraþon Amnesty International er vitnisburður um það sem samtökin standa fyrir – baráttu einstaklinga fyrir aðra einstaklinga, hverjir sem þeir eru og hvaðan sem þeir koma!
Viðburðurinn fer sífellt vaxandi. Á síðasta ári söfnuðust rúmlega tvær milljónir bréfa og korta í 143 löndum um heim allann til stuðnings þolendum mannréttindabrota og aldrei fyrr hafa jafn margir Íslendingar lagt bréfamaraþoni Amnesty International lið. Þeir sendu 51.219 bréf og kort utan í fyrra sem er ótrúlegur árangur og tvöföldun frá árinu áður.
Íslandsdeild Amnesty International vonar að þátttakan verði ekki síðri í ár og að fjölmenni verði á skrifstofu samtakanna, að Þingholtsstræti 27, laugardaginn 6. desember frá 13 til 18.
Notaleg jólastemming verður í fyrirrúmi, boðið verður upp kaffi og kruðerí og Sigríður Thorlacius, Guðmundur Óskar Guðmundsson og Svavar Knútur munu gleðja gesti með söng og undirspili.
Finna má dagskrána sem fram fer á öðrum stöðum á landinu hér: http://www.amnesty.is/starfid-okkar/frettir/nr/2989
Bréfin bera árangur
Á hverju ári eiga sér stað raunverulegar breytingar á lífi þolenda mannréttindabrota vegna undirskrifta þinna og aðgerða í bréfamaraþoni Amnesty International. Fólk sem er ranglega fangelsað er leyst úr haldi. Pyndarar eru látnir svara til saka og fólk í fangelsum fær mannúðlegri meðferð. Gott dæmi um raunverulega breytingu á lífi þolanda mannréttindabrots er saga Yorm Bopha frá Kambódíu en hún sat í fangelsi í þrjú ár eftir falskar ákærur á hendur henni vegna mótmæla gegn þvinguðum brottflutningi á fólki Phnom Penh. Hún var leyst úr haldi gegn tryggingu í nóvember 2013. Yfirvöld fengu nálægt 253.000 áköll frá stuðningsfólki Amnesty í 54 löndum og Yorm heldur nú áfram að berjast fyrir samfélagi sínu. Annað gott dæmi er mál egypska rithöfundarins og samviskufangans Musaad Fagr sem sat í fangelsi í 18 mánuði í heimalandi sínu við hörmulegar aðstæður. Á meðan hann sat í fangelsi fékk hann drep í fótinn en fangelsisyfirvöld veittu honum enga læknisaðstoð. Samfangi hans sem áður starfaði sem læknir skar drepið burt án deyfingar og Musaad náði að jafna sig með hjálp fjölskyldu sinnar sem færði honum lyf til að koma í veg fyrir sýkingu. Mál Musaad var tekið upp á bréfamaraþoni Amnesty árið 2009 og tugþúsundir sendu bréf til egypskra stjórnvalda og kröfðust lausnar hans. Hann var leystur úr haldi í júlí 2010.
Hér eru aðeins örfá dæmi nefnd um hvernig bréf þín hafa breytt lífi fólks á undanförnum árum.
Fleiri þurfa nú hjálpar þinnar við. Ekki láta þitt eftir liggja á aðventunni í baráttunni fyrir betri heimi. Hjálpaðu til. Taktu þátt í bréfamaraþoni Íslandsdeildar Amnesty International. Þar geturðu brugðist við vegna 12 áríðandi mála sem þurfa á athygli þinni að halda.
Það hefur aldrei verið einfaldara að taka þátt. Tilbúin bréf til stjórnvalda verða á öllum þeim 19 stöðum á landinu sem bréfamaraþonið fer fram í ár.
Þú getur einnig sent kort til fórnarlamba mannréttindabrota. Þeir sem ekki komast á einhvern þeirra staða sem að bréfamaraþonið er haldið geta tekið þátt á netinu. Farðu á www.netakall.is og taktu þátt!
