Þekkt alþjóðleg vörumerki hagnast á nauðungarvinnu og barnaþrælkun

Mörg þekktustu vörumerki heims, í matvæla – og heimilisiðnaði, framleiða matvörur, snyrtivörur og nauðsynjavörur sem innihalda pálmaolíu sem unnin er í Indónesíu þar sem brotið er á mannréttindum verkafólks. 

Mörg þekktustu vörumerki heims, í matvæla – og heimilisiðnaði, framleiða matvörur, snyrtivörur og nauðsynjavörur sem innihalda pálmaolíu sem unnin er í Indónesíu þar sem brotið er á mannréttindum verkafólks.
Samkvæmt nýlegri skýrslu Amnesty International vinna börn allt niður í átta ára aldur við framleiðslu á pálmaolíu þar sem aðstæður eru skelfilegar.
Í skýrslunni, The great palm oil scandal: Labour abuses behind big brand names, er greint frá rannsókn Amnesty á framleiðslu pálmaolíu á plantekrum í Indónesíu sem reknar eru af fyrirtækinu Wilmar, einu stærsta sinnar tegundar í heimi í iðnbúskap. Rekja má mannréttindabrot í tengslum við pálmaolíuiðnaðinn til níu alþjóðafyrirtækja: AFAMSA, ADM, Colgate-Palmolive, Elevance, Kelloggs, Nestlé, Procter & Gamble, Reckitt Benckiser and Unilever.
„Fyrirtæki loka augunum fyrir misneytingu á verkafólki í birgðakeðju sinni. Þrátt fyrir að heita viðskiptavinum sínum því að engin misneyting eigi sér stað í birgðakeðju sinni halda stór vörumerki áfram að hagnast á skelfilegum mannréttindabrotum í pálmaolíuiðnaði. Þessar niðurstöður eru án efa áfall fyrir alla þá neytendur sem telja sér trú um að þeir séu að velja siðferðislega rétt þegar þeir kaupa vörur sem innihalda pálmaolíu og merktar eru sjálfbærri framleiðslu,“ segir Meghna Abraham, yfirmaður rannsóknarstarfs Amnesty International.
„Fyrirtækjarisar eins og Colgate, Nestlé og Unilever fullvissa neytendur um að vörur þeirra innihalda sjálfbæra pálmaolíu en rannsóknir okkar sýna að pálmaolían í vörunum er allt annað en sjálfbær. Það er engin sjálfbærni í vöru sem framleidd er með barnaþrælkun og nauðungarvinnu. Mannréttindabrot stórfyrirtækisins Wilmar við framleiðslu á pálmaolíu eru ekki einangrað dæmi heldur kerfisbundin og fyrirsjáanleg afleiðing viðskiptahátta fyrirtæksins. Eitthvað verulega mikið er að þegar níu stórfyrirtæki, sem veltu 325 milljörðum bandaríkjadala samanlagt árið 2015, geta ekki gripið til aðgerða vegna hryllilegrar meðferðar á verkafólki í framleiðslu á pálmaolíu, verkafólki sem þénar smáupphæðir.“
Amnesty International mun krefja fyrirtæki um að upplýsa neytendur hvort pálmaolían í vinsælum vörum eins og Magnum ís, Colgate tannkremi, Dove snyrtivörum, Knorr súpum, KitKat súkkulaði, Pantene sjampói, Ariel og Pot-núðlum, megi rekja til starfsemi Wilmar í Indónesíu.
Kerfisbundin mannréttindabrot í birgðakeðju stórfyrirtækja
Amnesty International ræddi við 120 verkamenn sem starfa á plantekrum í eigu tveggja dótturfyrirtækja Wilmar, þar sem pálmaolía er ræktuð og unnin. Enn fremur ræddi Amnesty við starfsfólk þriggja birgðasala fyrir Wilmar í Kalimantan og Súmatra á Indónesíu. Viðtölin og rannsóknin leiddi í ljós fjöldan allan af mannréttindabrotum sem felast meðal annars í því að:

.

Konur eru þvingaðar til að vinna mjög langar vinnustundir ella hótað launalækkun á tekjum sem eru langt undir grunnlaunum eða litlar 278 krónur á dag, í verstu tilfellunum. Konur búa einnig við mjög mikið atvinnuóöryggi án þess að njóta réttinda til ellilífeyris eða sjúkratrygginga.
Börn allt niður í átta ára aldur sinna áhættusamri, líkamlegri erfiðisvinnu og hætta oft í námi til að aðstoða foreldra sína á plantekrunum.
Verkamenn þjást af alvarlegum veikindum og meiðslum vegna notkunar á parakvat á plantekrunum, baneitruðu efni sem hefur verið bannað í löndum Evrópusambandsins og af Wilmar.
Verkamönnum sem vinna utandyra er ekki tryggður tilhlýðilegur öryggisbúnaður þrátt fyrir hættuna á skemmdum á öndunarfærum vegna hættulegrar mengunar sem orsakast af skógareldum sem áttu sér stað í Indónesíu frá ágúst til október árið 2015.
Verkamenn eru neyddir til að vinna langar stundir til að mæta fráleitum markmiðum vinnuveitenda. Vinnan felur í sér mikla líkamlega erfiðisvinnu sem m.a. krefst notkunar á þungu, handstýrðu tæki til að höggva niður pálmaávexti úr tuttugu metra háum trjám. Í tilraunum sínum til að mæta settum markmiðum líða verkamennirnir oft miklar líkamlegar kvalir. Þeir sæta einnig gjarnan refsingum fyrir ýmislegt eins og að hirða ekki pálmaávexti sem falla til jarðar eða að tína upp óþroskaða ávexti.

 Þrátt fyrir umrædd mannréttindabrot leiddi rannsókn Amnesty International í ljós að þrír af fimm pálmaolíuræktendum í Indónesíu eru með vottun fyrir að framleiða „sjálfbæra“ pálmaolíu samkvæmt stofnum sem kallast Roundtable on Sustainable Palm Oil sem sett var á laggirnar árið 2014 til að hreinsa nafn pálmaolíuiðnaðarins í kjölfar fjölda mála tengdum umhverfishneykslum.
„Skýrslan sýnir með skýrum hætti hvernig fyrirtæki nýta sér stofnunina sem skjöld til að standa af sér frekari skoðun. Rannsókn okkar sýnir að þessi fyrirtæki flagga öflugri stefnumótun og reglum á blaði en hvergi kemur fram að fyrirtækin vissu af augljósri hættu á að mannréttindabrot væru framin í birgðakeðju Wilmar,“ segir Seema Joshi, yfirmaður mannréttinda á sviði viðskipta hjá Amnesty International.
Niðurstöðurnar kasta rýrð á yfirlýsingar um „sjálfbærni“
Með því að skoða útflutningsgögn og ýmsar aðrar upplýsingar sem Wilmar hefur gefið út tókst rannsakendum Amnesty International að rekja pálmaolíu til níu alþjóðlegra fyrirtækja í matvæla- og heimilisiðnaði. Þegar gengið var á fyrirtækin staðfestu sjö þeirra að þau keyptu pálmaolíu frá útibúi Wilmar í Indónesíu en aðeins tvö fyrirtæki – Kelloggs og Reckitt Benckiser – voru tilbúin til að veita upplýsingar um þær vörur sem pálmaolíuna væri að finna í. Hérna má finna ítarlegar upplýsingar um svör fyrirtækjanna.
Öll fyrirtækin að undanskildu einu eiga sæti í Roundtable on Sustainable Palm Oil og halda því fram á vefsíðum sínum eða í vörumerkingum að þau noti „sjálfbæra pálmaolíu“. Ekkert af fyrirtækjunum sem Amnesty International hafði samband við neitaði því að mannréttindabrot væru framin í tengslum við starfsemi Wilmar en þau gátu engu að síður ekki nefnt dæmi um aðgerðir af þeirra hálfu til að takast á við réttindabrot Wilmar gegn launþegum.
„Neytendur munu vilja vita hvaða vörur tengjast mannréttindabrotum. Þrátt fyrir að standa andspænis mannréttindabrotum sem framin eru af stærsta birgðasala sínum þá fara fyrirtækin mjög dult með það hvaða tilteknu vörur þetta hefur áhrif á,“ segir Seema Joshi.
„Fyrirtæki verða að tryggja meira gagnsæi um innihald í vörum þeirra. Þau verða að láta uppi hvaðan hráefnið í vörum þeirra kemur. Þar til fyrirtækin gera slíkt munu þau hagnast á og jafnvel ýta undir þau brot sem eiga sér stað á mannréttindum launþega. Þau sýna algert virðingarleysi gagnvart neytendum sem telja sig vera að velja siðferðislega rétt þegar þeir borga fyrir vöruna við afgreiðsluborðið.“
Versta tegund barnaþrælkunnar afhjúpuð
Skýrsla Amnesty International greinir frá því hvernig börn á aldrinum átta til fjórtán ára sinna mjög hættulegri vinnu á plantekrum sem eru í eigu og rekin af útibúum og birgðarsölum Wilmar. Börnin vinna án öryggisbúnaðar á plantekrunum þar sem skaðlegt meindýraeitur er notað og bera þunga sekki af pálmaávöxtum sem vega allt frá 12 til 25 kíló. Sum barnanna hafa hætt til skóla til að vinna með foreldrum sínum ýmist allan daginn eða hluta af degi. Önnur börn vinna síðdegis, að loknum skóladegi, um helgar og á frídögum.
Fjórtán ára drengur sem tínir upp og ber pálmaávexti á plantekrunni í eigu Wilmar sagði Amnesty International að hann hafi hætt í námi þegar hann var tólf ára vegna veikinda föður síns sem gerði það að verkum að faðirinn gat ekki mætt þeim kröfum sem gerðar voru til vinnuframlags. Hann tjáði Amnesty International að systkini sín, tíu og tólf ára, ynnu einnig á plantekrunni eftir skóla.
„Ég hef aðstoðað föður minn á hverjum degi í tæp tvö ár. Ég var við nám þar til í sjötta bekk. Ég hætti í skólanum til að hjálpa föður mínum af því hann gat ekki sinnt vinnunni. Hann var veikur…ég sé eftir því að hafa hætt í skólanum. Mig langaði að halda áfram til námi til að vita meira. Mig langar að verða kennari.“
Líkamlega erfið og þreytandi vinna getur valdið börnum líkamlegum skaða. Tíu ára drengur sem hætti einnig námi til að aðstoða föður sinn sem vinnur fyrir Wilmar sagði Amnesty International að hann hafi vaknað klukkan sex á morgnana þegar hann var aðeins átta ára gamall til að safna saman og bera pálmaávexti sem féllu til jarðar. Hann vinnur sex klukkustundir dag hvern fyrir utan sunnudaga. „Ég geng ekki í skóla…ég þarf að bera sekk með ávöxtum í en ég get aðeins borið hálffullan sekk í einu. Það er mjög erfitt að bera sekkinn, hann er þungur. Ég ber hann líka í rigningu en það er mjög erfitt…mig verkjar í hendurnar og allan líkamann.“
Konur sæta nauðungarvinnu og mismunun  
Skýrsla Amnesty International undirstrikar mismunun sem konur verða fyrir við störf sín á plantekrum Wilmar. Þær fá ekki fastráðningu og er neitað um almannatryggingar samanber sjúkratryggingu og ellilífeyri.
Amnesty International greinir einnig frá tilfellum þar sem konur sæta nauðungarvinnu og hótunum af hálfu verkstjóra um launalækkanir eða um að fá engar launagreiðslur, í þeim tilgangi að þvinga þær til meiri vinnu. Kona sem vann við viðhald á pálmatrjám sagði Amnesty International hvernig hún var þvinguð, með beinum og óbeinum hótunum, til að vinna lengri vinnustundir. „Ef ég náði ekki settum markmiðum sögðu þeir mér að halda áfram að vinna en ég fékk ekkert greitt fyrir yfirvinnu…vinir mínir og ég tjáðum verkstjóranum að við værum mjög þreytt og að við vildum fá að fara. Verkstjórinn svaraði okkur á þá lund að ef við vildum ekki vinna skyldum við fara heim og ekki snúa aftur. Þetta er erfið vinna vegna þess að markmið vinnuveitandans eru skelfileg…mig verkjar í fæturnar, hendurnar og bakið að loknum vinnudegi.“
Löggjöf um réttindi launþega í Indónesíu er mjög ströng. Flest þessara mannréttindabrota myndu því falla undir hegningarlagabrot samkvæmt lögum landsins. Engu að síður er lögunum illa fylgt eftir. Amnesty International kallar eftir því að indónesísk stjórnvöld framfylgi lögunum og rannsaki þau mannréttindabrot sem fram koma í skýrslunni.