Taktu þátt í bréfamaraþoninu 2013!

Breyttu heiminum – bréf til bjargar lífi

Breyttu heiminum – bréf til bjargar lífi

Í baráttunni fyrir mannréttindum átt þú öflugt vopn. Vopn sem getur breytt heiminum.

NAFNIÐ ÞITT.

Bréf þín bera árangur. Taktu þátt í bréfamaraþoni Amnesty International – og veittu þeim von, sem búa við mannréttindabrot um heim allan.

Ef þú heldur að það sé gamaldags að skrifa bréf og tilgangslaust að setja blek á blað á tímum Facebook og Twitter, lestu þá sögur nokkurra einstaklinga sem þakka þátttakendum í bréfamaraþoni Amnesty International að þeir þurfa ekki lengur að þola gróf mannréttindabrot stjórnvalda.

Fleiri þurfa nú hjálpar þinnar við. Hjálpaðu til. Taktu þátt í bréfamaraþoni Amnesty – stærsta mannréttindaviðburði í heimi. Þar geturðu brugðist við vegna 12 áríðandi mála, sem þurfa á athygli þinni að halda. 

Það hefur aldrei verið einfaldara að taka þátt. Tilbúin bréf til stjórnvalda verða á staðnum. Þú getur einnig sent kort til fórnarlamba mannréttindabrota. 

Í ár tekur Íslandsdeild Amnesty International þátt í bréfamaraþoninu í ellefta sinn og fer það fram á 14 stöðum á landinu. Á sumum stöðum halda einstaklingar utan um framkvæmd bréfamaraþonsins en annars staðar var leitað eftir þátttöku almenningsbókasafna. Þá taka 11 framhaldsskólar víðs vegar um landið þátt. Við vonum að enginn láti sitt eftir liggja á aðventunni í baráttunni fyrir betri heimi.

Athugaðu: Borgarnes hefur nú bæst í hóp þeirra staða sem taka þátt og getur fólk farið í Gjafa, Borgarbraut 12, föstudaginn 6. desember frá kl. 10-23 og tekið þátt.

Þeir sem ekki komast á einhvern þeirra staða sem að bréfamaraþonið er haldið geta tekið þátt á netinu. Farðu á www.netakall.is og taktu þátt!

Á síðasta ári tóku 77 lönd þátt í bréfamaraþoninu og var slegið met í fjölda bréfa, korta og sms-skilaboða sem send voru stjórnvöldum. Hátt í 1.9 milljónir slíkra aðgerða voru teknar allt frá Íslandi til Indlands, og Barbados til Búrkína Fasó.

Hér að neðan geturðu séð hvar þú getur tekið þátt. Leggðu þitt af mörkum. Við þurfum á aðstoð þinni að halda.