Árlegt bréfamaraþon Amnesty International fór fram
á 19 stöðum á landinu dagana 3. til 17. desember 2014 og aldrei fyrr hafa jafn
margir Íslendingar lagt átakinu lið.
Árlegt bréfamaraþon Amnesty International fór fram á 19 stöðum á landinu dagana 3. til 17. desember 2014 og aldrei fyrr hafa jafn margir Íslendingar lagt átakinu lið. Bréfamaraþoninu, sem fram fer í 140 löndum, er ætlað að sýna þolendum mannréttindabrota stuðning og þrýsta á stjórnvöld sem bera ábyrgð á pyndingum, óréttmætri fangelsun og annarri illri meðferð á einstaklingum í eigin landi.
Fjöldi undirskrifta sem söfnuðust á Íslandi til stjórnvalda sem brjóta mannréttindi víðs vegar um heiminn sló öll met á síðasta ári. Alls söfnuðust tæplega 70.000 undirskriftir í gegnum sms-aðgerðanetið okkar, netákallið og á aðgerðakort og er það 40% aukning frá árinu áður. Einnig sendu margir kveðjur til þolenda brotanna. Af þeim tæplega 70.000 undirskriftum og kveðjum sem söfnuðust í bréfamaraþoninu árið 2014 á Íslandi voru 43.377 undirskriftir á aðgerðakort og stuðningskveðjur á jólakort.
Á annan tug bókasafna víðs vegar um landið lögðu bréfamaraþoninu lið sjötta árið í röð, auk þess sem einstaklingar á Akureyri, Borgarnesi, Egilsstöðum, Kópaskeri, Ísafirði og Reykjavík, tóku þátt og skipulögðu viðburði sem tókust með stakri prýði. Þá tók starfsfólk Reykjavíkurborgar einnig þátt í bréfamaraþoninu í fyrsta sinn, bæði í Ráðhúsi Reykjavíkur og á Höfðatorgi. Alls safnaði starfsfólk Reykjavíkurborgar 257 undirskriftum.
Á Akureyri söfnuðust 1.839 undirskriftir, í Borgarnesi 716 undirskriftir, í Reykjavík 1.879 undirskriftir, á Egilsstöðum 805 undirskriftir, á Höfn í Hornafirði 2.630 undirskriftir og á Ísafirði 395 undirskriftir.
Þá tóku sautján framhaldsskólar og háskólar víða um land þátt í bréfamaraþoninu og söfnuðu samanlagt 29.728 undirskriftum á aðgerðakort til stjórnvalda sem fremja gróf mannréttindabrot. Eftirtaldir skólar lögðu mannréttindabaráttunni lið; Borgarholtsskóli, Fjölbrautarskólinn við Ármúla, Fjölbrautarskólinn í Breiðholti, Flensborgarskólinn, Listaháskóli Íslands, Framhaldsskólinn á Laugum, Framhaldsskóli Mosfellsbæjar, Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands, Kvennaskólinn í Reykjavík, Menntaskóli Borgarfjarðar, Menntaskólinn við Hamrahlíð, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Menntaskólinn í Reykjavík og Verzlunarskóli Íslands. Þá tóku grunnskólanemar við Laugalækjarskóla enn fremur þátt.
Hver einasta undirskrift skiptir máli. Fyrir þolendur mannréttindabrota og fjölskyldur þeirra eru bréfin tákn um alþjóðlega samstöðu fólks sem lætur sér annt um réttindi þeirra og mannlega reisn.Einu bréfi til stjórnvalda er kannski ýtt til hliðar en það er erfitt að hunsa þúsundir slíkra bréfa sem öll fela í sér kröfu til stjórnvalda um úrbætur.
Bréfin bera sannarlega árangur. Á hverju ári eiga sér stað raunverulegar breytingar í lífi þolenda mannréttindabrota vegna undirskrifta ykkar og aðgerða! Fólk sem er ranglega fangelsað er leyst úr haldi. Fangar á dauðadeild eru náðaðir. Pyndarar eru látnir svara til saka og fólk í fangelsum fær mannúðlegri meðferð.
Við sendum öllu því góða fólki um land allt sem tók þátt í bréfamaraþoninu með einum eða öðrum hætti innilegustu þakkir fyrir að láta sig mannréttindabaráttuna svo miklu varða og óskum ykkur jafnframt til hamingju með þann ótrúlega árangur sem náðist á árinu 2014.
