Þeir mismuna. Við mótmælum. Það ber árangur

Þann 13. nóvember sl. samþykkti þjóðþing Nicaragua ný hegningarlög þar sem „sódómaákvæði“ var fellt út.

Þann 13. nóvember sl. samþykkti þjóðþing Nicaragua ný hegningarlög þar sem „sódómaákvæði“ var fellt út. Þessi lagabreyting á sér stað í kjölfarið á miklum alþjóðlegum þrýstingi, m.a. frá Íslandi. Þann 10. september sl. fóru fulltrúar Verndarvættanna, sem er baráttuhópur Amnesty International og Samtakanna 78, á fund ræðiskonu Nicaragua, Margrétar S. Björnsdóttur, og báðu hana að koma bréfi áleiðis til yfirvalda í Nicaragua, þar sem þess var krafist að „sódómaákvæðið“, sem gerir kynmök milli einstaklinga af sama kyni að glæpsamlegu athæfi, verði fellt úr lögum. Fundurinn var þáttur í alþjóðlegum aðgerðum sem miðuðu að því að fá þetta lagaákvæði afnumið og báru þær árangur þann 13. nóvember en nýju hegningarlögin ganga í gildi í mars á næsta ári.

 

Bakgrunnur

 

Þann 11. júní 1992 samþykkti þjóðþing Nicaragua nokkrar breytingar á hegningarlögum ríkisins, sem allar lutu að kynferðisglæpum. Ákvæðum um „sódómsku“ var bætt við 204 gr. laganna en þau voru svo hljóðandi: „Hver sá sem stofnar til, hvetur til, flytur áróður fyrir eða stundar, á hneykslanlegan hátt, kynmök milli einstaklinga af sama kyni fremur „sódómsku“ og skal hljóta 1 til 3 ára fangelsisdóm.“ Þannig urðu kynmök fullveðja einstaklinga af sama kyni gerð ólögleg. Lagaákvæðið brýtur gegn mannréttindasamningum sem Nicaragua eru aðili að, m.a. Alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.